Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all 65 articles
Browse latest View live

Styrkir vegna útgáfu myndríkra bóka um sögu Reykjavíkur

$
0
0

Umsóknarfrestur framlengdur

Útgefendur myndríkra bóka sem tengdar eru sögu og menningu í Reykjavík geta sótt um styrk til niðurgreiðslu á kostnaði vegna kaupa á myndum til birtingar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur samkvæmt gjaldskrá og magntilboðum safnsins. Styrkirnir eru vegna útgáfu bóka sem koma út á árinu 2015 eða í ársbyrjun 2016. Styrkirnir eru aðgerð í kjölfar menningarstefnu Reykjavíkurborgar sem miðar m.a. að því að hlúa að varðveislu menningararfleifðar og hvetja til miðlunar hennar. Þriggja manna dómnefnd skipuð tveimur starfsmönnum Borgarsögusafns Reykjavíkur og skrifstofustjóra menningarmála metur umsóknir.

Í umsókn komi fram nauðsynlegar upplýsingar um umsækjanda ásamt lýsingu á fyrirhugaðri útgáfu og verðáætlun Ljósmyndasafns Reykjavíkur vegna afgreiðslu ljósmynda í höfundarétti sem bera birtingagjald samkvæmt gjaldskrá safnsins.

Umsókn merkt ,,Myndrík bók um sögu Reykjavíkur“ berist á netfangið menning@reykjavik.is.

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 12. júní.


Fjölmála ritsmiðja í Reykjavík

$
0
0

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO stóð fyrir fjölmála ritsmiðju fyrir konur sem fór fram á fimm mánaða tímabili frá janúar til maí 2015. Smiðjan er hluti af hátíðarhöldum Bókmenntaborgarinnar í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

Konurnar komu saman á Borgarbókasafni Reykjavíkur, sem var samstarfsaðili að verkefninu, og einnig unnu þær saman í gegnum netið. Angela Rawlings stýrði smiðjunni, en hún er kanadískur rithöfundur sem hefur búið á Íslandi um árabil. Konur af íslenskum og erlendum uppruna tóku þátt í þessu verkefni og spannar bakgrunnur þeirra vítt svið, bæði hvað varðar textagerð og tungumál. Markmið Bókmenntaborgarinnar með þessari smiðju var meðal annars að veita röddum kvenna af erlendum uppruna hljómgrunn og stuðla að þátttöku þeirra í bókmenntalífi borgarinnar. Tuttugu og þrjú tungumál komu við sögu í smiðjunni en margar kvennanna eru fjöltyngdar.

Bókmenntaborgin mun halda áfram samvinnu við hópinn og verður afrakstur smiðjunnar gerður sýnilegur á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg haustið 2015. Konurnar hafa skrifað ljóð og prósa á mismunandi tungumálum og verður hluti þessara texta þýddur á íslensku og birtur á hátíðinni.

Frá Breiðholti til Búlgaríu

Þrettán konur tóku þátt í smiðjunni og eru þær afar ólíkar, bæði hvað varðar reynslu og annan bakgrunn. Samanlagt tala þær 23 tungumál en þær eiga rætur að rekja til Póllands, Ítalíu, Breiðholts, Hafnarfjarðar, Costa Ricu, Brasilíu, Búlgaríu, Ástralíu, Grafarvogs, Garðarbæjar, Bandaríkjanna, Rússlands, Skotlands og Möltu.

RVK-writinglabEYES-small IMG_8161 PrinciplePhoto_Writing Workshop copyright Angela Rawlings Sharing texts at the Women's Writing Workshop. Copyr Angela Rawlings Multilingual Writing Workshop. Copyright Angela Rawlings IMG_8171 IMG_8173 IMG_8165 Texts were also presented by Skype. Copyr Angela Rawlings

Ljósmyndir: ©Angela Rawlings.

Þetta hefur Angela að segja um smiðjuna:

„Það var dásamleg ögrun að skipuleggja smiðju fyrir konur sem hafa reynslu af skrifum sem spannar allt frá áköfum áhuga til ritlistargráðu og sem hafa áhuga á að skrifa ólíkt efni – endurminningar, smásögur, vísindaskáldskap, skáldsögur, ævintýri, ljóðlist, tilraunaljóðlist, myndljóð eða myndasögur.

Smiðjan hófst á því að konurnar skrifuðu nýtt efni með hjálp ritlistaræfinga sem hafa það að markmiði að losa um ritstíflur og leiða fram mótunarleiðir tungumálsins. Að því loknu tókum við til við einstaklingsbundin skrif sem hver og einn þátttakandi mótaði sjálfur út frá eigin ástríðu, áhuga og tíma. Mikill tími fór í að þróa ritstjórnarleg vinnubrögð – bæði hvernig við tökum við gagnrýni og nýtum okkur hana og einnig hvernig við veitum gagnrýni.

Við lukum vinnunni á kraftmiklum tíma þar sem við þýddum verk hver eftir aðra, hlýddum á fyrirlestur um útgáfumál og fluttum svo eigin verk fyrir hópinn. Við fórum meira að segja í það hvernig maður á við hljóðnema þar sem við þurftum að eiga við vandfýsinn hljóðnema sem vildi alls ekki halda haus og var greinilega mjög viðkvæmur fyrir lokhljóðum!

Í samræðum okkar um útgáfumál talaði ég hreinskilningslega um hindranir sem mæta höfundum af erlendum uppruna á Íslandi. Við vorum allar fullar baráttuanda við lok smiðjunnar og látum okkur nú dreyma um hvernig megi koma þessum frábæru fjöltyngdu skrifum sem blómstra á Íslandi í dag á framfæri við almenning.“

Á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg í október í ár verður sjónum einmitt beint að ólíkum röddum kvenna, m.a. þeim sem hér komu saman.

Alþjóðadagur menningarlegrar fjölbreytni UNESCO

$
0
0

Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa bera að henni og varðveita í þágu allra manna. Í tilefni dagsins mun Borgarbókasafnið og Reykjavík Bókmennta beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd og standa fyrir fjölbreyttri og skapandi dagskrá í Menningarhúsinu Grófinni þar sem verður varpað ljósi á mismunandi raddir og tungumál borgarbúa á öllum aldri. Hér er ekki endilega átt við þjóðtungur heldur leitum við eftir fjölbreyttum orðaforða og tungutaki og fjölbreyttum tjáningarleiðum og boðskiptum.

Dagskráin á Alþjóðdegi menningarlegrar fjölbreytni fimmtudaginn 21.5 er eftirfarandi:

Kl. 11.00-11.45
„HÆ GÓÐAN DAG“
Fjöltyngdur söngur og dans
RAUÐHETTA Á FRÖNSKU
Börn á leikskólanum Laufásborg sýna hvernig
þau leika og læra
á frönsku. Sólveig Simha býður upp á
stutta kennslustund í frönsku fyrir öll
áhugasöm börn.
Kl. 12.45-14.00
TÓNLISTARATRIÐI
6. bekkur Landakotsskóla spilar tvö lög
á stafspil undir stjórn Nönnu Hlífar
Ingvadóttur.
MENNINGARMÓT
4. og 6. bekkingar Landakotsskóla bjóða
gestum og gangandi að fá innsýn í fjölbreytta
menningarheima þeirra. Markmið Menningarmótsins
er að sýna að fjölbreytt menning,
áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt
menningarlegt litróf í samfélaginu öllu.
Kl. 15.00-15.30
TAKTUR OG TÁKNMÁL
Töfrandi taktveisla þar sem má upplifa ljóð
eftir börnin, útfærð með takti og á táknmáli.
Veislan er í boði frístundamiðstöðvarinnar
Kamps.
í Borgarbókasafninu
fimmtudaginn 21. maí

Image result for ljóðaslamm
Kl. 16.00-17.30
CAFÉ LINGUA |
SNIÐUG MÁLSNIÐ OG „LINGÓ“
„Hnífaparið“ Halldóra Líney Finnsdóttir og Hekla Baldursdóttir, vinningshafar á
Ljóðaslammi 2015, stíga á stokk með atriðið Gervisykrað samfélag.
Hugvekjur:
Áslaug Ýr Hjartardóttir, menntaskólanemi,
fjallar um ólíkar raddir og mismunandi
tjáningarform.
Brandur Karlsson sýnir gestum hvernig hann
stýrir tölvu til tjáningar með augunum.

Opnar smiðjur þar sem gestum býðst að spreyta sig á klippiljóðagerð, ræða við málfarsráðunaut, fræðast um Spanglish og fleira.

Athugið að dagskráliðir yfir daginn höfða til mismunandi aldurshópa. Allir eru velkomnir!

Á Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni verður tilkynnt hvaða skólar séu orðnir formlegir Menningarmótsskólar skólaárið 2014/15

Dagskráin er samstarf Borgarbókasafns við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, frístundamiðstöðina Kamp, Landakotsskóla, Skóla- og frístundasvið og málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins.

Merkingar og skáldabekkir til heiðurs konum

$
0
0

Menningarmerkingar

Reykjavíkurborg heiðrar minningu merkra kvenna með nýjum menningarmerkingum í Reykjavík. Þann 19. júní verða tvær merkingar settar upp, annars vegar til heiðurs Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður og hins vegar tveimur frumkvöðlum í kvenréttindabaráttunni, þeim Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason. Fyrrnefnda merkingin er á Skólavörðustíg 11, þar sem Tobbukot stóð, en sú síðari í Templarasundi. Þá verður hægt að hlýða á upplestur á skáldskap eftir nokkrar íslenskar skáldkonur á skáldabekkjum á Skólavörðustíg og Austurvelli.

