54 þúsund bækur lesnar
Lestrarátak Ævars vísindamanns stóð frá 1. janúar – 1. mars 2016. Í morgun, mánudaginn 14. mars, var dregið úr innsendum lestrarmiðum og þá kom í ljós hvaða lestrarhestar verða persónur í næstu bók Ævars.
Talning á innsendum miðum leiddi í ljós að alls voru 54 þúsund bækur lesnar í átakinu að þessu sinni. Krakkar á öllu landinu í 1. – 7. bekk gátu tekið þátt. Þátttakan var mjög góð því stór hluti skóla sendi inn lestrarmiða og m.a.s. einn skóli utan landsteinanna. Það var Gladsaxeskóli í Danmörku en þar eru íslensk börn meðal nemenda. Verðlaunin eru ekki af verri endanum, en þau felast í því að nokkrir heppnir þátttakendur verða gerðir að persónum í næstu bók Ævars, Bernskubrek Ævars vísindamanns: Vélmennaárásin. Bókin kemur út nú í apríl.
Krakkarnir sem dregnir voru úr lestrarátakspottinum eru í Grunnskólanum í Sandgerði, Laugarnesskóla í Reykjavík, Hörðuvallaskóla, Árskóla á Sauðárkróki og í Hríseyjarskóla.
Þetta er í annað sinn sem Ævar vísindamaður stendur fyrir lestrarátaki meðal íslenskra barna. Í fyrra stóð átakið yfir í lengri tíma, eða fjóra mánuði, og þá lásu þátttakendur alls um 60 þúsund bækur.