Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all 65 articles
Browse latest View live

Menningarviðurkenningar RÚV

$
0
0

Rithöfundasjóður, Leiklistarsjóður, Tónskáldasjóður og orð ársins

Á þrettándanum, þann 6. janúar, voru menningarviðurkenningar RÚV afhentar í Efstaleitinu við hátíðlega athöfn. Við sama tækifæri var einnig tilkynnt hvaða orð var valið orð ársins 2015 í kosningu sem RÚV, Árnastofnun og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, standa saman að. Þá var Króknum úthlutað, verðlaunum fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2015.

Verðlaunahafar

Auður Jónsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Sjá lista yfir verðlaunahafa fyrri ára á vefnum bokmenntir.is

Fjórir styrkir voru veittir úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen við Ríkisútvarpið. Að þessu sinni var auglýst eftir handriti að frumsömdu útvarpsleikriti og handriti að frumsömdu leiknu sjónvarpsefni. Alls bárust 93 umsóknir. Þar af 29 fyrir útvarpsverk og 64 fyrir sjónvarpsverk.

Þrír styrkir voru veittir fyrir handrit að útvarspleikriti:

Heiðar Sumarliðason fyrir handrit að útvarpsleikritinu Iðraólga.
Kristín Eiríksdóttir fyrir handrit að útvarpsleikritinu Illa leikið.
Salka Guðmundsdóttir fyrir handrit að útvarpsleikritinu Eftir ljós.

Einn styrkur var veittur fyrir handrit að leiknu sjónvarpsefni:

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Halldór Halldórsson fyrir handrit að leikinni sjónvarpsþáttaröð sem ber nafnið Afturelding.

Á síðasta ári voru veittir 46 styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Styrkirnir eru veittir til að semja ný sinfónísk tónverk, kammerverk, verk fyrir einstök hljóðfæri, kórverk, hljóðritun íslenskra tónverka o.fl. Sjóðurinn er gegnumstreymissjóður og því er heimilt að úthluta innistæðu hans eins og hún er á hverjum tíma. Síðasta úthlutun var í árslok 2015. Tónskáldasjóðurinn hefur verið starfræktur í meira en 60 ár. Að honum standa Ríkisútvarpið og STEF.

Hljómsveitin Agent Fresco hlaut Krókinn 2015 – viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi flutning á árinu og var rökstuðningur fyrir verðlaununum eftirfarandi: Agent Fresco gaf út stórgóða plötu í ágúst á þessu ári og hefur verið dugleg við að fylgja henni eftir. Hljómsveitin tók Airwaves hátíðina með trompi og sennilega voru það tónleikar þeirra á miðvikudagskvöldinu í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 sem vöktu mesta athygli og voru tvímælalaust með bestu tónleikum hátíðarinnar.

Orð ársins

Fössari var valið Orð ársins 2015. Valið fór fram í opinni vefkosningu á ruv.is og þetta er í fyrsta sinn sem slíkt val fer fram. Valið stóð um tíu orð sem þóttu endurspegla umræðuna í þjóðfélaginu á liðnu ári : deilihagkerfi, dróni, fössari, góða fólkið, grænkeri, hópfjármögnun, lundabúð, matarsóun, núvitund og rafretta.

 


Menningarstyrkir Reykjavíkurborgar

$
0
0

Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar styður menningarlífið

Úthlutun styrkja menningar- og ferðamálaráðs og útnefning Tónlistarhóps Reykjavíkurborgar fór fram á Kjarvalsstöðum 18. janúar. Elsa Yeoman formaður ráðsins gerði grein fyrir úthlutuninni og öðru framlagi til menningarmála.

Um er að ræða verkefnastyrki, styrki til almennrar liststarfsemi og langtímasamninga sem skiptast í samstarfssamninga og Borgarhátíðasjóð. Ánægjulegt er að sjá að verkefni tengd ritlist og ritsmiðjum fyrir ungfólk eru meðal verkefna sem fengu styrk í ár og barnabókahátíðin Mýrin sem haldin er annað hvert ár og verður nú í haust. Leikhópar og leiklistahátíðir fá sinn hlut í ár. Sjálfstæðu leikhóparnir sýna mikla grósku og fjölbreytileika í leikhúslandslaginu og verður gaman að fylgjast með þeim í ár og áfram.

Hæsta styrkinn hlýtur Heimili kvikmyndanna – Bíó Paradís, 12.5 m.kr í ár og 2017. Nýlistasafnið fær 9.5 m.kr, þá koma RIFF og Hinsegin dagar með 5 m.kr. hvor úr Borgarhátíðasjóði næstu þrjú árin. Kling og Bang hlýtur 4,5 m.kr, Reykjavík Dance Festival og leiklistarhátíðin Lókal hljóta 3 m.kr árlega hvor úr Borgarhátíðasjóði næstu þrjú árin og Samtök um danshús tvær milljónir til tveggja ára. Langtímasamningar eru með fyrirvara um samþykki borgarráðs og heimildir í fjárhagsáætlun hverju sinni.

Aðrir hæstu styrkir eru til Reykjavík Fashion Festival 2016 2 m.kr, Secret Solstice 1,5 m.kr, Barnabókmenntahátíðinnar Mýrin 1, 2 m.kr og 1 m.kr hljóta Nýsköpunarsjóður tónlistar – Musica Nova, myndlistarhátíðin Sequences, kvikmyndahátíðin Stockfish, Tónleikaröð Jazzklúbbsins Múlinn, Norrænir músíkdagar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins sem jafnframt er útnefnd Tónlistarhópur Reykjavíkur 2016.

Fyrir voru á langtímasamningum 10 hátíðir og 4 listhópar með samtals 41.8 m.kr. Í ár bárust 201 umsókn þar sem sótt var um samtals 450 m.kr. Veitt var vilyrði fyrir 102 styrkjum sem námu samtals þeim 86 m. kr. sem lausar voru nú til úthlutunar. Styrkveitingar litast sem fyrr af gróskumiklu menningarlífi í borginni. Menningarstefna Reykjavíkurborgar er sá grundvöllur sem styrkveitingar ráðsins byggja á og felur það ráðgefandi faghópi að fara yfir styrkumsóknirnar og gera tillögur til ráðsins. Ráðgjafahópurinn er skipaður fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar auk Samtaka ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu vegna Borgarhátíðarsjóðs. Samþykkti ráðið tillögur faghópsins óbreyttar.

styrkhafar á Kjarvalsstöðum 011
Styrkhafar á Kjarvalstöðum 18. janúar

Heildaryfirlit yfir styrkveitingar menningar- og ferðamálaráðs 2016:

Samstarfssamningar 2016 og 2017: 12.5 m.kr. Heimili kvikmyndanna og 2 m.kr. Samtök um danshús.
Samstarfssamningar 2016: 9.5 m.kr. Nýlistasafnið og 4.5 m. kr. Kling og Bang gallerí.

5 m.kr. Borgarhátíðasjóður 2016, 2017 og 2018: RIFF og Hinsegin dagar í Reykjavík

3 m. kr. Borgarhátíðasjóður 2016, 2017 og 2018: Lókal leiklistarhátíð og Reykjavík Dance Festival.

1 m.kr. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins – Tónlistarhópur Reykjavíkur 2016
Fjárveitingar borgarinnar eftir fyrsta árið eru gerðar með fyrirvara um samþykkt borgarráðs og fjárheimildir skv. fjárhagsáætlun á hverju ári eftir það.

kjarvalstaðir002

Aðrir styrkir árið 2016:

2 m. kr . Reykjavík Fashion Festival.
1.5 m. kr. Secret Solstice Festival.
1.2 m. kr. Mýrin – félag um barnabókmenntahátíð.
1 m. kr. Musica Nova – Nýsköpunarsjóður tónlistar, Múlinn jazzklúbbur, Norrænir músíkdagar í Reykjavík, Sequences myndlistarhátíð, Stockfish kvikmyndahátíð.
850.000 kr. Iceland Writers Retreat.
800.000 kr. Mengi menningarhús.
750.000 kr. Hönnunarmiðstöð Íslands v. Design Talks, Möguleikhúsið
700.000 kr. ASSITEJ, IBBY á Íslandi, Íslensk tónverkamiðstöð v. Yrkju, Kammerhópurinn Nordic Affect.
600.008 kr. Harbinger sýningarými.
600.000 kr. Leirlistafélagið.
500.000 kr. Alþjóðlega tónlistarakademían í Hörpu, Hverfisgallerí, Íslensk grafík, Karlakórinn Fóstbræður, Listvinafélag Hallgrímskirkju, Ljósmyndahátíð Íslands, Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla á Íslandi Rósa Ómarsdóttir v. Traces, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra v. Barnamenningarhátíðar á degi íslensks táknmáls, SJS Big Band.

400.000 kr. Anna Kolfinna Kuran v. Maestro, Fatahönnunarfélag Íslands, Handverk og hönnun, Heimilislausa leikhúsið ETHOS, Heimstónlist í Reykjavík, Kammermúsíkklúbburinn, Leikhópurinn Háaloftið v. Biðstofunnar, Leikhúsið 10 fingur, Listasafn ASÍ.

350.000 kr. Barnamenningarfélagið Skýjaborg, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir v. Leikhús meður kíki, Edda Björg Eyjólfsdóttir v. leikverksins Þórbergur, Ekkisens sýningarými, Elma Lísa Gunnarsdóttir v. Lóaboratoríum, Halaleikhópurinn, Lúðrasveit Reykjavíkur, Lúðrasveitin Svanur, Lúðrasveit Verkalýðsins, María Pálsdóttir v. Pörupilta, Plús Film v. Ef veggirnir hefðu eyru, Reykjavík Peace Festival, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir v. söngleiksins Fíll.

300.000 kr. 15:15 tónleikasyrpan, Anna Guðrún Líndal v. Infinite Next, Elektra Ensemble, Gjörningaklúbburinn, Hannesarholt v. tónleika farfugla, Hraðar hendur v. táknmálssýningar, Kvenfélagið Garpur v. dansleikhúsverksins Og allir vilja vera á sviðinu, Margrét Kristín Sigurðardóttir v. leikverksins Ósagt, Margrét Sara Guðjónsdóttir v. dansverksins Hypersonic States, Nýlókórinn, RaTaTam v.leikverksins SUSS!!!, Sigríður Soffía Níelsdóttir v. dansleikhúsverksins Þín er ljúft að líða elska og bana bíða, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Sumarópera unga fólksins, Tónskóli Sigursveins v. Lögin hennar Hildigunnar.