Þorbjörg Sveinsdóttir

Tobbukot
Tobbukot

Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir (1827-1903) stundaði ljósmóðurstörf í Reykjavík frá 1864 til 1902 og var hún fyrsta embættisljósmóðir í bænum. Hún tók á móti fjölda Reykvíkinga, m.a. Halldóri Laxness, og var virt og dáð af bæjarbúum. Þorbjörg bjó í steinbæ við Skólavörðustíg sem var kenndur við hana og gekk undir nafninu Tobbukot. Hún var einn stofnenda Hins íslenska kvenfélags árið 1894 sem var fyrsta kvenfélagið á landinu. Tobba var mikill skörungur og lét sig menntun kvenna og almenn réttindi þeirra miklu varða.

Frumkvöðlar í kvenfrelsisbaráttu

Austurvöllur 1915
Austurvöllur 1915

Menningarmerkingin til heiðurs þeim Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason stendur við Templarasund, miðja vegum milli Alþingis og staðarins þar sem Góðtemplarahúsið (Gúttó) stóð. Bríet steig á svið í Gúttó þann 30. desember 1887 og hélt þar „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna.“ Hann er jafnan talinn marka upphaf kvenréttindabaráttu á Íslandi. Bríet var ein fjögurra kvenna sem fyrst tóku sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908 en það ár fengu konur kosningarétt í bæjarstjórnarkosningum. Þegar konur fengu kosningarétt 1915 hélt Bríet eina af tveimur aðalræðum í hátíðahöldum sem konur efndu til á Austurvelli. Hina ræðuna hélt Ingibjörg H. Bjarnason, skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík, sem stofnaður var 1875. Árið 1922 var Ingibjörg kjörin á þing, fyrst íslenskra kvenna, af sérstökum kvennalista þar sem hún sat til ársins 1930. Þar beitti hún sér fyrir margvíslegum málum sem snertu réttindi kvenna og barna. Hún fylgdi því sérstaklega eftir að stjórnin lét byggja spítala handa öllum landsmönnum, Landsspítalann, en konur söfnuðu fé til hans í minningu kosningaréttar kvenna.

Kvenskáldabekkir

Á tveimur skáldabekkjum má svo hlýða á upplestur eftir þær Svövu Jakobsdóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur, Auði Övu Ólafsdóttur, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Gerði Kristnýju, Valgerði Þóroddsdóttur og Björk Þorgrímsdóttur. Vegfarendur geta tyllt sér á bekkina, skannað rafrænan kóða með snjallsíma og hlustað á upplestur skáldkvennanna sjálfra og leikara á ljóðum og sögubrotum. Upplesturinn er einnig á ensku. Bekkirnir eru á Skólavörðustíg, við Hegningarhúsið, og á Austurvelli.

MKvenskáldabekkurenningarmerkingar Reykjavíkurborgar eru verkefni á vegum Borgarsögusafns, Listasafns Reykjavíkur og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar. Skáldabekkir í Reykjavík
eru á vegum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.

 

Starfsstyrkir Hagþenkis

$
0
0

Hagþenkir hefur úthlutað starfsstyrkjum til ritstarfa fyrir árið 2015. Að þessu sinni hljóta 29 höfundar styrki til að vinna að 27 verkefnum. Hæstu styrkirnir nema 600.000 krónum og er þeim úthlutað til tólf verkefna. Þrettán verkefni hljóta 400.00 og tvö 300.000 kr. Einn höfundur hlýtur handritastyrk að upphæð kr. 200.000. Alls bárust 86 umsóknir.

Meðal verkefna sem hljóta styrk í ár eru bók um íslenska dægurlagatónlist, rannsókn á klámi, bók um rímnahefðina og Kvæðamannafélagið Iðunni, hvernig kenna má málfræði með aðferðum leiklistar og brot úr bókmenntasögu frá 1920 til nútímans með skáldlegu ívafi.

Úthlutunarnefnd Hagþenkis er sem fyrr skipuð þremur félagsmönnum til tveggja ára í senn. Úthlutunarnefnd árið 2015 skipuðu Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, Kolbrún S. Hjaltadóttir kennsluráðgjafi og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir kynjafræðingur.

Hagþenkir

Eftirtaldir höfundar og verkefni hljóta styrk:

Arnar Eggert Thoroddsen
Icelandic Pop: Its place and peculiarities
Kr. 600.000

Axel Kristinsson
Hnignun, hvaða hnignun?
Kr. 600.000

Gylfi Ólafsson
Hagnýt heilsuhagfræði
Kr. 600.000

Halldóra Arnardóttir
Listir og menning sem hluti af meðferð við Alzheimer: íslensk söfn
Kr. 600.000

Hörður Kristinsson
Fléttuhandbókin
Kr.600.000

Jón K. Þorvarðarson
Kennslubókaröð í stærðfræði
Kr. 600.000

Kristín Svava Tómasdóttir
Stund klámsins
Kr. 600.000

Ragnheiður Ólafsdóttir
Áhrif Kvæðamannafélagsins Iðunnar á rímnahefðina
Kr. 600.000

Ragnhildur Sigurðardóttir
Sjálfbærni landnýtingar í Mývatnssveit 1700-1950
Kr. 600.000

Rannveig Þorkelsdóttir og Ása Helga Ragnardóttir
Læsi, lestur og listir; að kenna málfræði með aðferðum leiklistar
Kr. 600.000

Sólveig Einarsdóttir og Elinborg Ragnarsdóttir
Skáld skrifa þér – Brot úr bókmenntasögu með skáldlegu ívafi – 1920 til nútímann
Kr. 600.000

Vilhelm Vilhelmsson
Sáttabók Miðfjarðarsáttaumdæmi
Kr. 600.000

Árni Daníel Júlíusson
Sustainability or catastrophe? Society and economy in Hörgárdal in the 13th-14th century
Kr. 400.000

Björg Árnadóttir
Lake Mývatn – People and places
Kr. 400.000

Björg Hjartardóttir
Lesið í Freyju
Kr.400.000

Guðmundur Sæmundsson
Íþróttir á Íslandi, menning og siðferði
Kr. 400.000

Haraldur Sigurðsson
Bæjarskipulag og mótun umhverfis á Íslandi á 20. öld
Kr. 400.000

Jón Árni Friðjónsson
Sögukennslubækur og tíðarandi
Kr. 400.000

Ragnhildur Bjarnadóttir
Starfstengd leiðsögn
Kr. 400.000

Rósa Rut Þórisdóttir
Hvítabjarnkomur til Íslands fyrr og síðar
Kr. 400.000

Sigurrós Þorgrímsdóttir
Vakið
Kr. 400.000

Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir
Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum
Kr. 400.000

Sverrir Tómasson
Pipraðir páfuglar
Kr. 400.000

Una Margrét Jónsdóttir
Gullöld revíunnar
Kr. 400.000

Þorleifur Friðriksson
Evrópskar hulduþjóðir
Kr. 400.000

Bjarki Karlsson
Bragsaga
Kr. 300.000

Jóna Valborg Árnadóttir
Glatað fé eða fundið? Miðaldra og eldra fólk í starfi
Kr. 300.000

Úthlutun til starfsstyrks til fræðslu- og heimildamyndar:

Ásdís Thoroddsen 
Þjóðbúningurinn
Kr. 200.000

Ós – Fjölmála samfélag rithöfunda

$
0
0

Nýr grasrótarhópur skálda af ólíkum uppruna

Hópur kvenna sem tók þátt í fjölmála ritsmiðju Bókmenntaborgarinnar með Angelu Rawlings fyrr á þessu ári hefur stofnað nýtt samfélag rithöfunda í Reykjavík. Það hefur fengið nafnið Ós. Markmið þessa grasrótarfélags er að skapa vettvang fyrir rithöfunda og skáld á Íslandi með ólíkan bakgrunn hvað varðar upprunaland og tungumál. Ós stefnir að því að koma þessum höfundum á framfæri, bæði á prenti og með viðburðum. Í hópnum eru nú nokkrar konur af íslenskum og erlendum uppruna. Bókmenntaborgin hefur frá upphafi lagt áherslu á fjölmenningu í starfsemi sinni og það er mikið ánægjuefni að sjá þennan nýja sprota í bókmenntaflóru borgarinnar líta dagsins ljós.

Fyrsti viðburðurinn sem Ós kemur að er bókmenntadagskrá á Loft hosteli í Bankastræti 7 laugardaginn 25. júlí. Þar munu tvær skáldkonur úr hópnum lesa upp, þær Ewa Marcinek og Randi Stebbins. Þær koma fram með kanadíska skáldinu Gregory Betts sem á nú leið um Reykjavík. Þeir sem vilja kynna sér starfsemi Óss eru hvattir til að mæta á viðburðinn á Loft hosteli því þar gefst tækifæri til að spjalla við konurnar. Anna Valdís Kro mun stýra dagskránni en hún er líka ein af Óskonum.

PLUNDERVERSE: Reading 101

Dagskráin á Loft hosteli, PLUNDERVERSE, Reading 101, fer fram á kaffihúsinu / barnum á 4. hæð. Hún stendur frá kl. 14 – 16 og eru allir hjartanlega velkomnir.

