Menningarmerkingar
Reykjavíkurborg heiðrar minningu merkra kvenna með nýjum menningarmerkingum í Reykjavík. Þann 19. júní verða tvær merkingar settar upp, annars vegar til heiðurs Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður og hins vegar tveimur frumkvöðlum í kvenréttindabaráttunni, þeim Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason. Fyrrnefnda merkingin er á Skólavörðustíg 11, þar sem Tobbukot stóð, en sú síðari í Templarasundi. Þá verður hægt að hlýða á upplestur á skáldskap eftir nokkrar íslenskar skáldkonur á skáldabekkjum á Skólavörðustíg og Austurvelli.
Þorbjörg Sveinsdóttir
Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir (1827-1903) stundaði ljósmóðurstörf í Reykjavík frá 1864 til 1902 og var hún fyrsta embættisljósmóðir í bænum. Hún tók á móti fjölda Reykvíkinga, m.a. Halldóri Laxness, og var virt og dáð af bæjarbúum. Þorbjörg bjó í steinbæ við Skólavörðustíg sem var kenndur við hana og gekk undir nafninu Tobbukot. Hún var einn stofnenda Hins íslenska kvenfélags árið 1894 sem var fyrsta kvenfélagið á landinu. Tobba var mikill skörungur og lét sig menntun kvenna og almenn réttindi þeirra miklu varða.
Frumkvöðlar í kvenfrelsisbaráttu
Menningarmerkingin til heiðurs þeim Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason stendur við Templarasund, miðja vegum milli Alþingis og staðarins þar sem Góðtemplarahúsið (Gúttó) stóð. Bríet steig á svið í Gúttó þann 30. desember 1887 og hélt þar „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna.“ Hann er jafnan talinn marka upphaf kvenréttindabaráttu á Íslandi. Bríet var ein fjögurra kvenna sem fyrst tóku sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908 en það ár fengu konur kosningarétt í bæjarstjórnarkosningum. Þegar konur fengu kosningarétt 1915 hélt Bríet eina af tveimur aðalræðum í hátíðahöldum sem konur efndu til á Austurvelli. Hina ræðuna hélt Ingibjörg H. Bjarnason, skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík, sem stofnaður var 1875. Árið 1922 var Ingibjörg kjörin á þing, fyrst íslenskra kvenna, af sérstökum kvennalista þar sem hún sat til ársins 1930. Þar beitti hún sér fyrir margvíslegum málum sem snertu réttindi kvenna og barna. Hún fylgdi því sérstaklega eftir að stjórnin lét byggja spítala handa öllum landsmönnum, Landsspítalann, en konur söfnuðu fé til hans í minningu kosningaréttar kvenna.
Kvenskáldabekkir
Á tveimur skáldabekkjum má svo hlýða á upplestur eftir þær Svövu Jakobsdóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur, Auði Övu Ólafsdóttur, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Gerði Kristnýju, Valgerði Þóroddsdóttur og Björk Þorgrímsdóttur. Vegfarendur geta tyllt sér á bekkina, skannað rafrænan kóða með snjallsíma og hlustað á upplestur skáldkvennanna sjálfra og leikara á ljóðum og sögubrotum. Upplesturinn er einnig á ensku. Bekkirnir eru á Skólavörðustíg, við Hegningarhúsið, og á Austurvelli.
Menningarmerkingar Reykjavíkurborgar eru verkefni á vegum Borgarsögusafns, Listasafns Reykjavíkur og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar. Skáldabekkir í Reykjavík
eru á vegum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.