250.000 kr. Erla Steinþórsdóttir v. ritlistarsmiðjunnar Skáldhugi,Hinsegin kórinn, Jóhanna Vala Höskuldsdóttir v. leikhúsverkefnisins Villikellingar, Kara Hergils Valdimarsdóttir v. einleiksins Hún pabbi, Kvennakórinn Vox Feminae, Leikhúslistakonur 50+, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir v. dans- og tónleikaverksins The Great Blues Whale, Pamela De S. Kristbjargardóttir v. barnatónleika á Myrkum músíkdögum, Steinunn Marta Önnudóttir v. Bækur á bakvið, Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir vegna Mitt hefur nef – stuttmynd.

200.000 kr. Barnamenningarfélagið Skýjaborg v. Cleiti craicailte-Furðurfuglafjaðrir, Elísabet Birta Sveinsdóttir v. dansverksins Cold Intimacy, Félag íslenskra gullsmiða, Félag íslenskra tónlistarmanna v. Klassík í Vatnsmýrinni, Furðuleikhúsið v. Sóla og Sólin, Gígja Jónsdóttir v. dansleikhúsverksins A Guide to the Perfect Human, Kriðpleir v. Ævisaga einhvers, Leikfélagið Hugleikur, Listafélag Langholtskirkju, Opið út v. leiksýningarinnar To perform or not, Raflistafélag Íslands v. Raflost, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir v. Tunglstundin, S.L.Á.T.U.R v. Sláturtíð 2016, Sverrir Guðjónsson v. Rökkursöngvar, Tónlistarhópurinn Umbra, Þorsteinn Örn Kolbeinsson v. Wacken Metal Battle 2016.

150.000 Ungleikur.

142.000 Erla Steinþórsdóttir v. Hingað til…

Fjöruverðlaunin afhent í Höfða

$
0
0

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Þetta er í tíunda skipti sem verðlaunin eru veitt og í annað sinn sem borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO og verndari verðlaunanna, afhendir þau.
Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu og frú Vigdís Finnbogadóttir steig á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Að lokinni afhendingu Fjöruverðlaunanna 2016 í Höfða. F.v. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Védís Skarphéðinsdóttir,  forseti Fjöruverðlaunanna,  Þórunn Sigurðardótti fékk verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, Hildur Knútsdóttir fékk verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta og Halldóra K. Thoroddsen í flokki fagurbókmennta og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Að lokinni afhendingu Fjöruverðlaunanna 2016 í Höfða. F.v. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Védís Skarphéðinsdóttir, forseti Fjöruverðlaunanna, Þórunn Sigurðardótti fékk verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, Hildur Knútsdóttir fékk verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta og Halldóra K. Thoroddsen í flokki fagurbókmennta og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur

Hér fyrir neðan er rökstuðningur dómnefnda:

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta:
Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
Útgefandi: 1005 Tímaritaröð / Bókaútgáfan Sæmundur
Í Tvöföldu gleri er skrifað um konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Þegar hún lendir óvænt í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, en jafnframt sýnir saga hennar á einstakan máta fram á fegurð slíkra ásta.
Tvöfalt gler er þétt, skrifuð af einstöku næmi og hún er „stór“ þótt hún sé stutt. Höfundur dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana. Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Verðlaunasagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur – og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta:
Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
Útgefandi: Forlagið
Vetrarfrí er spennandi unglingabók með sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna. Bókin færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum. En þó að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni og því um leið líka stórskemmtileg.
Í sögunni er áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá hversdagslegri tilveru unglinga og barna yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og jafnvel í stríði heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sína drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.

Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Bókin hefur að geyma frumrannsókn Þórunnar Sigurðardóttur á lítt rannsökuðu efni. Í henni rýnir höfundur í íslensk tækifæriskvæði frá árnýöld, sem ort voru í minningu látinna, og sýnir fram á að þau heyri undir mismunandi kvæðagreinar. Þau 17 kvæði sem birt eru í bókinni hafa hingað til verið varðveitt í handritum og sjást nú flest í fyrsta sinn á prenti, en þar á meðal eru tvö kvæði eftir íslenskar konur.
Auk fræðilegrar dýptar hefur bókin mikla breidd í efnistökum. Þórunn fer ótroðnar slóðir í rannsókn sinni og greiningu, skoðar félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðanna út frá samfélagsviðmiðum á ritunartíma þeirra og ber saman við hugmyndir nútímans. Jafnframt skoðar hún tengsl kvæðanna við heiður hins látna og einnig hvernig skáld gátu nýtt sér ritun erfiljóða til að auka eigin metorð.

Einnig voru tilnefndar eftirfarandi bækur:

Fagurbókmenntir:
• Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
• Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur

Barna- og unglingabókmenntir:
• Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
• Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
• Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
• Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2015 skipa:

Fagurbókmenntir:
• Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir, íslenskukennari og málfarsráðgjafi hjá RÚV
• Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
• Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, bókmenntafræðingur og rithöfundur

Barna- og unglingabókmenntir:
• Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
• Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
• Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, teiknari og hreyfimyndagerðamaður

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
• Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
• Erna Magnúsdóttir, líffræðingur
• Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari

Vilborg Davíðsdóttir tekur við starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

$
0
0

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur tekið við starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands á yfirstandandi vormisseri. Hún mun vinna með ritlistarnemum að ritun sögulegra skáldverka.

Árið 2015 stofnaði Hugvísindasvið Háskóla Íslands til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Fyrstur til að gegna starfinu var Sigurður Pálsson skáld.

Guðmundur Hálfdánarson og Viðborg Davíðsdóttir
Viðborg Davíðsdóttir rithöfundur og Guðmundur Hálfdánarson forseti Hugvísindasviðs.

Vilborg hefur sérhæft sig í ritun sögulegra skáldsagna þar sem konur eru miðsviðs. Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Þriðja bók Vilborgar er Eldfórnin (1997), söguleg skáldsaga sem byggir á atburðum sem urðu í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld þegar nunna var brennd þar á báli, og sú fjórða Galdur (2000) sem sömuleiðis byggir á sögulegum atburðum og gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar réðu lögum og lofum á Íslandi. Fimmta skáldsaga hennar, Hrafninn (2005), er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld og örlögum byggðanna sem stofnað var til þar af landnámsfólki frá Íslandi um árið 1000. Næst kom skáldsagan Auður (2009) sem fjallar um uppvaxtarár Auðar Ketilsdóttur djúpúðgu á eynni Tyrvist undan Skotlandsströndum. Framhald hennar, Vígroði, kom út haustið 2012.

Auk þessa að hafa skrifað sögulegar skáldsagur hefur Vilborg þýtt þrjár bækur og skrifað fjölda greina. Nýjasta bók hennar, Ástin, drekinn og dauðinn, kom út 2015.

Gestadvöl í Prag

$
0
0

Auglýst eftir umsóknum

Bókmenntaborgin Prag í Tékklandi auglýsir eftir umsóknum um gestadvöl frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO, þar á meðal Reykjavík. Skilafrestur umsókna er 29. febrúar næstkomandi.

Rithöfundar og þýðendur geta sótt um gestadvöl. Auglýst er eftir umsóknum um þrjú tímabil nú í ár: júlí og ágúst, september og október eða nóvember – 15. desember. Tilkynnt verður hverjir hreppa hnossið þann 31. mars.

Umsóknir og fyrirspurnir sendast til Rödku Návarova: radka.navarova@mlp.cz

Prag, sem hefur verið ein af Bókmenntaborgum UNESCO frá árinu 2014, býður erlendum rithöfundum og þýðendum að dvelja við ritstörf í borginni um tveggja mánaða skeið. Tekið er á móti sex höfundum ár hvert. Fyrst um sinn verður eingöngu tekið á móti höfundum frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO, en borgirnar eru nú tuttugu talsins að Prag meðtaldri. Við fyrstu úthlutun í fyrra sóttu höfundar frá Dublin, Dunedin, Melbourne, Norwich og Reykjavík um gestadvöl og var einn íslenskur höfundur meðal þeirra fjögurra sem urðu fyrir valinu. Þessir fjórir höfundar eru Liam Pieper (Melbourne), Sarah Perry (Norwich), David Howard (Dunedin) og Friðrik Rafnsson (Reykjavík).

Hér má lesa eða hlusta á viðtal sem David Vaughan tók við Liam Pieper og Katerinu Bajo um gestadvölina fyrir útvarpið í Prag.

Bókmenntaborgin Prag poster

Umsóknarferlið og gögn

Gögn sem fylgja þurfa umsókn (öll skjöl þurfa að vera á ensku):

• Ferilskrá
• Ástæða umsóknar (markmið, væntingar, verk sem vinna á að, hugmynd (concept) verks
• Listi yfir útgefin verk
• Brot úr birtu verki (þýðing ekki skilyrði hér); dómar um birt verk
• Kynning á væntanlegu verki (verki sem vinna á að á dvalartíma)

Við val á gestahöfundum er litið til:

• Áhuga á menningu í Prag / Tékklandi.
• Valds á enskri tungu.
• Birtra verka. Viðkomandi þarf að hafa birt a.m.k. eitt ritverk (ekki sjálfsútgáfa) eða fimm texta í viðurkenndu tímariti eða safnriti, tvö útvarpsleikrit eða eitt sviðsverk í tilfelli leikskálda, eða eitt þýtt verk eftir tékkneskan höfund í tilfelli þýðenda.
• Vilja til að taka þátt í menningarlífinu á staðnum (lesa upp, hitta nemendur, halda erindi eða taka þátt í öðrum viðburðum sem eru skipulagðir af gestgjöfunum eða tengjast menningalífinu í Prag).
• Vinnu. Viðkomandi þarf að nýta dvölina til vinnu við viðkomandi verk.

Höfundur sem hlotið hefur gestadvöl getur ekki sótt um aftur.

Innifalið:

Húsnæði, flugfar og dvalareyrir að upphæð €600 á mánuði.

Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári. Næst verður úthlutað mánuðunum janúar – febrúar, mars – apríl og maí – júní 2017. Kallað verður eftir umsóknum eigi síðar en 31. júlí 2016 og umsóknarfrestur um dvöl þessa mánuði verður í lok ágúst.

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis

$
0
0

Tíu bækur tilnefndar

Í gær, þriðjudaginn 2. febrúar 2016, var tilkynnt hvaða bækur eru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2015. Það var gert í Borgarbókasafninu í Grófinni. Viðurkenningin verður síðan veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Verðlaunin nema einni milljón króna.