GREGORY BETTS

Gregory er ljóðskáld, ritstjóri, fræðimaður og prófessor. Hann fæddist í Vancouver, ólst upp í Toronto en býr nú og starfar í St. Catharines. Hann hefur sent frá sér sjö ljóðabækur: If Language (BookThug, 2005), Haikube (BookThug, 2006), The Others Raised in Me (Pedlar Press, 2009), Psychic Geographies and Other Topics (Quattro Press, 2010; einnig fáanlega sem rafbók), The Obvious Flap (BookThug, 2011), This is Importance (Wolsak & Wynn, 2013), og Boycott (Make Now Books, 2014).

Í ljóðum sínum og öðrum skrifum kannar Gregory og endurhugsar kanadíska framúrstefnu í bókmenntum, eins og kemur m.a. fram í bók hans, Avant-Garde Canadian Literature: The Early Manifestations (University of Toronto Press, 2013). Gregory er forstöðumaður Centre for Canadian Studies við Brock University þar sem hann er einnig Chancellor’s Chair for Research Excellence.

Randi Stebbins Ewa Marcinek Gregory Betts Anna Valdís Kro

RANDI STEBBINS

Randi er rithöfundur og ljóðskáld. Að hætti hins dæmigerða Bandaríkjamanns hefur hún oft flust á milli staða en hún hefur átt heima á Íslandi frá 2014. Ólík tungumál, fjölbreyttur starfsferill og ólík lönd hafa mótað það hvernig Randi lítur á heiminn og orðin. Skrifin eru hennar nýjasta ævintýri. Þar styðst hún við ferðalög í fortíð, veruleika dagsins og vinda framtíðar.

EWA MARCINEK

Ewa er rithöfundur og ljóðskáld frá Póllandi. Hún hefur búið á Íslandi í tvö ár. Ewa leikur sér að ólíkum tungumálum í skrifum sínum, en einnig ólíkum uppskriftum, menningarheimum og landafræði.

Sjá viðburðinn PLUNDERVERSE á Facebook

 

 

 

 

Sumarlestur Bókmenntaborga UNESCO

$
0
0

Viltu kynnast bókum frá öðrum Bókmenntaborgum?

Bókmenntaborgir UNESCO eru nú ellefu talsins. Auk Reykjavíkur eru í netinu borgirnar Dublin á Írlandi, Edinborg í Skotlandi, Dunedin á Nýja Sjálandi, Granada á Spáni, Heidelberg í Þýskalandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Kraká í Póllandi, Melbourne í Ástralíu, Norwich á Englandi og Prag í Tékklandi. Starfsfólk Bókmenntaborganna tók sig saman og útbjó lista yfir áhugaverðar bækur sem lesendur ættu að líta á þegar hugað er að sumarlestrinum.

Sumarbækurnar eru af ólíkum toga og þarna ætti því að vera eitthvað fyrir alla. Því miður hefur aðeins ein þeirra bóka sem koma frá öðrum Bókmenntaborgum  verið þýdd á íslensku en hinar eru allar fáanlegar á ensku, svo og á ýmsum öðrum tungumálum.

Gleðilegan sumarlestur!

Dublin

Let the Great World Spin (2009) eftir Colum McCann.

Colum McCann er rithöfundur frá Dublin, en býr nú í Bandaríkjunum. Nýjasta bók hans er TransAtlantic, sem er einnig áhugaverð lesning að sögn bókmenntaborgara í Dublin.

Let the Great World Spin gerist í New York á áttunda áratug síðustu aldar. Hún lýsir lífi ólíks fólks sem lifir og hrærist í borginni og þykir McCann vefa sögur þeirra saman á snilldarlegan hátt og gefa sannfærandi mynd af lífinu í New York. Bókin hefst á sögulegum atburði þegar Philippe Petit gekk á línu milli tvíburaturnanna í efstu hæðum árið 1974 og verða turnarnir að eins konar táknmynd í sögunni.

Let the Great World Spin vann til hinna virtu bandarísku verðlauna, National Book Award á útgáfuárinu.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Dublin

Edinborg

One Good Turn (2006) eftir Kate Atkinson.

Undirtitill þessara glæpasögu er A Jolly Murder Mystery og ætti það að segja eitthvað um tón sögunnar. Hún gerist á hinni árlegu Edinborgarhátíð, sem fer alltaf fram í ágúst og hún er því á næsta leyti núna í sumar. Vinsæl sjónvarpsþáttaröð hefur verið gerð eftir bókum Atkinson og hefur hún verið sýnd á RÚV undir heitinu Einkaspæjarinn. Téður spæjari er Jackson Brodie, sem margir íslenskir lesendur og sjónvarpsáhorfendur kannast eflaust vel við. Sagan hefst þegar Jackson og fleiri hátíðargestir verða vitni að fólskulegri árás þar sem þau bíða í röð eftir að komast inn á viðburð á hátíðinni. Það sem í fyrstu virðist vera reiði sem beinist að tilviljunarkenndu fórnarlambi reynist flóknara mál en svo.

Ein bóka Atkinson, Málavextir (Case Histories), hefur komið út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Edinborg

Dunedin

Whale Rider (1987) eftir Witi Ihimaera.

Witi Ihimaera var fyrsti rithöfundurinn af Maórí ættum til að gefa út bæði smásagnasafn og skáldsögu á Nýja Sjálandi. Hann er af blönduðum uppruna en lítur fyrst og fremst á sig sem Maórí höfund og frá því sjónarhorni skrifar hann. Bækur hans eru margar að einhverju leyti sjálfsævisögulegar, til að mynda er skáldsagan Nights in the Garden of Spain byggð á reynslu hans af því að koma út sem samkynhneigður kvæntur faðir tveggja dætra.

The Whale Rider er hans þekktasta verk á alþjóðlegum vettvangi, en samnefnd kvikmynd Niki Caro byggð á bókinni var frumsýnd árið 2002. Bókin fjallar um stelpuna Kahu, barnabarn höfðingja Maórí ættkvíslar í Whananga á austurströnd Nýja Sjálands.

Witi Ihimaera var University Burns Fellow við Otago háskóla í Dunedin árið 1975 og tók þátt í Dunedin Writers and Readers Festival nú í ár.

Sjá nánar um Witi Ihimaera 

Bókmenntaborgin Dunedin

Granada

El viajero del siglo / Traveller of the Century eftir Andrés Neuman (2009 á spænsku, ensk þýðing eftir Nick Caistor og Lorenza Garcia 2012).

Andrés Neuman býr í Granada en þangað flutti hann með fjölskyldu sinni frá Buenos Aires. Traveller of the Century (El viajero del siglo) er skáldsaga um glæp, ástir og hugmyndir. Í þessari sögulegu skáldsögu er tekist á við ýmis efni, svo bókmenntaþýðingar, kynlíf og stjórnmál. Hún segir frá ferðalangnum Hans sem kemur til Wanderburg (tilbúin borg) og ætlar að eyða nótt þar áður en hann nær lokaáfanga ferðalagsins. Áætlanir hans ganga þó ekki svo auðveldlega eftir þar sem Wanderburg reynist ólíkindastaður.

Bókin var valin ein af fimm bestu bókum á spænsku þegar hún kom út af blöðunum El País og El Mundo og hefur einnig unnið til annarra verðlauna. Hún var á stuttlista IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunanna 2014 og Independent Foreign Fiction Prize 2013.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Granada

Heidelberg

Der Vorleser / Lesarinn eftir Bernhard Schlink (1995 á þýsku, íslensk þýðing eftir Arthúr Björgvin Gíslason, 1998).

Lesarinn segir frá hinum fimmtán ára Michael Berg sem veikist hastarlega á leið heim úr skóla og kastar upp í húsasundi. Konan Hanna kemur honum til hjálpar og í framhaldinu hefst ástríðufullt samband þeirra sem lýkur þegar Hanna hverfur fyrirvaralaust. Mörgum árum síðar sér Michael hana aftur, en nú situr hún á sakamannabekk.

Bernhard Schlink ólst upp í Heidelberg frá tveggja ára aldri og stundaði grunnnám sitt í lögfræði þar áður en hann hélt til Berlínar. Hann er lögfræðingur og rithöfundur og voru fyrstu bækur hans sakamálasögur. Lesarinn er hans þekktasta verk en eftir henni var gerð fræg kvikmynd árið 2008, The Reader,  með Kate Winslet og Ralph Fiennes.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Heidelberg

Iowa City

Gilead (2004) eftir Marilynne Robinson.

Þetta er önnur skáldsaga Robinson, en fyrir hana hlaut hún bæði Pulitzer verðlaunin og National Book Critics Circle Award í heimalandinu. Bókin er sú fyrsta í seríu, þegar hafa þrjár bækur komið út (Home og Lila eru önnur og þriðja bókin) og sú fjórða er væntanleg. Gilead er skálduð sjálfsævisaga prestsins John Ames í smábænum Gilead í Iowa fylki. Söguna skrifar hann til ungs sonar síns eftir að hann kemst að því að hann er dauðvona.

Marilynne Robinson kennir við Iowa Writer’s Workshop.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Iowa City

Kraká

Solaris (1961) eftir Stanislaw Lem.

Stanislaw Lem er þekktastur fyrir vísindaskáldsögur og er einn af brautryðjendum á því sviði. Hann fæddist í Lwów en fluttist til Kraká eftir seinna stríð og lést þar árið 2006. Hann skrifaði heimspekileg verk, vísindaskáldskap og satírur. Solaris er vísindaskáldsaga og eitt af hans þekktustu verkum. Hún verið kvikmynduð þrisvar sinnum, m.a. af Tarkovskij, en nýjasta útgáfan er bandarísk frá 2002 með George Clooney í aðalhlutverki. Í bókinni er fjallað um minningar og minni, samband mannsins við sjálfan sig og leit að sambandi við líf eða þekkingu utan þess mannlega.

