Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 65

Alþjóðleg bókmenntavika í Reykjavík

$
0
0

Þrír opnir viðburðir í tengslum við Iceland Writers Retreat

Iceland Writers Retreat verður haldið í Reykjavík í þriðja sinn frá 13. – 17. apríl 2016. Um er að ræða rithöfundabúðir þar sem fólk frá öllum heimshornum kemur saman í Reykjavík, tekur þátt í ritsmiðjum með alþjóðlegum höfundum, hittir íslenska rithöfunda og kynnist íslenskum bókmenntum, menningu og náttúru. Í ár eru þátttakendur yfir hundrað og leiðbeinendurnir eru tíu frá sex löndum. Meðal þeirra er Gerður Kristný en einnig býður Reykjavík Bókmenntaborg gestunum að hitta Steinunni Sigurðardóttur á Kjarvalsstöðum og þeir fara í bókmenntagöngu í miðbænum á vegum Borgarbókasafns. Þá munu gestirnir hitta fleiri íslenska höfunda, m.a. Vilborgu Davíðsdóttur, Hallgrím Helgason og Einar Kárason.

Þrír viðburðir sem opnir eru almenningi verða haldnir í tengslum við búðirnar. Þriðjudaginn 12. apríl verður upplestrardagskrá í Norræna húsinu með höfundunum tíu sem leiða smiðjurnar, en þeir koma frá Bandaríkjunum, Kanada, Indlandi, Finnlandi, Íslandi og Bretlandi. Fimmtudaginn 14. apríl verða svo tveir opnir viðburðir, annars vegar hádegiserindi með Kevin Larimer um mismunandi leiðir að því að fá ritsmíðar útgefnar, og hins vegar kanadískt bókmenntakvöld sem skipulagt er af International Festival of Authors í Toronto í samvinnu við Bókmenntaborgina og Iceland Writers Retreat.

Allir eru velkomnir á þessa viðburði og er aðgangur að þeim ókeypis. Þeir fara fram á ensku.

Þriðjudagur 12. apríl kl. 20
Bókmenntakvöld í Norræna húsinu

Höfundakvöld

Tíu höfundar frá sex löndum stýra smiðjum á Iceland Writers Retreat í ár. Þeir koma fram á bókmenntakvöldi í Norræna húsinu sem Egill Helgason stýrir. Höfundarnir eru Gerður Kristný frá Íslandi, sem m.a. hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin, rithöfundurinn, blaðamaðurinn og kvikmyndagerðarkonan Elina Hirvonen frá Finnlandi, leikskáldið, rithöfundurinn og blaðamaðurinn Mark Kurlanski frá Bandaríkjunum, læknirinn og rithöfundurinn Vincent Lam frá Kanada, indverski höfundurinn Neel Mukherjee sem tilnefndur hefur verið til Booker verðlaunanna, metsöluhöfundurinn Cheryl Strayed frá Bandaríkjunum sem er m.a. þekkt fyrir endurminningarbókina Wild, skáldsagnahöfundurinn Miriam Toews frá Kanada sem á verk þýdd á yfir tuttugu tungumál, Adelle Waldman frá Bandaríkjunum sem hefur hlotið alþjóðlega athygli fyrir skáldsöguna The Love Affairs of Nathaniel P, kennarinn, dýrafræðingurinn og blaðamaðurinn Andrew Westoll frá Kanada og loks sagnfræðingurinn, sjónvarpskonan og skáldsagnahöfundurinn Kate Williams frá Bretlandi.

Á vef Iceland Writers Retreat má lesa nánar um höfundana

Fimmtudagur 14. apríl kl. 12-13
Leiðin að útgáfu. Hádegiserindi Kevin Larimers í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101

Kevin Larimer

Kevin Larimer er aðalritstjóri Poets & Writers, stærstu samtaka í Bandaríkjunum sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, og þjónusta ljóðskáld og aðra höfunda bókmenntatexta. Hann mun spjalla um ýmsar brautir sem höfundar geta fetað á leið sinni að útgáfu bókmenntatexta, svo sem með birtingu í bókmenntatímaritum, þátttöku í ritlistarsamkeppnum eða með þjónustu umboðsmanna, miðlara eða útgefenda. Hann mun einnig ræða um álagið sem fylgir þessu ferli og því að koma sér á framfæri og stuðninginn sem finna má í ritlistarsamfélögum, svo sem ritlistarnámi, ritsmiðjum og öðrum bókmenntasamfélögum.

Að erindinu standa Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Iceland Writers Retreat í samvinnu við námsbraut í ritlist við Háskóla Íslands.

Fimmtudagur 14. apríl kl. 17:30-19
Kanadísk bókmenntadagskrá í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi

 

Helen Humphreys Joseph Kertes

Hér gefst lesendum tækifæri til að kynnast fjölbreyttri flóru kanadískra bókmennta. Fimm höfundar taka þátt í dagskránni en þeir skrifa ljóð, skáldsögur og bækur af ýmsu öðru tagi. Margir þeirra hafa hlotið virt verðlaun í heimalandinu, en heiðursgestir samkomunnar eru þau Helen Humphreys og Joseph Kertes. Helen er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur auk þess sem hún hefur skrifað skáldleg rit um sannsöguleg efni. Joseph Kertes er af ungverskum ættum en uppalinn í Kanada. Verk hans eru húmorísk en hann hefur bæði sent frá sér skáldverk fyrir fullorðna og börn. Kertes er stofnandi háskóladeildar sem sameinar ritlist og uppistand eða framkomu og hefur hann hlotið verðlaun fyrir kennslu og nýsköpun. Með þeim verða fyrrnefndir samlandar þeirra sem leiðbeina á Iceland Writers Retreat í ár, Vincent Lam, Miriam Toews og Andrew Westoll.

Hver höfundur mun lesa örstutt úr nýjasta verki sínu og síðan verða pallborðsumræður.

Dagskráin er skipulögð af International Festival of Authors í Toronto í samstarfi við Iceland Writers Retreat og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Sjá nánar um viðburðinn og lesið um höfundana hér


Viewing all articles
Browse latest Browse all 65