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu. Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, stendur að valinu en það hóf störf um miðjan október og fundað vikulega.

Viðurkenningarráðið skipa að þessu sinni: Baldur Sigurðsson íslenskufræðingur, Kristin Svava Tómasdóttir sagnfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Þorbjörn Broddason félagsfræðingur, Þórunn Blöndal íslenskufræðingur. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra Hagþenkis.

Viðurkenning Hagþenkis 2015

Tilnefndar bækur og rökstuðningur

Bjarni F. Einarsson. Landnám og landnámsfólk. Saga af bæ og blóti. Skrudda.
Í metnaðarfullu verki um einstakan fornleifafund er varpað nýju ljósi á líf og siðvenjur landnámsfólks á Íslandi.

Bjarni Guðmundsson. Íslenskir sláttuhættir. Opna og Hið íslenska bókmenntafélag.
Höfundur opnar lesandanum skýra sýn á stórmerkan þátt í atvinnusögu þjóðarinnar og tekst að gæða afmarkað viðfangsefni lífi og lit.

Gunnar Þór Bjarnason. Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918. Mál og menning.
Frumlegt verk þar sem fléttað er saman í læsilegum texta frásögnum af ógnaratburðum úti í heimi og viðbrögðum Íslendinga við þeim.

Mörður Árnason (umsjón og ritstjórn). Passíusálmarnir. Crymogea.
Í þessu mikla verki skýrir umsjónarmaður orð og hugsun í hverju erindi og hverjum sálmi og rekur kunnáttusamlega þræði hugmynda, skáldskapar og guðfræði.

Ólafur Gunnar Sæmundsson. Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra. Ós.
Vönduð bók, byggð á traustum fræðilegum grunni, þar sem upplýsingar um heilsusamlegt líferni og holla fæðu eru settar fram á skýran hátt í texta og myndum.

Páll Baldvin Baldvinsson. Stríðsárin 1938–1945. JPV.
Í þessu umfangsmikla verki er dregin upp fjölbreytt og áhrifarík mynd af ljósum og dökkum hliðum stríðsáranna, samfélagslegum átökum og örlögum einstaklinga.

Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir. Rof. Frásagnir kvenna af fóstureyðingum. Háskólaútgáfan.
Í þessu tímabæra verki er vakin athygli á mikilvægu málefni. Ólíkar raddir kvenna fá að hljóma og dregnir eru fram sameiginlegir þræðir í sögum þeirra.

Smári Geirsson. Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915. Sögufélag.
Afar fróðleg frásögn í máli og myndum af ævintýralegum þætti íslenskrar efnahags- og atvinnusögu.

Soffía Auður Birgisdóttir. Ég skapa — þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar. Opna.
Metnaðarfullt og þarft verk um framlag þessa sérstæða og umdeilda höfundar til íslenskra bókmennta, skrifað á aðgengilegan og líflegan hátt.

Þórunn Sigurðardóttir. Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Með smitandi áhuga sínum og þekkingu kennir höfundur lesendum að skilja og meta löngu gleymdan kveðskap 17. aldar.

Ég skapa þess vegna er ég heidur-og-huggun Íslenskir sláttuhættir Landnam-og-landnamsfolk-175x229 Lifstrottur_kapa_400 Passíusálmarnir Rof frásagnir kvenna af fóstureyðingum Stórhvalaveiðar við Ísland Stridsarin_1938til1945 Thegar_sidmenninginfortilfjandans

Hér má sjá hvaða bækur hafa verið tilnefndar frá upphafi.

 

 

Poetick – Ljóðstöðumælir

$
0
0

Viltu fá ljóðið þitt birt í ljóðstöðumæli á Nýja Sjálandi?

Poetick er tilraunaverkefni í borginni Dunedin á Nýja Sjálandi, sem er ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Það felst í því að ljóð eru prentuð á stöðumælakvittanir, litlu miðana sem fólk fær úr greiðsluvélum og kemur svo fyrir í bílum sínum. Markmiðið er að breiða út ljóðlistina og gera hana að hluta af daglegu lífi fólks um leið og þessi hversdagslega athöfn sem fólk lítur oft neikvæðum augum er gerð skemmtileg með þessum óvæntu skilaboðum.

Ungur hönnuður, Ben Alder, stendur að verkefninu ásamt nokkrum öðrum hönnuðum og þeir leita nú eftir ljóðum frá öðrum Bókmenntaborgun UNESCO til að prenta á miðana.

Fyrst um sinn er aðeins um eina greiðsluvél að ræða sem er sett upp sem sýningargripur á Toitu Otaga Settlers Museum í Dunedin. Markmiðið er að verkefnið fái vængi og verði í framtíðinni ekki eingöngu að veruleika í Dunedin heldur einnig í öðrum borgum hvar sem er í heiminum.

Ljóðskáld í Reykjavík sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta sent inn ljóð til aðstandenda Poetick á netfangið team@poetick.org.

Miðarnir eru litlir og því þurfa ljóðin að vera stutt (undir 60 orðum). Eingöngu er tekið við ljóðum á ensku. Á miðanum kemur fram hver orti ljóðið og frá hvaða borg skáldið er.

Í stiklunni hér fyrir neðan má sjá hvernig ljóðstöðumælarnir virka:

Poetick_Dunedinvideo

 

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015

$
0
0

Þrjár bækur verðlaunaðar

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 10 febrúar 2016.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess fá verðlaunahafar skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripi sem hannaðir eru af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens. Er það opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, flokki barna- og ungmennabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015

 

Eftirtalin verk hlutu verðlaunin að þessu sinni:

Barna- og ungmennabækur

Gunnar Helgason: Mamma klikk! Útgefandi: Mál og menning

Fagurbókmenntir

Einar Már Guðmundsson: Hundadagar . Útgefandi: Mál og menning

Fræðirit og bækur almenns efnis

Gunnar Þór Bjarnason: Þegar siðmenningin fór fjandans til. Útgefandi: Mál og menning

Forseti Íslands setti samkomuna en því næst flutti Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu og kynnti tilnefnda höfunda. Þar vakti hann m.a. athygli á gildi bókmennta í íslensku samfélagi í hagrænu tilliti og talaði einnig um vaxandi gengi barnabókmennta. Forseti Íslands kynnti síðan niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu loks gesti í sterkum ræðum og var gleði fyrsta ræðumanns, Gunnars Helgasonar, heldur betur smitandi. Tónlistarmaðurinn KK kom einnig fram við athöfnina.

Víðsjá útvarpaði beint frá verðlaunaafhendingunni og má hlusta á ræður verðlaunahafa, Egils Arnar og forseta Íslands hér í Sarpinum (aðgengilegt til 10. maí 2016).

Tilnefnd verk

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Erna Guðrún Árnadóttir, Hildigunnur Sverrisdóttir, Pétur Þorsteinn Óskarsson og Árni Sigurjónsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og unglingabóka:

Arnar Már Arngrímsson: Sölvasaga unglings. Sögur útgáfa
Gunnar Theodór Eggertsson: Drauga-Dísa. Vaka Helgafell
Gunnar Helgason: Mamma klikk! Mál og menning
Hildur Knútsdóttir: Vetrarfrí. JPV útgáfa
Þórdís Gísladóttir: Randalín, Mundi og afturgöngurnar. Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:

Auður Jónsdóttir: Stóri skjálfti. Mál og menning
Einar Már Guðmundsson: Hundadagar. Mál og menning
Hallgrímur Helgason: Sjóveikur í München. JPV útgáfa
Hermann Stefánsson: Leiðin út í heim. Bókaútgáfan Sæmundur
Jón Kalman Stefánsson: Eitthvað á stærð við alheiminn. Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

Dagný Kristjánsdóttir: Bókabörn. Háskólaútgáfan
Gunnar Þór Bjarnason: Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918. Mál og menning
Héðinn Unnsteinsson: Vertu úlfur – wargus esto. JPV útgáfa
Páll Baldvin Baldvinsson: Stríðsárin 1938 – 1945. JPV útgáfa
Smári Geirsson: Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915. Sögufélag

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka.

Tilnefningar eru kynntar þann 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna sama ár og þær koma út, hvort sem þeir eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda eða ekki, og greiða fyrir það hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks.

Á vefnum bokmenntir.is má sjá hvaða bækur hafa hlotið verðlaunin frá upphafi og einnig hverjar hafa verið tilnefndar.


Páll Baldvin Baldvinsson hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis 2015

$
0
0

Í dag var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni að Viðurkenningu Hagþenkis 2015 hlyti Páll Baldvin Baldvinsson fyrir ritið, Stríðsárin 1938–1945 sem útgefin eru af JPV forlagi.
Þetta er í 29. sinn sem Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitir viðurkenningu fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“.

Páll Baldvin og Jón Yngvi

Formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson veitti viðurkenninguna fyrir hönd félagsins. Kristín Svava Tómasdóttir formaður viðurkenningaráðs flutti greinargerð ráðsins 2015 sem auk hennar skipuðu þau, Baldur Sigurðsson málfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Þorbjörn Broddason félagsfræðingur og Þórunn Blöndal íslenskufræðingur.

Í ályktunarorðum Viðurkenningarráðs segir meðal annars:
„Það er vart hægt að ofmeta mikilvægi síðari heimsstyrjaldarinnar í íslenskri sögu. Í viðskipta- og hagsögu, stjórnmálasögu, félagssögu, kvenna- og kynjasögu, menningarsögu, byggðasögu – frá öllum þessum sjónarhornum og fleirum til var síðari heimsstyrjöldin boðberi mikilla breytinga. Hún hefur verið talin marka innreið neyslusamfélagsins á Íslandi, borgarsamfélagsins, nútímasamfélagsins.
Og það er frá öllum þessum sjónarhornum – og fleirum til – sem styrjaldarárin eru skoðuð í þessari stóru bók, sem dregur upp breiða og fjölbreytta mynd af þessum umbrotatíma í íslensku þjóðfélagi. Í örstuttum eftirmála líkir höfundur aðferð sinni við myndvef; myndbrotum og sögubrotum er raðað saman í margslungna heildarmynd.“

„Í þessu umfangsmikla verki er dregin upp fjölbreytt og áhrifarík mynd af ljósum og dökkum hliðum stríðsáranna, samfélagslegum átökum og örlögum einstaklinga.“

Verðlaunahafinn Páll Baldvin Baldvinsson sagði meðal annars þegar hann tók á móti Viðurkenningunni:
„ Að góðu verki loknu er sætt að finna þakklæti og viðurkenningu alþýðu manna. Það er umbun í sjálfu sér, en minnir okkur líka á að verk okkar eru endurgjald til samfélagsins fyrir uppeldi okkar og menntun sem við megum vera þakklát fyrir því þess atlætis njóta ekki öll mannanna börn.“
Eftirfarandi tíu bækur voru tilnefndar til Viðurkenningarinnar 2015:

Páll Baldvin Baldvinsson og viðurkenningarráð Hagþenkis

Landnám og landnámsfólk. Saga af bæ og blóti eftir Bjarna F. Einarsson.
Íslenskir sláttuhættir eftir Bjarna Guðmundsson.
Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason.
Passíusálmarnir eftir Hallgrím Pétursson, en umsjónarmaður útgáfunnar var Mörður Árnason.
Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra eftir Ólaf Gunnar Sæmundsson.
Stríðsárin 1938–1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson.
Rof. Frásagnir kvenna af fóstureyðingum í ritstjórn Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunnar Rögnvaldsdóttur.
Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson.
Ég skapa — þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar eftir Soffíu Auði Birgisdóttur.
Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur.