Þess má geta að á Lestrarhátíð í fyrra voru sýndar teikningar eftir Daniel Mróz við sögur eftir Lem á Borgarbókasafninu.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Kraká

Melbourne

The Slap (2008) eftir Christos Tsiolkas.

The Slap eftir ástralska höfundinn Christos Tsiolkas gerist í Melbourne. Hún segir frá manni sem löðrungar þriggja ára dreng og afleiðingar þess. Sagan er sögð frá sjónarhorni átta persóna sem líta atburðinn og það sem hann leiðir af sér ólíkum augum. Sjónvarpsþáttaröð sem var gerð eftir bókinni hefur verið sýnd á Rúv, en bæði hafa verið gerðar seríur eftir The Slap í Ástralíu og í Bandaríkjunum.

Tsiolkas býr og starfar í Melbourne. Hann er sonur grískra innflytjenda. Fyrsta skáldsaga hans er Loaded, en hún hefur einnig verið kvikmynduð sem bíómyndin Head On.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Melbourne

Norwich

Ritual Murder (1982) eftir S. T. Haymon.

Glæpasagnahöfundurinn Sylvia Theresa Haymon er frá Norwich. Hún er best þekkt fyrir sögur sínar um lögreglumanninn Ben Jurnet. Hún hlaut Silfurrýtinginn fyrir Ritual Murder en hún er ein bókanna um þessa löggu. Bókin þykir mjög spennandi, hún gerist í smábæ og segir frá morði á kórdreng. Kynþáttahatur, dularfull ritúöl og pólitískt drama blandast inn í söguna svo og fornleifauppgröftur í dómkirkju staðarins.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Norwich

Prag

Europeana: A Brief History of the Twentieth Century eftir Patrik Ouředník (2001 á tékknesku, ensk þýðing eftir Gerald Turner, 2005).

Patrik Ouředník er einn af þekktustu höfundum Tékklands og bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Europeana hefur komið út á 25 tungumálum, en þó ekki á íslensku.

Ouředník segir bókina vera skáldsögu en hún er síður en svo hefðbundin. Persónur eru engar og sumir sem hafa skrifað um hana líkja henni við ljóð eða óheft flæði. Bókin byggir á sögulegum atburðum og eins og titillinn gefur til kynna er Evrópa á tuttugustu öld í aðalhlutverki.

Europeana er sögð húmorísk, leikandi, truflandi og koma lesandanum stöðugt á óvart. Fyrir enska þýðingu bókarinnar hlaut Gerald Turner þýðingaverðlaun PEN.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Prag

Reykjavík

Skugga-Baldur (2003) eftir Sjón.

Sumarlestrarbókin frá Reykjavík er Skugga-Baldur eftir Sjón. Hún hefur verið þýdd á tungumál allra Bókmenntaborganna, á ensku sem The Blue Fox (Farrar, Straus & Giraux, 2013), á pólsku sem Opowieść islandzka (słowo/obraz terytoria, 2009), spænsku sem El zorro ártico (Nórdica Libros, 2008), tékknesku sem Syn stínu (Argo, 2008) og þýsku sem Schattenfuchs (S. Fischer, 2007).

Sjón hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina árið 2005 og hún hefur einnig verið tilnefnd til fleiri alþjóðlegra verðlauna. Skugga-Baldur segir frá grasafræðingnum Friðrik B. Friðjónssyni. Laugardaginn 17. apríl 1868 strandar seglskip út af Reykjanesi. Inni á milli lýsistunna á öðru þilfari finnst stúlka á unglingsaldri. Hún heitir Abba og reynist vera með Downs heilkenni. Friðrik tekur stúlkuna að sér og búa þau saman á föðurleifð hans þar til hún deyr. Hefjast þá átök Friðriks og séra Baldurs Skuggasonar, sem er prestur Dalbúa og ekki allur þar sem hann er séður.

Sjá nánar um bókina

Smelltu á bókakápurnar hér fyrir neðan til að sjá þær í fullri stærð:

Let the Great World Spin The Whale Rider One Good Turn Traveller of the Century Gilead Lesarinn Solaris The Slap Ritual Murder Europeana Skugga-Baldur

 

 

Tilnefnt til Ísnálarinnar

$
0
0

Fimm þýddar glæpasögur

Nú liggja fyrir tilnefningar til Ísnálarinnar 2015 en þau verðlaun eru veitt fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku, þar sem saman fara góð þýðing og góð saga. Tilnefningar eru kynntar á afmælisdegi Raymonds Chandler, 23. júlí, en hann er höfundur einnar af þekktustu glæpasögum allra tíma þar sem sem ísnál er notuð sem morðvopn.

Þetta er annað árið sem verðlaunin verða veitt en að þeim standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka. Dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir, Quentin Bates og Ragnar Jónasson.

Tilnefnd verk

Eftirtalin verk eru tilnefnd í ár og þetta hefur dómnefnd um þau að segja:

Afturgangan (Gjenferd) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. (Útg. JPV útgáfa)

Aðdáendur Jo Nesbø verða ekki sviknir af þessari bók sem hefur verið metsölubók víða um heim eins og fyrri bækur um andhetjuna Harry Hole, sem snýr núna heim til Noregs eftir sjálfskipaða útlegð í Hong Kong. Sögufléttan er hröð og fagmannlega spunnin og aldrei dauður punktur á rúmlega 500 blaðsíðum í úrvalsþýðingu Bjarna Gunnarssonar.

Alex (Alex) eftir Pierre Lemaitre í þýðingu Friðriks Rafnssonar. (JPV útgáfa)

Sagan hefst á því að hinni fögru Alex er rænt á götu og hennar bíður hræðilegur dauðdagi í vöruskemmu. Dvergvöxnum rannsóknarlögregluforingjanum Camille Verhæven og vöskum mönnum hans tekst að finna geymslustaðinn – en þá er þessi æsispennandi og hrollvekjandi glæpasaga rétt að hefjast. Friðrik Rafnsson miðlar vel fjörugum frásagnarstíl og sérvitrum persónum í prýðisgóðri þýðingu sinni.

Blóð í snjónum (Blod på snø) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. (JPV útgáfa)

Óvenjuleg saga sögð frá sjónarhóli leigumorðingjans Ólafs opnar okkur sýn inn í harðneskjulegan heim glæpa og ofbeldis. Ljóðræn og yfirlætislaus frásögn Jo Nesbø af einmana og umkomulausum morðingja skilar sér einkar vel í vandaðri þýðingu Bjarna Gunnarssonar.

Konan í lestinni (The Girl on the Train) eftir Paulu Hawkins í þýðingu Bjarna Jónssonar. (Bjartur)

Drykkjusjúka sögukonan í lestinni spinnur sögur um fullkomin hjón sem hún sér út um lestargluggann en einn góðan veðurdag hverfur eiginkonan. Þegar Rachel blandar sér í málið og reynir að rifja upp atvik sem hún hefur orðið vitni að en gleymt í svartnætti ofdrykkju hefst atburðarás sem hún ræður ekkert við. Þýðing Bjarna Jónssonar er lipur og læsileg og kemur vel til skila innra lífi og vandamálum konu sem hefur enga stjórn á lífi sínu eða drykkjufíkn.

Syndlaus (I grunden utan skuld) eftir Vivecu Sten í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. (Ugla)

Íslenskir lesendur eru farnir að kannast við Nóru Linde og vin hennar, lögreglumanninn Thomas Andreasson, í Sandhamn í sænska skerjagarðinum. Í þessari spennandi og vel skrifuðu sögu fléttast saman illvirki frá fyrri tíð og voðaverk nútíðar en auk þess gerast ýmis tíðindi í einkalífi Nóru og Thomasar. Örugg þýðing Elínar Guðmundsdóttur kemur vel til skila söguþræði og persónum og heldur vakandi áhuga lesandans allt til enda.

 


Literary Mixtape

$
0
0

Textablöndun með Willonu Sloan

Viltu spreyta þig á að setja saman þinn eigin texta úr öðrum sem þegar eru til – „remixa“ texta líkt og gert er með tónlist?

Sunnudaginn 6. september stendur Reykjavík Bókmenntaborg fyrir ritsmiðju í Norræna húsinu með bandaríska rithöfundinum Willonu Sloan. Þar kynnir hún bandarísk skáld af frumbyggjaættum og höfunda sem tilheyra svokallaðri Harlem Renaissance hreyfingu. Þátttakendur nota síðan þennan efnivið til að búa til eigin texta og takast þannig á við þá upphaflegu, hver með sínu lagi.

Þessi skemmtilega smiðja snýst fyrst og fremst um að endurraða, endurskrifa, endurvinna og endurblanda. Hún er haldin í samstarfi við Bókmenntahátíð í Reykjavík sem eins konar upptakur að hátíðinni.

Allir geta tekið þátt, hvort sem fólk er vant skrifum eða ekki. Smiðjan stendur frá kl. 13:00 – 16:30.

Þátttaka er ókeypis en áhugasamir þurfa að skrá sig þar sem sætafjöldi er takmarkaður.