Um viðurkenningu Hagþenkis: Hagþenkir– félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum sem ákvarðar tilnefningarnar tíu og hvaða höfundur og rit hlýtur að lokum viðurkenningu Hagþenkis. Ráðið hefur fundað reglulega síðan um miðjan október til að kynna sér útgáfu ársins og er ævinlega úr vöndu að ráða.
Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna getur hlotnast hér á landi.

Ljóðasýning í Edinborg

$
0
0

Ljóðum frá Bókmenntaborgum UNESCO varpað á vegg í Leith

Þann 3. mars síðastliðinn hófst ljóðasýning sem Bókmenntaborgin Edinborg stendur fyrir í hverfinu Leith í útjaðri borgarinnar. Þann dag er haldinn hátíðlegur í Bretlandi og víðar World Book Day og var fyrsta ljóðinu varpað upp af því tilefni. Ljóðin eru sýnd á byggingu Royal Bank of Scotland á Constitution Street. Frá Reykjavík varð ljóðið Nótt eftir Gerði Kristnýju fyrir valinu og er línum úr því varpað upp í enskri þýðingu Victoriu Cribb.

PROJECT-LeithPoetryProjections-Bus

Ljóðin eru ellefu talsins og koma frá Bókmenntaborgunum Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Reykjavík á Íslandi, Kraká í Póllandi, Dunedin á Nýja Sjálandi, Heidelberg í Þýskalandi, Granada á Spáni, Prag í Tékklandi, Dublin á Írlandi, Norwich á Englandi og Melbourne í Ástralíu. Þetta eru ellefu fyrstu borgirnar í samtökum Bókmenntaborga UNESCO en á þessu ári bættust svo níu aðrar borgir í hópinn þannig að núna eru borgirnar orðnar tuttugu.

Ljóðasýningin á Constitution Street er hluti af verkefninu Words on the Street (#wordsonthestreet) sem Bókmenntaborgin Edinborg stendur að með það fyrir augum að vekja athygli á ljóðlist á götum borgarinnar, bæði skoskri og alþjóðlegri. Verkefnið hófst í fyrra þegar Waverly lestarstöðin var skreytt með textum eftir Walter Scott og einnig mátti nýlega sjá bókmenntatilvitnanir á Jeffrey Street. Sýningin í Leith stendur til 13. mars og er einu ljóði varpað upp á dag.

Segja má að hún sé eins konar farandsýning, því upphaflega var þessum ljóðum og ljóðabrotum varpað upp í Kraká á ljóðavegg í markaðstorginu þar í bæ. Bókmenntaborgin Kraká hefur veg og vanda að því verkefni sem nefnist Multipoetry og stendur enn yfir. Þar hafa m.a. verið sýnd ljóð eftir Einar Má Guðmundsson, Elías Knörr, Dag Sigurðarson, Gerði Kristnýju, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Kára Tulinius, Kristínu Ómarsdóttur og Valgerði Þóroddsdóttur. Edinborg valdi ljóð frá þeirri ljóðasýningu og frá Reykjavík varð ljóð Gerðar Kristnýjar, Nótt, fyrir valinu. Línum úr því verður varpað upp þann 8. mars í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.

Fyrsta vers  ljóðsins „Through the Traffic of Tongues“ eftir Christine De Luca opnaði sýninguna, en það skrifaði hún til að fagna tíu ára afmæli Edinborgar sem Bókmenntaborgar UNESCO árið 2014. Þær eru svona:

Ten years we’re had of trafficking,
keeping borders open through words,
through discerning conversation,
the hospitality of books; citadels
of literature, fostered from a dream

Lesa má ljóðin frá sýningunni á vef Bókmenntaborgarinnar Edinborgar. Einnig má fylgjast með sýningunni á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #wordsonthestreet.

Reykjavik (2)

 

Southbank Centre kallar eftir hugmyndum

$
0
0

Norðurlönd í brennidepli 2017

Southbank Centre í London kallar eftir hugmyndum að norrænum menningar- og listviðburðum í öllum listgreinum. Skilafrestur hugmynda er 14. mars

Árið 2017 verður sérstök áhersla lögð á norræna menningu í menningarmiðstöðinni Southbank Centre í London í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Miðstöðin kallar nú eftir hugmyndum frá öllum Norðurlöndunum, frá listamönnum og öðrum sem hug hafa á að taka þátt í þessu norræna menningarári. Unnið verður með þrjú meginþemu: börn og ungt fólk, jafnrétti kynjanna og sjálfbærni og verða þessi viðfangsefni spunnin inn í tíu hátíðir ársins. Við vekjum athygli rithöfunda og bókmenntafólks á þessu tækifæri, sérstaklega á London International Literature Festival sem haldin er í október, en einnig á orðlist erindi á aðrar hátíðir ársins eins og sjá má hér fyrir neðan.

Börn og ungt fólk

1. Imagine- hátíðinni er ætlað að sýna fram á að öll börn blómstra ef þau fá tækifæri til að rækta ímyndunaraflið. Febrúar 2017.
2. WHY - What’s Happening for the Young? – réttindi barna skipta máli. Október 2017.
3. Strive – hvernig veitum við skapandi ungmennum tækifæri til að byggja upp sína faglegu framtíð. Júlí 2017.

Jafnrétti kynjanna

4. Women of the World – möguleikum stúlkna og kvenna fagnað og tekist á við ástæður ójafnræðis. Mars 2017.
5. Being a Man – tekist á við áskoranir og þvinganir karlmennskuímyndarinnar. Nóvember 2017.

Sjálfbærni

6. Festival of Love – hér er ætlunin að þoka fram hugmyndinni um að ástin sé besta tækið til að knýja fram jákvæðar breytingar í heiminum. Júlí 2017.
7. London International Literature Festival – hátíðin er vettvangur fyrir nýstárlegar hugmyndir og tengir saman hugsjónir og viðfangsefni frá ólíkum heimshornum í gegnum ljóðlist og bókmenntir. Október 2017.
8. Chorus – samsöngur styrkir samfélög. Apríl 2017.
9. Alchemy – hátíð sem fagnar hugmyndasamvinnu milli Bretlands og Indlands. Maí 2017.
10. Africa Utopia – hátíðin tekst á við spurningar um hvernig Afríka geti leyst vestræn vandamál. September 2017.

Southbank mun vinna með öllum átta tungumálasvæðum Norðurlandanna. Fyrirspurnir og umsóknir sendist til Arnfríðar Sólrúnar Valdimarsdóttur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, netfang: arnfridur.valdimarsdottir@mrn.is og jafnframt til Soutbank Centre, netfang: nordic@southbankcentre.uk.

Umsóknir skulu ekki vera lengri en tvær blaðsíður og þar komi skýrt fram tengslin við eitthvert viðfangefnanna sem talin eru upp hér að ofan. Umsóknin þarf að innihalda eftirfarandi:

• 250 orð hið mesta um umsækjanda og/eða stofnun ásamt viðeigandi tenglum á vefsíður.
• 250-500 orð sem lýsa verkefninu og tengslum þess við eina af hátíðunum hér að ofan.
• Áætlaðan kostnað við að flytja viðburðinn til London – vinsamlega ráðfærið ykkur við íslenska tengiliðinn (Arnfríði Sólrúnu) ef þarf.
• Fylgir fjármagn eða eru tækifæri til að sækja um fjármögnun fyrir viðburð?
• Hvaða væntingar hefur þú sem umsækjandi til verkefnisins og hvaða hag sérðu af þátttökunni fyrir listamenn, áhorfendur, Norrænu ráðherranefndina og Southbank Centre?
• Nafn og upplýsingar um tengilið sem getur gefið nánari upplýsingar um verkefnið.
· Hvar fréttir þú af þessu verkefni?

Southbank Centre getur ekki tryggt að allir sem sækja um komist að í dagskrá hátíðanna og tekur fram að höfnun þarf ekki að endurspegla gæði verkefnisins eða hugmyndarinnar.

 

 

 

 

 

Menningarverðlaun DV

$
0
0

Þrír rithöfundar verðlaunaðir

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2015 voru veitt við hátíðlega athöfn í Iðnó miðvikudaginn 9. mars síðastliðinn. Verðlaunin eru veitt í átta flokkum í ár auk sérstakra heiðursverðlauna og lesendaverðlauna. Flokkarnir eru tónlist, kvikmyndir, danslist, bókmenntir, fræði, myndlist, arkitektúr og hönnun.

Þrír rithöfundar voru verðlaunaðir að þessu sinni, Linda Vilhjálmsdóttir hlaut verðlaunin í flokki bókmennta fyrir ljóðabókina Frelsi, Þórunn Sigurðardóttir var verðlaunuð í flokki fræða fyrir bókina Heiður og huggun – erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld og skáldið Þorsteinn frá Hamri hlaut heiðursverðlaun forseta Íslands. Þá var Þorleifur Örn Arnarson verðlaunaður í flokki leiklistar fyrir leikstjórn Njálu.

Linda Vilhjálmsdóttir bókasíða Þórunn Sigurðardóttir

Verðlaunahafar:

Tónlist

Menningarhúsið Mengi við Óðinsgötu

Kvikmyndir

Heimildamyndin Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur

Leiklist

Þorleifur Örn Arnarson fyrir leikstjórn Njálu

Danslist

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir fyrir dans- og tónlistarverkið Milkywhale

Bókmenntir

Linda Vilhjálmsdóttir fyrir ljóðabókina Frelsi.