Upplýsingar og skráning: bokmenntaborgin@reykjavik.is

Willona Sloan

Willona SloanWillona Sloan býr og starfar í Washington DC. Hún er rithöfundur og blaðamaður. Hún hefur gefið út skáldskap og greinar í blöðum og tímaritum ásamt rafbókinni Come to Our Show: Punk Show Flyers from D.C. to Down Under. Willona hefur staðið fyrir fjölda ritsmiðja og bókmenntaviðburða í heimaborg sinni.

Willona var Artist Fellow hjá D.C. Commission on the Arts and Humanities og gestarithöfundur í Banff Centre for the Arts í Alberta í Kanada. Hún var einn þátttakenda í Iceland Writers Retreat 2014 og lýsir þessari fyrstu ferð sinni til Íslands í greininni Babtism by Fire and Ice.

Vefsíða Willonu Sloan

Write.Drink.Read.

$
0
0

Hamingjustund með skrifum

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Bókmenntahátíð í Reykjavík bjóða upp á ritlistarsamkomu og hamingjustund (a happy writing hour) með bandaríska rithöfundinum Willonu Sloan. Smiðjan fer fram í Iðnó fimmtudaginn 10. september kl. 17-19. Þátttakendur koma saman á hátíðarbarnum á loftinu í Iðnó, skrifa, gæða sér á drykk ef þeir vilja og lesa svo örlítið upp fyrir hópinn.

Willona Sloan er gestgjafi og leiðbeinandi í þessu bókmenntaboði en hún stendur fyrir slíkum samkomum og öðrum bókmenntaviðburðum í heimaborg sinni, Washington DC.

Allir eru velkomnir, óháð fyrri reynslu af skrifum. Ekkert kostar að taka þátt en greiða þarf fyrir drykki.

Willona Sloan

Willona SloanWillona býr og starfar í Washington DC. Hún er rithöfundur og blaðamaður. Hún hefur gefið út skáldskap og greinar í blöðum og tímaritum ásamt rafbókinni Come to Our Show: Punk Show Flyers from D.C. to Down Under. Willona hefur staðið fyrir fjölda ritsmiðja og bókmenntaviðburða í heimaborg sinni.

Willona var Artist Fellow hjá D.C. Commission on the Arts and Humanities og gestarithöfundur í Banff Centre for the Arts í Alberta í Kanada.

Vefsíða Willonu Sloan 

Illska og Fiskarnir hafa enga fætur tilnefndar

$
0
0

Tvær íslenskar skáldsögur tilnefndar til Prix Médicis verðlaunanna

Prix Médicis verðlaunin eru frönsk bókmenntaverðlaun sem hafa verið veitt frá árinu 1958. Þau eru meðal þekktustu bókmenntaverðlauna í Frakklandi. Tilnefnt er í tveimur flokkum, flokki skáldsagna frumsömdum á frönsku og flokki þýddra skáldsagna.  Í ár eru tvær skáldsögur íslenskra höfunda meðal þeirra þrettán bóka sem eru tilnefndar í flokki þýðinga, báðar þýddar af Eric Boury. Þetta eru bækurnar Illska (Le mal) eftir Eirík Örn Norðdahl og Fiskarnir hafa enga fætur (D’ailleurs, les poissons n’ont pas de pieds) eftir Jón Kalman Stefánsson. Forlagið Métailié gefur Illsku út og Gallimard skáldsögu Jóns Kalmans.

Aðrir höfundar sem eru tilnefndir til verðlauna í flokki þýddra skáldsagna eru Oya Baydar (Tyrkland), Javier Cercas (Spánn), Jane Gardam (Bretland), Hakan Günday (Grikkland), Deepti Kapoor (Indland), Alessandro Mari (Ítalía), Anna North (Bandaríkin), Joyce Carol Oates (Bandaríkin), Nathalie Rich (Bandaríkin), Robert Seethaler (Austurríki), Agata Tuszymska (Pólland). Meðal höfunda sem hafa hlotið verðlaunin í flokki þýðinga eru Doris Lessing, Michael Ondaatje, Umberto Eco, Paul Auster og Dave Eggers.

Tilnefningarnar voru kynntar í gær, þann 14. september 2015, af formanni dómnefndar, Alan Veinstein. Fimmtán bækur frumsamdar á frönsku eru tilnefndar.

IllskaD_ailleurs_les_poissons_n_ont_pas_de_pieds_Chronique_familia

Illska eftir Eirík Norðdahl, sem Forlagið gaf út, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012. Hún var einnig kosin besta skáldsaga ársins af bóksölum á útgáfuárinu. Sagan fjallar um parið Ómar Árnason og Agnesi Lukauskaite en inn í sögu þeirra fléttast m.a. minningar og frásagnir af helförinni, nýnasismi og atburðir í fortíð fjölskyldu Agnesar í Litháen.

Sjá umfjöllun um Illsku á vefnum bokmenntir.is

Fiskarnir hafa enga fætur kom út hja Bjarti árið 2013. Sagan gerist að miklu leyti á Suðurnesjum en teygir sig víðar. Hún segir frá Ara sem snýr heim til bítlabæjarins Keflavíkur frá Danmörku en hann á einnig ættir að rekja til sjómanna á Austfjörðum og er sú fjölskyldusaga hluti af efnivið bókarinnar. Jón Kalman hefur sjálfur sagt að bókin fjalli um leit þjóðar sem er á flótta frá því að horfast í augu við sjálfa sig.

Sjá umfjöllun um Fiskarnir hafa enga fætur á vefnum bokmenntir.is

Erik Boury þýðir báðar bækurnar eins og áður segir en hann hefur þýtt fjölmörg verk íslenskra höfunda á frönsku.

 

Bókin í rafheimum

$
0
0

Er ástæða til að óttast eða fagna?

Föstudaginn 2. október, á öðrum degi Lestrarhátíðar í Reykjavík, verður haldið málþing um mögulega framtíð bóka á íslensku í stafrænum heimi. Þingið er samstarfsverkefni Rithöfundasambands Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns Íslands, Borgarbókasafns, Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Markmiðið er að skoða stöðuna á íslenskum bókamarkaði og velta vöngum yfir því sem framtíðin gæti borið í skauti sér.

Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsog stendur frá kl. 13 – 17. Það er öllum opið og ekkert kostar inn.

Dagskrá:

13.00
Halla Oddný Magnúsdóttir setur þingið og stýrir umræðum.

13.10
Gauti Kristmannsson, prófessor: Menningarpólitísk áhrif tæknibyltinga
Hér verður farið yfir hvernig tæknibyltingar breyta landslagi menningar og tungumáls og verður þetta fyrst og fremst skoðað út frá íslenskum sjónarhóli, en þó með samanburði við það sem er að gerast erlendis.

13.30
Egill Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda: Rafbókaútgáfa á Íslandi
Farið verður yfir þróun íslenskrar rafbókaútgáfu undanfarin ár og einnig innviðina og aðferðafræðina við útgáfu og sölu rafbóka. Egill mun einnig lýsa framtíðarsýn sinni á miðlun og sölu rafbóka á Íslandi á komandi misserum.

13.50
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður: Rafbækur í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Fjallað verður um stafræna endurgerð íslenskra bóka og hugmyndir um íslenska Bókahillu, móttöku íslenskra rafbóka í skylduskilum og aðgengi að þeim. Einnig um erlendar fræðibækur og handbækur sem safnið kaupir og eru ýmist aðgengilegar á háskólasvæðinu eða opnar öllum landsmönnum á hvar.is.

14.10 Kaffihlé

14.30
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands: Rithöfundur í rafheimum: Stjórnlaus lukka?
Vangaveltur um stöðu höfunda í rafrænu samfélagi og rafrænni útgáfu. Nær höfundur nú milliliðalausu sambandi við lesendur sína eða verða milliliðirnir mikilvægari en nokkru sinni? Verður höfundur útgefandi og rekur sitt eigið bókasafn?

15.00
Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður (Guðríður Sigurbjörnsdóttir flytur): Rafbækur og almenningsbókasöfn
Bókasöfn og ekki síst almenningsbókasöfn eru afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem tryggir læsi og lesskilning í samfélaginu. Víða um heim hafa bókasöfn og útgefendur leitað leiða til að finna útlánaform sem hentar öllum aðilum. Til eru nokkrar leiðir sem hafa verið farnar. Þeim verður lýst í stuttu máli ásamt þeirri leið sem Borgarbókasafn ásamt Landskerfi bókasafna er að skoða núna til að geta boðið upp á rafbækur sem safnkost. Það er trú okkar á Borgarbókasafninu að það séu sameiginlegir hagsmunir bókasafna, höfunda og útgefanda að sátt náist um hvernig þessu er háttað.

15.20
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur: Á ráfi í rafbókarheimi: lesendur, lesskilningur og lestraránægja
Í erindinu veltir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir fyrir sér rafbókum út frá sjónarhóli lesenda. Hún fjallar um lestrarskilning og lestraránægju, og veltir sérstaklega fyrir sér hvaða möguleika áframhaldandi tækniþróun veitir prentleturshömluðum og hvaða kröfur skulu gerðar um aðgengi að rafbókum.

15.40
Pallborðsumræður

17.00
Léttar veitingar

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2015

$
0
0

Ragnar Helgi Ólafsson verðlaunaður

Ragnar Helgi Ólafsson hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið Ragnar Helgi Ólafsson2015 fyrir ljóðahandritið Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema 700 þúsund krónum. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið úr prentun í útgáfu Bjarts.