Fræði

Þórunn Sigurðardóttir fyrir fræðiritið Heiður og huggun – erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld

Myndlist

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir

Arkitektúr

Orlofshús BHM í Brekkuskógi eftir PK Arkitekta

Hönnun

Jungle Bar.

Lesendaverðlaun dv.is

Stelpur Rokka!

Heiðursverðlaun

Þorsteinn frá Hamri

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

$
0
0

Myndskreytingar, þýðingar og frumsamdar bækur tilnefndar

Í dag var tilnefnt til Barna­bóka­verðlauna Reykja­vík­ur 2016, sem af­hent verða í Höfða síðasta vetr­ar­dag, þann 20. apríl næstkomandi. Verðlaunin eru nú veitt í fyrsta sinn en standa þó á gömlum merg því þau taka við af Barnabókaverðlaunum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur annars vegar og myndskreytiverðlaununum Dimmalimm hins vegar. Þessi tvenn verðlaun hafa nú verið sameinuð í ein og eru veitt í þremur flokkum. Að þeim standa skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og menningar- og ferðamálasvið og er goðsagnahesturinn Sleipnir, lestrarfélagi barnanna, einkennismerki verðlaunanna.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Fimm bæk­ur eru tilnefndar í hverjum flokki, en verðlaunað er fyrir bækur frumsamdar á íslensku, þýðingar og myndskreytingar. At­höfn­in fór fram í Gerðubergi og voru það þau Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, og Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðamálaráðs, sem veittu verðlaunin ásamt fulltrúum dómnefndar. Við athöfnina komu m.a. fram ungir rapparar úr Hagaskóla, þeir Grettir Valsson og Ágúst Beinteinn, sem mynda saman dúóið GG, og fluttu þeir framsamda texta, bæði á íslensku og ensku við fögnuð viðstaddra.

Bækurnar sem eru tilnefndar í ár eru þrettán talsins þar sem tvær eru tilnefndar í tveimur flokkum. Þær eru hrollvekjusafnið Eitthvað illt á leiðinni er, sem er bæði tilnefnt í flokki frumsaminna bóka og í flokki myndskreytinga, og bókin Ugla & Fóa og maður­inn sem fór í hund­ana, sem einnig er tilnefnd í áðurnefndum tveimur flokkum.

Tilnefningar

Skáldrit frumsamin á íslensku:

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Eitt­hvað illt á leiðinni er – Hryll­ings­sög­ur barna af frí­stunda­heim­il­um Kamps. Ritstjóri Markús Már Efraím.Höfundar sagnanna eru Amelía Eyfjörð Bergsteinsdóttir, Ana Kokotovic, Bernardo Tino Neri Haensel, Erlen Isabella Einarsdóttir, Freyja Gyðudóttir Gunnarsdóttir, Gunnlaugur Jón Briem, Hrafn Sverrisson, Hrafnhildur Oddgeirsdóttir, Iðunn Gróa Sighvatsdóttir, Marta Björg Björnsdóttir, Matthea Júlíusdóttir, Ólína Stefánsdóttir, Ronja Björk Bjarnadóttir, Sara Hjördís Guðnadóttir, Steinunn Margrét Herbertsdóttir, Svanhildur Dóra Haraldsdóttir, Tinna Tynes, Úlfur Bjarni Tulinius og Víkingur Breki Sigurðarson.

Kop­ar­borg­in eft­ir Ragn­hildi Hólm­geirs­dótt­ur.

Mamma klikk! eft­ir Gunn­ar Helga­son.

Vetr­ar­frí eft­ir Hildi Knúts­dótt­ur.

Ugla & Fóa og maður­inn sem fór í hund­ana eft­ir Ólaf Hauk Sím­on­ar­son.

Þýðingar:

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Brún­ar eftir norska höfundinn Håkon Vreås. Gerður Krist­ný þýddi.

Hvít sem mjöll eftir finnska höfundinn Salla Simukka. Erla E. Völu­dótt­ir þýddi.

Bæk­urn­ar Skugga­hliðin og Villta hliðin eftir breska höfundinn Sally Green. Salka Guðmunds­dótt­ir þýddi.

Sög­ur úr nor­rænni goðafræði. Bjarki Karls­son þýddi.

Vi­olet og Finch eftir bandaríska höfundinn Jennifer Niven. Birgitta Elín Hassel og Marta Hlín Magna­dótt­ir þýddu.

Myndskreytingar:

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Af hverju eru jökl­ar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftlagsmál. Helgi Björnsson ritstýrði. Myndskreyt­ingar eft­ir Þór­ar­inn Má Bald­urs­son.

Eitt­hvað illt á leiðinni er. Hrollvekjur eftir börn á frístundamiðstöðvum Kamps. Mynd­rit­stjóri Inga María Brynj­ars­dótt­ir. Mynskreytingar eru eftir Erlu Maríu Árnadóttur, Fanney Sizemore, Ingu Maríu Brynjarsdóttur, Lindu Ólafsdóttur, Sigmund Breiðfjörð, Sigrúnu Eldjárn, Steinþór Rafn Matthíasson og Þórey Mjallhvíti.

Skín­andi. Höf­und­ur og myndskreyt­ir Birta Þrast­ar­dótt­ir.

Ugla & Fóa og maður­inn sem fór í hund­ana eftir Ólaf Hauk Símonarson. Myndskreyt­ir Linda Ólafs­dótt­ir.

Viltu vera vin­ur minn? Höf­und­ur og myndskreyt­ir Bergrún Íris Sæv­ars­dótt­ir.

Dóm­nefnd skipa þau Bryn­hildur Björns­dótt­ir, Davíð Stef­áns­son, Gunn­ar Björn Mel­sted, Krist­ín Arn­gríms­dótt­ir og Jóna Björg Sætr­an.

Dúóið GG

Nú stend­ur yfir sýn­ing­in Þetta vilja börn­in sjá í Gerðubergi – úr­val myndskreyt­inga úr ís­lensk­um barna­bók­um sem komu út á liðnu ári þar sem m.a. má skoða mynd­ir úr sumum bókanna sem eru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Lestrarátak Ævars vísindamanns

$
0
0

54 þúsund bækur lesnar

Lestrarátak Ævars vísindamanns stóð frá 1. janúar – 1. mars 2016. Í morgun, mánudaginn 14. mars, var dregið úr innsendum lestrarmiðum og þá kom í ljós hvaða lestrarhestar verða persónur í næstu bók Ævars.

Talning á innsendum miðum leiddi í ljós að alls voru 54 þúsund bækur lesnar í átakinu að þessu sinni. Krakkar á öllu landinu í 1. – 7. bekk gátu tekið þátt. Þátttakan var mjög góð því stór hluti skóla sendi inn lestrarmiða og m.a.s. einn skóli utan landsteinanna. Það var Gladsaxeskóli í Danmörku en þar eru íslensk börn meðal nemenda.  Verðlaunin eru ekki af verri endanum, en þau felast í því að nokkrir heppnir þátttakendur verða gerðir að persónum í næstu bók Ævars, Bernskubrek Ævars vísindamanns: Vélmennaárásin. Bókin kemur út nú í apríl.

Krakkarnir sem dregnir voru úr lestrarátakspottinum eru í Grunnskólanum í Sandgerði, Laugarnesskóla í Reykjavík, Hörðuvallaskóla, Árskóla á Sauðárkróki og í Hríseyjarskóla.

Þetta er í annað sinn sem Ævar vísindamaður stendur fyrir lestrarátaki meðal íslenskra barna. Í fyrra stóð átakið yfir í lengri tíma, eða fjóra mánuði, og þá lásu þátttakendur alls um 60 þúsund bækur.

Lestraratak_stor3

 

Tilnefningar til barna- og unglingabókamenntaverðlauna Norðulandsráðs

$
0
0

Tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 voru kynntar á  Bókamessunni í Bologna fyrr í dag, bókamessan er stærsta barna- og ungmennabókamessa í Evrópu. Samhliða tilkynningunni í Bologna var athöfn í Norræna húsinu þar sem íslensku höfundarnir sem tilnefndir eru fengu viðurkenningu.
Frá Íslandi eru tilnefnd þau Ragnhildur Hólmgeirsdóttir fyrir bókina Koparborgin og Arnar Már Arngrímsson fyrir bókina Sölvasaga unglings.

Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin þann 1. nóvember í Kaupmannahöfn og hlýtur vinningshafinn 350 þúsund danskar krónur.

 

Tilnefndar bækur eru eftirfarandi:

tilnefndar bækur

Danmörk:

Frá samíska málsvæðinu

Finnland

  • Koira nimeltään Kissa“, Tomi Kontio and Elina Warsta (ill.), picture book, Teos, 2015
  • Dröm om drakar“, Sanna Tahvanainen and Jenny Lucander (ill.), Schildts & Söderströms, 2015

Færeyjar

Grænland

Ísland

Noregur

Svíþjóð


Styrkir vegna myndríkra bóka

$
0
0

Auglýst eftir umsóknum

Reykjavíkurborg auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna útgáfu myndríkra bóka. Styrkirnir eru ætlaðir til niðurgreiðslu á kostnaði vegna kaupa á ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur til birtingar í bókinni. Þeir eru aðgerð í kjölfar menningarstefnu Reykjavíkurborgar sem miðar m.a. að því að hlúa að varðveislu menningararfleifðar og hvetja til miðlunar hennar í fjölbreyttu formi.

Í umsókn skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar um umsækjanda ásamt lýsingu á fyrirhugaðri útgáfu. Einng verðáætlun Ljósmyndasafns Reykjavíkur vegna afgreiðslu ljósmynda í höfundarétti sem bera birtingagjald skv. gjaldskrá safnsins. Styrkirnir eru veittir vegna bóka sem koma út á árinu 2016 eða í ársbyrjun 2017.

Þriggja manna dómnefnd skipuð tveimur starfsmönnum Borgarsögusafns Reykjavíkur og skrifstofustjóra menningarmála metur umsóknir.

Umsókn merkt ,,Myndrík bók um sögu Reykjavíkur“ berist á netfangið menning@reykjavik.is. Umsóknir berist í síðasta lagi í dagslok mánudaginn 2. maí.