Ragnar Helgi las heimspeki við Háskóla Íslands og lagði síðar stund á nám í myndlist í Frakklandi. Hann hefur síðastliðin ár unnið að myndlist og sýnt verk sín víða um heim, meðfram því að sinna grafískri hönnun og kennslu auk þess að spila tónlist með ýmsum hljómsveitum. Hann leggur nú einnig stund á nám í ritlist við Háskóla Íslands. Ragnar Helgi er annar forsvarsmanna Tunglsins forlags og situr auk þess í ritstjórn tímaritraðarinnar 1005 og veftímaritsins Skíðblaðnis. Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum er þriðja bók hans, en áður hefur hann sent frá sér skáldsöguna Bréf frá Bútan og smásagnasafnið Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur. Ragnar Helgi býr í Reykjavík.

Alls bárust 48 handrit að þessu sinni. Í dómnefnd sátu Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, Bjarni Bjarnason og Páll Valsson formaður nefndarinnar.

Umsögn dómnefndar

Í umsögn dómnefndar kemur fram að henni hafi verið ánægjulegur vandi á höndum, sem var að lokum erfitt val á milli nokkurra góðra handrita. Þegar upp var staðið var hún hins vegar öll sammála um að heildstæðasta handritið og það sem fremst stæði meðal jafningja væri það sem nú er komið á bók undir heitinu Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Eitt helsta einkenni hennar væri myndvísi. Hún ber vitni góðri myndgáfu höfundar en hann hefur líka eftirtektarverð tök á að klæða þær myndir í orð. Annað einkenni þessarar bókar væri að tefla saman að því er virðist óskyldum hlutum af vissum óhátíðleika. Þetta skapaði ákveðna spennu sem ljær ljóðunum aukna dýpt. Kæruleysið á yfirborðinu leynir á sér. Fjölbreytileiki er líka einn styrkur bókarinnar, hún er margradda í góðum skilningi; tekist er á við heimspekileg viðfangsefni jafnhliða þeim sem stundum eru kölluð hversdagsleg, en eru auðvitað alveg jafn sígild, hér eru prósaljóð og frásagnir jafnframt knöppum og meitluðum ljóðum. Tilfinningin er sú að lífið leyni á sér, ekkert er sem sýnist, lífið er sem næturveiði og því gildir að skyggnast dýpra í hylinn.

Ragnar Helgi, Elsa Yeoman og Dagur B. Eggertsson Til hughreistingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum

 

Íslensku barnabókaverðlaunin

$
0
0

Arftakinn eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur verðlaunuð

Ragnheiður Eyjólfsdóttir hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2015 fyrir fantasíubókina Arftakinn. Bókin var valin úr 28 handritum sem send voru dómnefnd verðlaunanna.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hagaskóla þann 13. október síðastliðinn.

Ragnheiður Eyjólfsdóttir

Arftakinn er fyrsta bók Ragnheiðar en tilgangur verðlaunanna er einmitt meðal annars að hjálpa ungum rithöfundum að koma sér á framfæri. Sigþrúður Gunnarsdóttir, barnabókaritstjóri Forlagsins, afhenti Ragnheiði verðlaunin fyrir hönd aðstandenda verðlaunanna. Hún sagði alla dómnefndina hafa fallið fyrir bókinni, sem fjallar um unglingsstelpuna Sögu sem uppgötvar falinn furðuheim rétt fyrir 13 ára afmælisdaginn. Sjálf segir Ragnheiður  að bókin fjalli um „upprunann, völd, svik, fortíðina, furður, vinskap og fjandskap.“

 

Um Arftakann:

Enginn tekur eftir Sögu. Þannig hefur það alltaf verið. Hún sér líka hluti sem enginn annar sér en er löngu búin að læra að þegja yfir því. Eftir að húshjálpin í kjallaranum hverfur sporlaust og í hennar stað birtist skuggalegur óvættur fær Saga loks skýringu á því hvers vegna hún er öðruvísi en aðrir. En það er skýring sem erfitt er að horfast í augu við og um leið upphafið að ótrúlegu ævintýri.

Ragnheiður hefur sagt frá því í viðtölum að hún vinni nú að framhaldi sögunnar.

Sjá viðtal við Ragnheiði Eyjólfsdóttur um bókina og verðlaunin í Fréttablaðinu

Íslensku barnabókaverðlaunin

Íslensku barnabókaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1986 en stofnað var til þeirra í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar. Auk fjölskyldu hans standa Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið að verðlaununum og skipa fulltrúar þessara aðila dómnefndina. Í ár bárust dómnefndinni 28 handrit undir dulnefni og valdi hún sigurbókina í samstarfi við tvo nemendur úr áttunda bekk í Hagaskóla, Hrafnhildi Einarsdóttur og Matthías Löve. Verðlaunaféð sem sigurvegarinn hlýtur er hálf milljón króna.

Sjá viðtal við Ragnheiði Eyjólfsdóttur um Arftakann á

 

Af hverju þarf ég að lesa?

$
0
0

Málþing Bókabæjanna austanfjalls

Fimmtudaginn 12. nóvember verður haldið málþing í  Ráðhúsi Ölfuss þar sem fjallað verður um hlutverk barnabóka í eflingu læsis.

Bókabæirnir austanfjalls vilja auka hróður barnabókarinnar og vekja athygli á mikilvægi barnabóka. Þingið er sjálfstætt framhald Barnabókahátíðar Bókabæjanna austanfjalls sem haldin var í september síðastliðnum. Inntak málþingsins er barnabókmenntir og læsi eða hlutverk barnabókarinnar í eflingu læsis. Spurningunum „af hverju erum við að þessu?“ og „af hverju þurfa börn að lesa?“ verður svarað frá ýmsum sjónarhornum.

Ókeypis er á málþingið. Veitingahúsið Meitillinn mun selja súpu í hléi sem kostar 1200 krónur.

Ráðhúss Ölfuss er að Hafnarbergi 1 í Þorlákshöfn.

Af hverju þarf ég að lesa

Dagskrá:

Ólína Þorleifsdóttir kennsluráðgjafi skólaþjónustu Árnesþings stjórnar þinginu.

17:30 – Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra setur málþingið
17:45 – Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur: „Skipta barnabækur máli?“
18:00 – Gerður Kristný rithöfundur og ljóðskáld: „Bækur breyta heiminum“

18:20 – Hlé
Súpa frá Veitingahúsinu Meitlinum á 1200 krónur

18:50 – Lára Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO „Komdu með á hugarflug“
19:10 – Andri Snær Magnason rithöfundur
19: 30 – Spurningar úr sal og dagskrárlok

 


Bókamessa í Bókmenntaborg

$
0
0

Bókasýning og lifandi dagskrá í Ráðhúsinu

Helgina 21.-22 nóvember 2015 verður Bókamessa í Bókmenntaborg haldin í fimmta sinn. Messan verður sem fyrr í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem útgefendur sýna nýjar bækur og boðið verður upp á fjölbreytta bókmenntadagskrá fyrir fólk á öllum aldri. Líf og fjör verður í Ráðhúsinu alla helgina. Upplestrar, sögustundir, spjall um bækur, leikir og getraunir, ljúffengt smakk og óvæntar uppákomur.

Þarna gefst fólki einstakt tækifæri til að kynna sér bókaútgáfu ársins á einu bretti, ræða við útgefendur og höfunda, fá hugmyndir að bókum í jólapakkana og skemmtilegu lesefni fyrir sig sjálft.

Húsið er opið milli kl. 12:00 – 17:00 báða dagana. Ekkert kostar inn og eru allir hjartanlega velkomnir.

Bókasýningin verður í Tjarnarsalnum og þar verður einnig pop-up kaffihús Kaffitárs. Bókmenntadagskráin verður á þremur stöðum í húsinu: í borgarstjórnarsalnum á 2. hæð (gengið upp stiga austan megin), í salnum þar sem áður var kaffihús Ráðhússins á 1. hæð austan megin og í matsal Ráðhússins á 1. hæð (við stigagang austan megin). Einnig verður dagskrá og sýningarborð á gönguásnum á 1. hæð.

Aðstandendur messunnar eru Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Bókamessa15

DAGSKRÁ

ÖLL HELGIN:

STRÍÐSÁRIN
Sýning á myndum úr bók Páls Baldvins Baldvinssonar, Stríðsárin 1938-1945. Bókin lýsir stríðsárunum á Íslandi í máli og myndum.
Ráðhúsgangur

FÖNDURBORÐ FJÖLSKYLDUNNAR
Bókabeitan býður börnum og fullorðnum að taka þátt í skemmtilegum leikjum og eiga heppnir þátttakendur von á bókaglaðningi.

Fyrir börnin:
Litaðu skemmtilega mynd. Þú gætir unnið eintak af Ömmu óþekku og tröllunum í fjöllunum eða Viltu vera vinur minn?
Teiknaðu skrímsli! Þú gætir unnið eintak af Hrolli; Kvikmyndabókinni, Garðdvergunum eða Sá hlær best …
Fyrir fullorðna:
Skrifaðu hugleiðingu eða ljóð sem tengist ferðalögum. Þú gætir unnið eintak af skáldsögunni Vegur vindsins – buen camino.

TRAKTORAR Í MÁLI OG MYNDUM
Traktorabókin leiðir okkur á ljóslifandi hátt í gegnum sögu þessa magnaða tækis sem umbylti landbúnaði heimsins á 20. öld. Í henni er fjallað um ríflega 450 traktora, sögu vinsælustu tegundanna og mennina á bak við þær. Í vesturanddyri Ráðhússins verður útstilling sem er tileinkuð bókinni.