Vefur Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Alþjóðleg bókmenntavika í Reykjavík

$
0
0

Þrír opnir viðburðir í tengslum við Iceland Writers Retreat

Iceland Writers Retreat verður haldið í Reykjavík í þriðja sinn frá 13. – 17. apríl 2016. Um er að ræða rithöfundabúðir þar sem fólk frá öllum heimshornum kemur saman í Reykjavík, tekur þátt í ritsmiðjum með alþjóðlegum höfundum, hittir íslenska rithöfunda og kynnist íslenskum bókmenntum, menningu og náttúru. Í ár eru þátttakendur yfir hundrað og leiðbeinendurnir eru tíu frá sex löndum. Meðal þeirra er Gerður Kristný en einnig býður Reykjavík Bókmenntaborg gestunum að hitta Steinunni Sigurðardóttur á Kjarvalsstöðum og þeir fara í bókmenntagöngu í miðbænum á vegum Borgarbókasafns. Þá munu gestirnir hitta fleiri íslenska höfunda, m.a. Vilborgu Davíðsdóttur, Hallgrím Helgason og Einar Kárason.

Þrír viðburðir sem opnir eru almenningi verða haldnir í tengslum við búðirnar. Þriðjudaginn 12. apríl verður upplestrardagskrá í Norræna húsinu með höfundunum tíu sem leiða smiðjurnar, en þeir koma frá Bandaríkjunum, Kanada, Indlandi, Finnlandi, Íslandi og Bretlandi. Fimmtudaginn 14. apríl verða svo tveir opnir viðburðir, annars vegar hádegiserindi með Kevin Larimer um mismunandi leiðir að því að fá ritsmíðar útgefnar, og hins vegar kanadískt bókmenntakvöld sem skipulagt er af International Festival of Authors í Toronto í samvinnu við Bókmenntaborgina og Iceland Writers Retreat.

Allir eru velkomnir á þessa viðburði og er aðgangur að þeim ókeypis. Þeir fara fram á ensku.

Þriðjudagur 12. apríl kl. 20
Bókmenntakvöld í Norræna húsinu

Höfundakvöld

Tíu höfundar frá sex löndum stýra smiðjum á Iceland Writers Retreat í ár. Þeir koma fram á bókmenntakvöldi í Norræna húsinu sem Egill Helgason stýrir. Höfundarnir eru Gerður Kristný frá Íslandi, sem m.a. hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin, rithöfundurinn, blaðamaðurinn og kvikmyndagerðarkonan Elina Hirvonen frá Finnlandi, leikskáldið, rithöfundurinn og blaðamaðurinn Mark Kurlanski frá Bandaríkjunum, læknirinn og rithöfundurinn Vincent Lam frá Kanada, indverski höfundurinn Neel Mukherjee sem tilnefndur hefur verið til Booker verðlaunanna, metsöluhöfundurinn Cheryl Strayed frá Bandaríkjunum sem er m.a. þekkt fyrir endurminningarbókina Wild, skáldsagnahöfundurinn Miriam Toews frá Kanada sem á verk þýdd á yfir tuttugu tungumál, Adelle Waldman frá Bandaríkjunum sem hefur hlotið alþjóðlega athygli fyrir skáldsöguna The Love Affairs of Nathaniel P, kennarinn, dýrafræðingurinn og blaðamaðurinn Andrew Westoll frá Kanada og loks sagnfræðingurinn, sjónvarpskonan og skáldsagnahöfundurinn Kate Williams frá Bretlandi.

Á vef Iceland Writers Retreat má lesa nánar um höfundana

Fimmtudagur 14. apríl kl. 12-13
Leiðin að útgáfu. Hádegiserindi Kevin Larimers í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101

Kevin Larimer

Kevin Larimer er aðalritstjóri Poets & Writers, stærstu samtaka í Bandaríkjunum sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, og þjónusta ljóðskáld og aðra höfunda bókmenntatexta. Hann mun spjalla um ýmsar brautir sem höfundar geta fetað á leið sinni að útgáfu bókmenntatexta, svo sem með birtingu í bókmenntatímaritum, þátttöku í ritlistarsamkeppnum eða með þjónustu umboðsmanna, miðlara eða útgefenda. Hann mun einnig ræða um álagið sem fylgir þessu ferli og því að koma sér á framfæri og stuðninginn sem finna má í ritlistarsamfélögum, svo sem ritlistarnámi, ritsmiðjum og öðrum bókmenntasamfélögum.

Að erindinu standa Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Iceland Writers Retreat í samvinnu við námsbraut í ritlist við Háskóla Íslands.

Fimmtudagur 14. apríl kl. 17:30-19
Kanadísk bókmenntadagskrá í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi

 

Helen Humphreys Joseph Kertes

Hér gefst lesendum tækifæri til að kynnast fjölbreyttri flóru kanadískra bókmennta. Fimm höfundar taka þátt í dagskránni en þeir skrifa ljóð, skáldsögur og bækur af ýmsu öðru tagi. Margir þeirra hafa hlotið virt verðlaun í heimalandinu, en heiðursgestir samkomunnar eru þau Helen Humphreys og Joseph Kertes. Helen er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur auk þess sem hún hefur skrifað skáldleg rit um sannsöguleg efni. Joseph Kertes er af ungverskum ættum en uppalinn í Kanada. Verk hans eru húmorísk en hann hefur bæði sent frá sér skáldverk fyrir fullorðna og börn. Kertes er stofnandi háskóladeildar sem sameinar ritlist og uppistand eða framkomu og hefur hann hlotið verðlaun fyrir kennslu og nýsköpun. Með þeim verða fyrrnefndir samlandar þeirra sem leiðbeina á Iceland Writers Retreat í ár, Vincent Lam, Miriam Toews og Andrew Westoll.

Hver höfundur mun lesa örstutt úr nýjasta verki sínu og síðan verða pallborðsumræður.

Dagskráin er skipulögð af International Festival of Authors í Toronto í samstarfi við Iceland Writers Retreat og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Sjá nánar um viðburðinn og lesið um höfundana hér

Vika bókarinnar

$
0
0

Fjölbreytt dagskrá frá 20. apríl til mánaðarmóta

Vika bókarinnar er haldin hátíðleg í ár frá miðvikudeginum 20. apríl. Hápunktur vikunnar er alþjóðlegur dagur bókarinnar þann 23. apríl, sem er auk þess fæðingardagur Nóbelsverðlaunahafans Halldórs Laxness og dánardagur stórskáldanna Shakespeares og Cervantesar. Vorbókatíðindi Félags íslenskra bókaútgefenda verða borin í hús um allt land í upphafi vikunnar og þar geta lesendur kynnt sér þá blómlegu flóru íslenskra bókmennta sem birtist okkur nú á vordögum.

Fjölmargir viðburðir eru haldnir á bókasöfnum, kaffihúsum, skólum og víðar í tilefni viku bókarinnar og hér höfum við safnað saman upplýsingum um þá sem við höfum vitneskju um. Hér fyrir neðan má sjá viðburði sem fara fram á tímabilinu 20. apríl til loka mánaðarins.

Við tökum við upplýsingum um fleiri viðburði, hvar sem er á landinu, í netfanginu bokmenntaborgin@reykjavik.is.

ÖLL VIKAN

Vorbókatíðindi 2016

Kynnið ykkur Vorbókatíðindi Félags íslenskra bókaútgefenda í rafrænni útgáfu.

Borgarbókafn Reykjavíkur

Borgarbókasafn lógó
Þema Borgarbókasafns í viku bókarinnar er ævisögur og skáldævisögur. Gestir safnanna geta skrifað niður þann ævisögutitil sem þeim þykir hæfa sér best og deilt með öðrum gestum. Ævisögum verður einnig stillt út og hægt að skoða fjöldann allan af bókakápum með ævisagnaþema. Á Facebooksíðum safnanna verður hægt að fylgjast með fyndnum og furðulegum ævisögutitlum.

MIÐVIKUDAGUR 20. APRÍL – SÍÐASTI VETRARDAGUR

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar
Tilkynnt verður hvaða þrjár bækur hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar. Verðlaunin eru nú veitt í fyrsta sinn, en þau taka við af Barnabókaverðlaunum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur og íslensku myndskreytiverðlaununum Dimmalimm. Veitt eru verðlaun fyrir bók frumsamda á íslensku, fyrir þýðingu á erlendri barnabók og fyrir myndskreytingu í íslenskri barnabók.

Verðlaunabækurnar verða kynntar hér á vefnum síðdegis þann 20. apríl.

Bókasafnið á Myrká
Borgarsögusafn Reykjavíkur – Árbæjarsafn. Kl. 10-13

Bókasafnið á myrka
Bókasafnið á Myrká er væntanleg vefsíða og hlaðvarp fyrir börn til að vekja áhuga þeirra á lestri í gegnum hrollvekjur og draugasögur. Bókavörðurinn á Myrká, Markús Már Efraím, tekur á móti skólahópum í draugasögustundir með leikhljóðum á baðstofulofti Árbæjarsafns.

Á dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík.

Bóka þarf heimsóknir, sjá nánar hér

Vorið er komið
Verslunarmiðstöðin Kringlan, Reykjavík. Kl. 13-13:30

Vorið er komið
Nemendur í Háaleitisskóla bjóða gestum Kringlunnar upp á ljóðalestur, marimbuleik og söng. Börnin hafa unnið með örsögur og vísur sem tengjast vorinu í tengslum við Barnamenningarhátíð í Reykjavík og verða verk þeirra hengd á hurðarhúna í hverfi skólans. Íbúar í Háaleitishverfi mega því eiga von á góðum glaðningi.

Á dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík.

Áður en Íslendingar féllu fyrir Prins Polo
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Kjarvalsstaðir. Kl. 16

Storytelling Lab for Young Adults
Opnun á sýningu á textum og ljósmyndum íslenskra og pólskra ungmenna. Nemendur í 9. og 10. bekk Landakotsskóla hafa í vetur unnið með jafnöldrum sínum í Wroclaw í Póllandi í verkefninu Storytelling Lab for Young Adults.

Á opnuninni, sem er öllum opin, lesa unglingar upp úr verkum sínum, nemendur úr Landakotsskóla flytja tónlist og boðið verður upp á veitingar. Sýningin stendur til 24. apríl.

Sjá nánar

Heimspekikaffi – Staðalímyndir og borgaravitund
Menningarhúsið Gerðuberg. Kl. 20-22

Hugskot-5-vefur (2)
Gunnar Hersveinn og Friðbjörg Ingimarsdóttur, höfundar bókarinnar Hugskots sem er nýkomin út, verða með heimspekikaffi í kaffihúsi Gerðubergs. Þau munu m.a. fjalla um staðalímyndir og borgaravitund á skemmtilegan og lifandi hátt.

Allir velkomnir, ókeypis aðgangur.

Sjá nánar

FIMMTUDAGUR 21. APRÍL – SUMARDAGURINN FYRSTI

Dýróður
Ráðhús Reykjavíkur. Kl. 13:00-15:00

Dýróður
Á sumardaginn fyrsta verður boðið upp á ritsmiðju í Ráðhúsinu með Kött Grá Pjé og starfsmönnum frístundaheimila Kamps. Einnig verður sýning á sögum, ljóðum og myndskreytingum barna við eigin ævintýri, sem þau hafa unnið í ritsmiðjum. Viðfangsefnið er óður til dýra.

Ráðhúsið verður opið frá kl. 12:00-18:00 á sumardaginn fyrsta.

Á dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík.

Bókasafnið á Myrká
Borgarsögusafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn. Kl. 14-14:30

Bókasafnið á myrka
Hrollvekjandi sögustund á lofti Kornhússins. Bókavörðurinn af Myrká og ristjóri bókarinnar Eitthvað illt á leiðinni er, Markús Már Efraím, flytur draugasögur og hrollvekjur. Dagskráin er hugsuð fyrir 6-10 ára börn en er öllum opin.

Bókaútgáfan Sæmundur fagnar sumri
Bókakaffið á Selfossi. Kl. 15:00-18:00

Hermann_stefánsson

Rithöfundahópur útgáfunnar 1005, sönghópurinn Lóurnar og Bókaútgáfan Sæmundur efna til menningarhátíðar í Bókakaffinu á Selfossi á sumardaginn fyrsta. Hátíðin er hluti af dagskrá Vors í Árborg og er aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Meðal dagskrárliða er upplestur höfunda 1005 tímaritaútgáfu og fer Hermann Stefánsson fyrir hópnum. Aðrir höfundar eru m.a. Halldóra Thoroddsen, Eiríkur Guðmundsson, Oddný Eir Ævarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir og Jón Karl Helgason.

Sjá nánar

Bókasafnið á Myrká
Borgarsögusafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn. Kl. 15-15:30

Bókasafnið á myrka
Hrollvekjandi sögustund á lofti Kornhússins. Bókavörðurinn af Myrká og ristjóri bókarinnar Eitthvað illt á leiðinni er flytur draugasögur og hrollvekjur. Dagskráin er hugsuð fyrir 6-10 ára börn en er öllum opin.

Bókaverðlaun barnanna
Borgarbókasafn, Grófarhúsi. Kl. 16:30-18:00

Bokaverðlaun barnanna
Ár hvert velja 6 til 15 ára börn á Íslandi uppáhaldsbækurnar sínar með kosningu sem fer fram á heimasíðu Borgarbókasafns Reykjavíkur og í grunnskólum og bókasöfnum um allt land. Jón Víðis töframaður afhendir verðlaunin á sumardaginn fyrsta og fremur nokkur vel valin og viðeigandi töfrabrögð. Nokkur börn sem tóku þátt í kosningunni fá einnig viðurkenningu.

Kaka, kaffi og djús á eftir.

Sjá nánar

Sumarútgáfa Meðgönguljóða
Mengi, Óðinsgötu 2 Reykjavík. Kl. 20:00

Meðgönguljóðabækur
Bókaforlagið Partus fagnar sumri með útkomu þriggja nýrra ljóðabóka í seríu Meðgönguljóða. Bækurnar eru Greitt í liljum eftir Elías Knörr, Gáttatif eftir Sigurbjörgu Friðriksdóttur og Draumar á þvottasnúru eftir Þorvald S. Helgason.

Útgáfunni verður fagnað á sumardaginn fyrsta.

Sjá nánar

FÖSTUDAGUR 22. APRÍL

Skrímslaleikrit 
Borgarbókasafnið Gerðubergi. Kl. 10:30-11:30

Skrímslasýning
Þrettán börn úr 1.bekk Hólabrekkuskóla sýna leikrit unnið upp úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur. Börnin hafa unnið sýninguna í smiðjum með Ólöfu Sverrisdóttur. Áherslan er á tilfinningar og atriðum og uppákomum úr bókunum blandað saman. Þetta er síðasta sýningarhelgi sýningarinnar „Skrímslin bjóða heim“ í Gerðubergi en henni lýkur 24.apríl.

Sjá nánar

Inn á græna skóga – Snorri Hjartarson
Þjóðarbóklaðan. Kl. 16

Snorri Hjartarson
Opnun á sýningu á ljóðum Snorra Hjartarsonar. Frú Vigdís Finnbogadóttir opnar sýninguna og flutt verður dagskrá til heiðurs skáldinu. Um leið verður fagnað 3. útgáfu Forlagsins á Kvæðasafni Snorra.

Sjá nánar

Tunglkvöld IX
Loft hostel, Bankastræti 7. Kl. 20:30

Tunglbækur

Forlagið Tunglið stendur fyrir Tunglkvöldi í tilefni útgáfu tveggja nýrra bóka en þær eru eins og jafnan hjá þessu forlagi kynntar undir fullu tungli. Bækurnar eru „Sönn saga – lygasaga“ eftir Lúkíanos frá Samósata í þýðingu Þórðar Sævars Jónssonar og „Lególand – leiðarvísir“ eftir Andra Snæ Magnason.

Upplestrar, ávörp og gjörningar undir fullu tungli á Loft hosteli í Bankastræti, 4. hæð.

LAUGARDAGUR 23. APRÍL – DAGUR BÓKARINNAR

Einhver Ekkineinsdóttir – Upplestur og sögusmiðja
Norræna húsið, barnahellir, kl. 13-16

Ekkineinsdottir
Upplestur, sögusmiðja og klippimyndagerð fyrir 7 – 12 ára börn í tilefni útgáfu Einhverrar Ekkineinsdóttur, fyrstu eistnesku barnabókarinnar sem gefin er út á íslensku. Umsjónarmenn smiðjunnar eru höfundur bókarinnar og myndskreytir, Kätlin Kaldmaa og Marge Nelk. Lemme Linda Saukas Olafsdottir les upp úr þýðingu sinni. Viðburðurinn er á vegum Bókstafs og Barnamenningarhátíðar.

Sjá nánar

Kubbað af kappi
Bókasafn Kópavogs, kl. 13:00

LEGO
Á Bókasafni Kópavogs fást bækur um fjölbreytt málefni – til dæmis um LEGO-byggingar. Á degi bókarinnar verður viðfangsefni þeirra bóka tekið fyrir, en LEGO-sérfræðingurinn Jóhann Breiðfjörð mun mæta með rúm 100 kíló af tæknilegói í fjölskyldustund á safninu í Hamraborg kl. 13. Hann mun kenna gestum allt um tannhjól, mótora og möguleikana sem búa í tækni-LEGOi. Jóhann þekkir málefnið vel þvi hann starfaði um árabil sem hönnuður og ráðgjafi hjá LEGO.

Smiðjan er hugsuð fyrir gesti á aldrinum 6-13 ára. Hafi einhverjir yngri hug á að sækja hana er því beint til þeirra að hafa með sér eldri fylgdarmenn.

Framúrskarandi rit kynnt
Borgarbókasafn, Grófarhús. Kl. 13:30-15:30

Viðurkenning Hagþenkis_tilnefningar
Höfundar rita sem tilnefnd eru til Viðurkenningar Hagþenkis kynna bækur sínar. Höfundarnir halda stutt erindi um bækur sínar, en þar kennir margra grasa og er þetta tilvalinn vettvangur til að fá innsýn í bækur um ólík efni, svo sem stríðsárin á Íslandi, stórhvalaveiðar, landnámsfólk, Þórberg Þórðarson, frásagnir kvenna af fóstureyðingum og fleira.

Sjá nánar

Ljóðskáld bjóða til stofu
Bókasafn Kópavogs Kl. 14:00

Bókasafn Kópavogs
Úrvalsskáld úr Ritlistarhópi Kópavogs bjóða til húslesturs í setustofunni í Hamraborg klukkan 14 þar sem lesin verða sýnishorn af spriklandi ferskri samtímaljóðlist. Ritlistarhópur Kópavogs hefur verið starfandi í ríflega 20 ár og hafa skáldin sem hann mynda gefið út fjórar ljóðabækur og lesið upp á ótöldum samkomum.

Sjá nánar

Magnús og Malaika leysa málið
Borgarbókasafnið Gerðubergi. Kl. 14:30-15:30

vonbedon_heimasida

Von be don er bók fyrir börn um orð og tungumál. Henni er ætlað að vekja börn til vitundar um tilvist tungumála og kraftinn sem felst í orðum, hvernig hægt er að segja hluti á marga vegu á mörgum tungumálum.
Höfundar bókarinnar, þær Bergljót Baldursdóttir og Brynhildur Jenný Bjarnadóttir, og börn frá samtökunum Móðurmál lesa úr bókinni. Hún er rituð á íslensku, en allir drekar í heiminum munu skilja hana.

Prjónað við sagnaeldinn
Bókasafn Kópavogs. Kl. 15:00

Prjónakaffi
Sérstakur hátíðarfundur Prjónaklúbbs Bókasafns Kópavogs verður haldinn í Hamraborg kl. 15:00 þar sem boðið verður upp á kex, kaffi og skemmtilega hljóðbók. Í prjónaklúbbnum hittist fólk, skiptist á ráðleggingum og nýtur þess að sinna áhugamálinu sínu í skemmtilegum félagsskap. Nýir félagar eru sérstaklega hvattir til þess að mæta.

Stakur kvenmannskór, leðja og leyndarmál í tímans rás!
Bókmenntalegt barsvar
Stúdentakjallarinn, Háskóla Íslands. Kl. 21:00

Timaskekkjur
Barsvar (pub-quiz) í umsjón höfunda og ritstjóra bókarinnar Tímaskekkjur, sem er væntanleg frá nemendum í ritlist og útgáfu við HÍ. í Heiðursbörn dagsins, Shakespeare og Laxness, verða ekki langt undan og vegleg verðlaun í boði.

Sjá nánar

SUNNUDAGUR 24. APRÍL

Kveðjuhóf litla og stóra skrímslis
Menningarhúsið Gerðubergi. Kl. 13:30-16:00

kvedjuveisla_Skrimslanna

Á síðasta degi Barnamenningarhátíðar verður veislustemning og skemmtilegar uppákomur fyrir fjölskylduna í menningarhúsinu Gerðubergi því þessi sunnudagur er líka lokadagur upplifunarsýningarinnar Skrímslin bjóða heim og sýningarinnar Þetta vilja börnin sjá. Áslaug Jónsdóttir les fyrir börnin og fleira verður á dagskrá.