LAUGARDAGUR:

BORGARSTJÓRNARSALUR, 2. HÆÐ:

12:30-14:30
BARNADAGSKRÁ FORLAGSINS – UPPLESTUR, BÓKAKYNNING OG GETRAUN

12:30-13:30
Drekar, vinir og hrekkjusvín – sögustund fyrir alla krakka
Gunnar Helgason: Mamma klikk
Sigrún Eldjárn: Leyniturninn á Skuggaskeri
Kristín Helga: Mói hrekkjusvín
Bergljót Arnalds: Rusladrekinn
Jóna Valborg: Vinabókin
Birgitta Haukdal: Lára
Þorgrímur Þráinsson: Ég elska máva

13:30-14:30
Draugar, skrímsli og furðuverur – hryllingsstund fyrir krakka sem ÞORA
Gerður Kristný: Dúkka
Hildur Knútsdóttir: Vetrarfrí
Kjartan Yngvi Björnsson: Ormstunga
Ragnheiður Eyjólfsdóttir: Arftakinn
Gunnar Theodór Eggertsson: Drauga-Dísa
Ævar Þór Benediktsson: Þín eigin goðsaga

Sleipnir mætir í borgarstjórnarsalinn í lok sögustundarinnar og gefur börnunum bókamerki

15:00-15:30
LJÓÐ FRÁ KÚBU
Skjólborgarskáld Reykjavíkur, Orlando Luis Pardo Lazo, spjallar um skáldskap sinn og flytur eigin ljóð. Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari og leikhússtjóri Tjarnabíós, flytur ljóðin í íslenskri þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur. Kynnir er rithöfundurinn Sjón.

16:00-17:00
SKJÁLFTI OG BYLTINGAR
Auður Jónsdóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir spjalla um nýjar bækur sínar við Höllu Oddnýju Magnúsdóttur, dagskrárgerðarkonu á RÚV. Báðar senda þær frá sér skáldverk um konur fyrir þessi jól. Auður skáldsöguna Skjálfti, sem segir frá Sögu, flogaveikri konu sem rankar við sér eftir kast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Í Litlum byltingum Kristínar Helgu eru sagðar sögur tíu kvenna sem spanna í senn eitt kvöld, eitt ár og heila öld.

KAFFIHÚS RÁÐHÚSSINS, 1. HÆÐ:

13:30-15:00
HEIMSBÓKMENNTASTUND
Lesið verður úr eftirtöldum bókum:

Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino í þýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur
Bernska, Æska, Manndómsár eftir Leo Tolstoj í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur
1984 eftir George Orwell í þýðingu Þórdísar Bachmann. Markús Þórhallsson les
Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar
Anna í Asparblæ (4. bókin um Önnu í Grænuhlíð) eftir Lucy Maud Montgomery í þýðingu Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur

15:00-17:00
LJÓÐASENAN
Fjölmargar ljóðabækur hafa komið út á árinu, bæði frá nýjum höfundum og öðrum sem eru gamalreyndir. Á ljóðasenu Bókamessunnar stíga eftirtalin skáld fram:

Lubbi klettaskáld: Skapalón
Urður Snædal: Píslirnar hennar mömmu
Harpa Rún Kristjánsdóttir: Ljóð og líf Helgu á Grjótá
Óskar Árni Óskarsson: Fjörutíu ný og gömul ráð við hversdagslegum uppákomum
Ari Trausti Guðmundsson: Þankar um hringleið
Kristján Þórður Hrafnsson: Tveir Elvis Presley aðdáendur og fleiri sonnettur
Sjón: Gráspörvar og ígulker
Linda Vilhjálmsdóttir: Frelsi
Ragnar Helgi Ólafsson: Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum
Þórdís Gísladóttir: Tilfinningarök
Kristín Svava Tómasdóttir: Stormviðvörun

MATSALUR RÁÐHÚSSINS, 1. HÆÐ:

13:00-13:30
EGILS SÖGUR – Á MEÐAN ÉG MAN
Egill Ólafsson og Páll Valsson segja frá tilurð bókarinnar Egils sögur og lesið verður úr henni. Egill Ólafsson er sögumaður af guðs náð og lýsir í bókinni bernskuárunum, Spilverkstímanum, Þursum og Stuðmönnum, leikhúsvinnu og kvikmyndagerð.

13:30-14:00
MAMÚSKA – AF VINÁTTU ÍSLENDINGS OG EVRÓPSKRAR MATMÓÐUR
Halldór Guðmundsson spjallar um kynni sín af Mamúsku, konu sem hann kynntist á ferðum sínum til Þýskalands á margra ára tímabili. Þau urðu góðir vinir og hún bauðst til að gerast amma hans. Hann vildi heldur fá að skrásetja viðburðaríka ævi hennar. Hún var fædd í rússneska keisaradæminu og ólst upp á sveitabýli við kröpp kjör. Síðar fluttist hún til Vilníus, atti kappi við fegurstu konu heims um einn ríkasta piparsveininn á svæðinu og flúði með honum til Frankfurt í sprengjuregni seinni heimsstyrjaldar. Þar opnaði hún veitingastað og eldaði ævintýralega rétti.

14:00-15:15
TÍMAFLAKK OG FERÐASÖGUR
Hér verður ferðast um bæði í tíma og rúmi og skyggnst inn í nokkrar frábærar bækur í léttum kynningum í máli og myndum.

Unnur Sveinsdóttir og Högni Páll Harðarson kynna ferðabók sína Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu. Hvað fær venjulegt fólk á miðjum aldri til að pakka á mótorhjól tjaldi, núðlupakka og naríum til skiptanna og hjóla svo í fimm mánuði um Mið-Asíu?

Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir kynna bókina Utangarðs? Ferðalag til fortíðar. Hún segir frá utangarðsfólki og förufólki á Vesturlandi og Vestfjörðum á 19. og 20. öld. Óhætt er að segja að þessi örlagaþrungna grasrótarsaga bregði nýju og óvæntu ljósi á Íslandssöguna.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir kynnir bókina Listamaður á söguslóðum og sýnir myndir úr henni. Bókina prýða einstakar teikningar danska listamannsins Johannesar Larsens af söguslóðum Íslendingasagna sem hann teiknaði í tveimur ferðum til Íslands 1927 og 1930.

15:15-5:30
ÓÐSMÁL
Kynntar verða nýjar bækur frá útgáfunni Freyjuköttum sem birta rannsóknir á launsögn og táknmáli og miða að því að gera okkur læs á menningararf okkar Íslendinga. Bækurnar eru Að leggja Bifröst, Vitund og móðir náttúra og Baldur, Höður, Loki.

15:30-16:00
FRÁ HUGMYND AÐ BÓK
Bergrún Íris Sævarsdóttir spjallar um ferlið frá hugmynd að tilbúinni myndabók fyrir börn út frá nýútkominni barnabók sinni.

16:00-16:30
LEITIN AÐ TILGANGI UNGLINGSINS
Hver er tilgangur unglingsins? Í þessu stórskemmtilega uppistandi má (kannski) komast að því og heyra um leið dálítið um bókina Leitin að tilgangi unglingsins eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, Óla Gunnar Gunnarsson og Arnór Björnsson.

GÖNGUÁS, 1. HÆÐ:

13:00-15:00
HAMINGJUKRÚSIN
Skrifaðu á miða hvað gerir þig hamingjusama(n) og settu hann í hamingjukrúsina hennar Vikkölu Sólar. Herdís Björk Þórðardóttir og Kristín Margrét Kristmannsdóttir, höfundar bókarinnar Vikkala Sól og hamingjukrúsin, kynna bókina og spjalla við krakka og fullorðna um hamingjuna.
Gönguás, 1. hæð

14:00-17:00
TÓNLISTARHORN MAXA
Viltu kynnast Maxímús Músíkús og tónlistinni sem hann heldur svo mikið upp á? Hallfríður Ólafsdóttir og Linda Sigfúsdóttir bjóða upp á þrautir og tónlist með Maxa fyrir yngstu tónlistarmennina. Maxímús mætir á svæðið kl. 15:00.

14:00-16:00
CAFÉ SIGRÚN
Flestir þeir sem hafa áhuga á hollu mataræði og heilsusamlegum lífsháttum kannast við vefinn Café Sigrún þar sem Sigrún Þorsteinsdóttir skrifar um mat og heilsu. Nú er komin út bók og á bókamessunni mun Sigrún kynna hana og gefa gestum holla bita að smakka.

15:00-16:00
LÆRÐU AÐ TEFLA
Taflfróðir nemendur úr Rimaskóla leiðbeina krökkum sem vilja kynna sér skáklistina, fræðast um mannganginn eða taka eina skák. Til sýnis verður einnig bókin Meistarar skáksögunnar eftir Jón Þ. Þór. Þar er fjallað um bestu skákkappa heims á 19. og 20. öld.

15:00-17:00
MINECRAFT
Kynning og sýnikennsla á þessum vinsæla tölvuleik. Minecraft gefur ímyndunaraflinu og sköpunarkraftinum lausan tauminn. Spilarar geta ýmist spilað einir eða við aðra, reist mannvirki eða farið í ævintýraferðir.