Sjá nánar

Spjall um handrit – Landnáma
Landnámssögur – Arfur í orðum, Aðalstræti 16. Kl. 14:00-14:30

Handrit
Guðrún Ása Grímsdóttir spjallar um Landnámabók. Dagskráin fer fram á sýningunni Landnámssögur – arfur í orðum sem er sýning á handritum úr fórum Árnastofnunar á Landnámssýningu Borgarsögusafns Reykjavíkur í Aðalstræti.

Allir eru velkomnir, frítt inn.

Sjá nánar

Ljóðakvöld Hispursmeyjanna
Loft hostel, Bankastræti. Kl. 21:00

Ljóðakvöld
Þriðja ljóðakvöld Hispursmeyjanna verður haldið á Loft hosteli, en þetta eru mánaðarleg ljóðakvöld sem Vigdís Ósk Howser skipuleggur. Í þetta sinn stíga fram þær Marinella Arnórsdóttir, Kolfinna Kristófersdóttir, Megan Auður Grímsdóttir, Þórhildur Dagbjört, Bergþóra Einarsdóttir, Laufey Soffía, Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, Solveig Pálsdóttir og Anni Ólafsdóttir.

Sjá nánar

MÁNUDAGUR 25. APRIL

Að skálda (í) söguna. Ástin, drekinn og Auður djúpúðga
Borgarbókasafnið, Spönginni. Kl. 17:15-18:00

Vilborg Davíðsdótti
Vilborg Davíðsdóttir segir frá skrifum sínum um Auði djúpúðgu í máli og myndum og einnig nýjustu bók sinni, Ástin, drekinn og dauðinn, sem kom út í fyrra. Dagkskráin er hluti af viðburðaröðinni Í leiðinni, sem bókasafnið í Spönginni stendur fyrir mánaðarlega.

Sjá nánar

ÞRIÐJUDAGUR 26. APRÍL

Halldór Laxness á ensku
Kaffislippur, Icelandair Hotel Reykjavík Marina. Kl. 16:30-17:30

Halldór Laxness
Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur spjallar um Halldór Laxness, en fæðingardagur hans er 23. apríl, alþjóðlegur dagur bókarinnar. Jón Yngvi mun fjalla um verk Nóbelsskáldsins og stöðu Halldórs innan íslenskra bókmennta auk þess sem hann les stutt brot úr völdum verkum.

Dagskráin fer fram á ensku.

Sjá nánar

MIÐVIKUDAGUR 27. APRÍL

Sumri fagnað
Bókasafn Seltjarnarness. Kl. 17:30

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og myndskreytir, spjallar um sumarið og vináttuna og les upp úr bók sinni Sjáðu mig sumar. Einnig verður flutt tónlist.

Við sama tækifæri veita Bókasafn Seltjarnarness og Skólabókasafn Grunnskóla Seltjarnarness börnum verðlaun fyrir að taka þátt í að kjósa bækur til Bókaverðlauna barnanna.

Sjá nánar

Mínímalískur lífsstíll – Bókakynning
Bókasafn Reykjanesbæjar. Kl. 19:30

Áslaug Guðrúnardóttir
Áslaug Guðrúnardóttir kynnir bók sína Mínímalískur lífsstíll sem kom út í fyrra. Hún hefur notið mikilla vinsælda. Áslaug veitir innsýn í hugmyndafræðina og segir skemmtilegar og persónulegar sögur af reynslu sinni af minimalískum lífsstíl.

Allir eru velkomnir

Sjá nánar

FIMMTUDAGUR 28. APRÍL

Enginn venjulegur lesandi
Borgarbókasafnið Kringlunni. Kl. 17:00

Guðrún Ásmundsdóttir
Guðrún Ásmundsdóttir leikkona kynnir bókina Enginn venjulegur lesandi eftir Alan Bennet. Kynningin fer fram í bókabílnum Höfðingja við safnið og verður Guðrún í gervi Englandsdrottingar.

Sjá nánar

Gagnrýni og gaman – opinn kynningarfundur
Laugalækjarskóli, Leirulæk 2. Kl. 17-19

Jón_Thoroddsen
Jón Thoroddsen, lífsleiknikennari og heimspekingur, heldur opinn kynningarfund um nýútkomna bók sína Gagnrýni og gaman: samræður og spurningalist. Dagskráin fer fram í sal Laugalækjarskóla.

Gagnrýni og gaman er bók ætluð kennurum, foreldrum og öðrum sem hafa áhuga á að þróa með sér spurningalist og efla þannig sjálfstraust og sjálfstæða hugsun barna og unglinga.

Allir velkomnir, ókeypis aðgangur.

Sjá nánar

LAUGARDAGUR 30. APRÍL

Sögustund með Höllu Karen
Bókasafn Reykjanesbæjar. Kl. 11:30

Sögustund
Halla Karen kemur í bókasafnið og les og syngur fyrir börn og foreldra í notalegri sögustund. Hún tekur fyrir gömul ævintýri, lög og kvæði og gefur þeim nýtt líf með leiklestri og söng.

 

 

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

$
0
0

Fjórar bækur verðlaunaðar

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt við hátíðlega athöfn í dag, miðvikudaginn 20. apríl, sem jafnframt er síðasti vetrardagur og upphafsdagur viku bókarinnar í ár. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, fyrir bók frumsamda á íslensku, fyrir þýðingu og loks myndskreytingu.

Verðlaunabækurnar eru fjórar í ár þar sem tvær bækur hlutu verðlaunin í flokki þýðinga. Ragnhildur Hólmgeirsdóttur hlaut verðlaunin fyrir bók sína Koparborgin, Salka Guðmundsdóttir fyrir þýðingu sína á bókunum Skuggahliðin og Villta hliðin eftir Sally Green og Linda Ólafsdóttir fyrir myndskreytingar sínar í bókinni Ugla og Fóa og maðurinn sem fór í hundana eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti verðlaunin í Höfða. Þetta er í fyrsta sinn sem þau eru veitt með breytti sniði, eftir að Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs og Dimmalimm verðlaunin voru sameinuð. Áður hafa skólayfirvöld í Reykjavík veitt barnabókaverðlaun fjörutíu og þrisvar sinnum en Dimmalimm verðlaunin voru fyrst veitt árið 2003.

Verðlaunabækurnar:

Bók frumsamin á íslensku

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir var verðlaunuð fyrir fyrstu skáldsögu sína, Koparborgina, sem Björt útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir m.a.; „Sagan er einstaklega vel skrifuð, spennandi og dulúðug og býður upp á galdra, hetjur og hrylling en líka vináttu og von.“

Þýðing

Salka Guðmundsdóttir

Salka Guðmundsdóttir fékk verðlaunin fyrir þýðingu sína á bókunum Skuggahliðin og Villta hliðin eftir bresku skáldkonuna Sally Green sem JPV útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar um þýðinguna segir m.a.; „Sölku Guðmundsdóttur tekst með mikilli prýði að fanga myrkt og seiðandi andrúmsloft sögunnar yfir á íslensku, en í henni segir frá baráttu tveggja nornasamfélaga þar sem útskúfun og fordómar eru daglegt brauð.“

Myndskreyting

Linda Ólafsdóttir

Myndskreytiverðlaunin komu í hlut Lindu Ólafsdóttur fyrir teikningar og myndir í bókinni Ugla og Fóa og maðurinn sem fór í hundana sem Sögur útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar segir m.a.; „Gleðin í myndunum bætir í húmorinn í textanum og myndirnar segja líka sína eigin sögu.“

Við verðlaunaafhendinguna í Höfða í dag sungu nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík lög úr óperunni Hlina Kóngssyni og sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lásu upp úr verðlaunabókunum.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka. Valnefnd var að þessu sinni skipuð Brynhildi Björnsdóttur formanni, Jónu Björgu Sætran borgarfulltrúa, Gunnari Birni Melsted grunnskólakennara, Davíð Stefánssyni rithöfundi og Kristínu Arngrímsdóttur myndlistarkonu og rithöfundi.

Andri Snær Magnason verðlaunaður

$
0
0

LoveStar hlýtur Grand Prix de l’Imaginaire

Skáldsagan LoveStar eftir Andra Snæ Magnason hlýtur frönsku fantasíuverðlaunin Grand Prix de l’Imaginaire í ár. Éric Boury þýddi söguna á frönsku.

Grand Prix de l’Imaginaire eru elstu bókmenntaverðlaun Frakklands sem enn eru við lýði. Þau voru stofnuð árið 1974, starfa sjálfstætt og eru veitt í tíu flokkum. LoveStar hlýtur þau í flokki þýddra skáldsagna. Að mati dómnefndar er LoveStar besta og hugmyndaríkasta erlenda vísindaskáldsagan sem komið hefur út í Frakklandi síðustu 12 mánuði.

Orðið „Imaginaire“ í nafni verðlaunanna vísar til ímyndunaraflsins og sköpunargleðinnar, vísindaskáldsagna, fantasía og furðubókmennta . Meðal tilnefndra höfunda í þetta sinn eru China Miéville og Michel Faber, en verðlaunin hafa áður fengið höfundar á borð við Kim Stanley Robinson, China Miéville, Orson Scott Card, Neal Stephenson og Clive Barker.

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Étonnants Voyageurs hátíðinni í Saint-Malo næstkomandi sunnudag, 15. maí, kl. 18.00.

LoveStar kom út á Íslandi hjá Forlaginu árið 2002 en franska útgáfan hjá Zulma 2015.

LoveStar AndriSnær2016

Um LoveStar

Alþjóðlega stórfyrirtækið LoveStar hefur komið Íslandi á heimskortið – markaðssett dauðann, komið skipulagi á ástina og reist stórfenglegasta skemmtigarð sögunnar í Öxnadal þar sem LoveStar blikkar á bak við ský. Indriði og Sigríður eru handfrjálsir einstaklingar í þessu hátæknivædda samfélagi. Þau telja sig hafa fundið ástina upp á eigin spýtur þar til hræðilegt bréf berst frá stórveldinu. Á sama tíma er LoveStar sjálfur um það bil að gera stærstu uppgötvun allra tíma og stemningsdeildin hefur stórfenglegar áætlanir um hvernig megi fullkomna LoveStar veldið. Og tíminn er naumur…

Bókin hlaut Menningarverðlaun DV 2002 og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sama ár. Þá var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Viewing all 65 articles
Browse latest View live