SUNNUDAGUR:

BORGARSTJÓRNARSALUR:

13:00-14:30
SÖGUSTUND BARNANNA
Borgarstjórnarsalurinn verður sögustaður barnanna á barnastund Bókamessunnar. Þar geta börn og fullorðnir hreiðrað um sig og notið þess að láta höfunda nýrra barnabóka lesa fyrir sig. Eftirtaldir höfundar lesa í barnastund sunnudagsins:

Áslaug Baldursdóttir: Snuddustrákurinn
Bergún Íris Sævarsdóttir: Viltu vera vinur minn?
Edda Lára Lúðvígsdóttir: Lárus eignast systkini
Þórdís Gísladóttir: Randalín, Mundi og afturgöngurnar
Jóna Guðbjörg Torfadóttir: Ævintýragarðurinn
Jenný Kolsöe: Amma óþekka og tröllin í fjöllunum
Hilmar Örn Óskarsson: Kamilla Vindmylla og unglingarnir í iðunni

Sleipnir mætir í borgarstjórnarsalinn í lok sögustundarinnar og gefur börnunum bókamerki

14:30-15:00
KARNEVALÍA
Bragi Valdimar Skúlason og meðlimir úr Memfismafíunni skemmta börnum og fullorðnum með söng og tónlist í borgarstjórnarsalnum. Er Karnevalía plata? Já! Er hún bók? Já! Er hún platbók? NEI! Hér er komin sprellfjörug og léttkolsýrð myndskreytt barnaplata — eða ættum við kannski að segja söngskreytt ljóðabók fyrir börn? Eða myndasögu-bók með fylgitónlist fyrir fullorðna. Við vitum í raun ekkert hvað á að kalla þennan undarlega grip, en getum lofað góðri skemmtun og miklu stuði fyrir alla fjölskylduna.

16:00 – 17:00
GLÆPIR Í BORGARSTJÓRN
Katrín Jakobsdóttir alþingiskona og krimmafræðingur fær glæpasagnahöfundana Lilju Sigurðardóttur, Ragnar Jónasson og Yrsu Sigurðardóttur til sín í borgarstjórnarsalinn og spjallar við þau um nýútkomnar bækur þeirra. Bækurnar eru Gildran, Dimma og Sogið.

KAFFIHÚS RÁÐHÚSSINS:

13:00-13:30
KÓMEDÍUSTUND FRÁ BÍLDUDAL
Elfar Logi Hannesson, leikhússtjóri Kómedíuleikhússins, spjallar við gesti og les úr bókum sínum Bíldudalsbingó og Leiklist á Bíldudal.

13:30 – 14:30
SKÁLDAÐ OG SATT
Eftirtaldir höfundar lesa úr nýútkomnum bókum sínum:

Héðinn Unnsteinsson: Vertu úlfur
Guðmundur Brynjólfsson: Líkvaka
Hermann Stefánsson: Leiðin út í heim
Ásgeir hvítaskáld: Á flótta undan vindinum

14:30 – 15:00
ÍRLAND KALLAR
Í ár rekur a.m.k. tvær bækur á fjörur íslenskra lesenda frá frænkum okkar á Írlandi. Hér verður lesið úr bókum sem hafa vakið mikla athygli bæði heima fyrir og erlendis.

Ingunn Snædal les úr þýðingu sinni á Eins og stelpa eftir Emer O‘Toole. Að vera kona er gjörningur – hvernig við klæðumst og breytum líkömum okkar og lögum okkur að væntingum. Emer O‘Toole hefur ákveðið að endurrita þetta gamla handrit. Bók sem gjörbreytir því hvernig við hugsum um kynin.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Sigurlaug Gunnarsdóttir kynna írska metsöluhöfundinn Marian Keyes og lesa úr bókum hennar Rachel fer í frí og Er einhver þarna?

15:00 – 16:15
SÖGUR FYRIR ALLA
Lesið verður úr eftirtöldum bókum:

Ingibjörg Hjartardóttir: Fjallkonan
Ása Marín: Vegur vindsins
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Koparborgin
Davíð Þór Jónsson: Mórún – í skugga Skrattakolls
Silja Aðalsteinsdóttir: Grimmsævintýri fyrir unga og gamla

16:30-17:00
ÓMAGAR – FLÓTTAMENN FORTÍÐAR
Þórir Guðmundsson spjallar við Iðunni Steinsdóttur um Hrólf sögu, en þar rekur hún sögu langafa síns, Hrólfs Hrólfssonar. Hann háði harða lífsbaráttu sem sveitarómagi og síðar vinnumaður í lok 19. aldar. Hrólfur þráði að koma undir sig fótunum og búa konu sinni og börnum betra líf.

MATSALUR, 1. HÆÐ:

13:00-13:30
LISTIN AÐ DÁLEIÐA
Sólveig Klara Káradóttir, dáleiðslutæknir og hjúkrunarfræðingur, kynnir bókina Listin að dáleiða. Í kynningunni verður m.a. greint frá meðferðar-, og sjálfsdáleiðslu ásamt umfjöllun um hvað dáleiðsla er og hvernig hún virkar best.

14:00-14:30
STRÍÐSÁRIN 1938-1945
Páll Baldvin Baldvinsson kynnir bók sína um stríðsárin á Íslandi í máli og myndum. Í bókinni er sýnt hvernig landið varð órofa hluti af stríðinu sem fram fór um víða veröld. Grimmd, lífsþorsti, hetjudáðir og hryllingur stríðsátakanna er dreginn fram í fjölda frásagna, fréttaskeyta, leyniskjala, dagbóka og minningabrota auk þess sem verkið geymir aragrúa ljósmynda, innlendra sem erlendra, sem margar koma nú í fyrsta sinn fyrir almenningssjónir.

14:30-14:50
ENDURMINNINGAR ÚR NORÐURMÝRI
Páll Benediktsson, fyrrverandi fréttamaður, kynnir endurminningabók sína Loftklukkuna. Hið gamalgróna hverfi í Reykjavík, Norðurmýrin, birtist þar með öllum sínum leyndardómum, hrekkjusvínum, skotgröfum og stríðsátökum, andríkum íbúum og gestum þeirra. Bókin er bernskuminningabók Páls og ættarsaga.

15:00-15:20
STUDY CAKE
Smáforritið Study Cake er nýstárlegt tæki til að gera heimavinnu skemmtilegri með því að breyta henni í leik. Appið nýtist einnig vel til að efla læsi barna og unglinga. Aðstandendur forritsins eru þrír ungir menn, þeir Hörður Guðmundsson, Kjartan Þórisson og Kristján Ingi Geirsson. Þeir munu kynna appið og hvernig það getur nýst lesendum jafnt sem bókaútgefendum og rithöfundum og spjalla um framtíðarmöguleika þess.

15:30-16:00
VASABÓK PARTÝLJÓNSINS
Pétur Bjarnason hefur tekið saman ómissandi handbók fyrir veislustjóra eða hvern þann sem vill skemmta sér eða öðrum við alls kyns tækifæri. Brotið er aðgengilegt og smellpassar í vasa. Pésinn geymir limrur og kvæði eftir suma af færustu hagyrðingum Íslendinga og mun Pétur fara með þessi gamanmál og bjóða upp á skemmtilega stund fyrir núverandi og verðandi partýljón.

16:00 – 17:00
VÍSINDA-VILLI OG SÓLMYRKVA-SÆVAR
Vísinda-Villi og Sólmyrkva-Sævar fjalla um himingeiminn fyrir unga og aldna og kynna bók sína Vísindabók Villa – Geimurinn og geimferðir. Fróðlegt og skemmtilegt fyrir alla aldurshópa.

GÖNGUÁS – KYNNINGARBORÐ:

14:00-17:00
TÓNLISTARHORN MAXA
Viltu kynnast Maxímús Músíkús og tónlistinni sem hann heldur svo mikið upp á? Hallfríður Ólafsdóttir og Linda Sigfúsdóttir bjóða upp á þrautir og tónlist með Maxa fyrir yngstu tónlistarmennina. Maxímús mætir á svæðið kl. 15:00.

14:00-16:00
SÆTMETI – ÁN SYKURS OG SÆTUEFNA
Nanna Rögnvaldardóttir kynnir bók sína þar sem má finna uppskriftir að fjölbreyttu góðgæti þar sem hvorki er notaður unninn sykur, síróp, hunang eða tilbúin sætuefni, heldur bara ávextir. Boðið verur upp á holla og góða bita á meðan birgðir endast.

14:00-16:00
ELDUM SJÁLF
Dögg Hjaltalín kynnir matreiðslubók sína Eldum sjálf, sem er matreiðslubók fyrir börn. Bókin geymir skemmtilegar uppskriftir þar sem einfaldleikinn er í fyrirrúmi svo allir í fjölskyldunni geti átt ánægjulega stund í eldhúsinu. Boðið verður upp á smakk úr bókinni.

14:00-15:00
LÆRÐU AÐ FLÉTTA
Hér getur þú lært að flétta réttu fléttuna – hvort sem tilefnið er partý, brúðkaup eða bara skólinn. Í bókinni Fléttur – skref fyrir skref eru kynntar greiðslur sem byggjast á einfaldri grunntækni sem allir geta lært.

15:00-16:00
LÆRÐU AÐ TEFLA
Taflfróðir nemendur úr Rimaskóla leiðbeina krökkum sem vilja kynna sér skáklistina, fræðast um mannganginn eða taka eina skák. Til sýnis verður einnig bókin Meistarar skáksögunnar eftir Jón Þ. Þór. Þar er fjallað um bestu skákkappa heims á 19. og 20. öld.

UTAN DAGSKRÁR:

15:00-16:00 
LÍTIL SAGA ÚR ORGELHÚSI Í DÓMKIRKJUNNI
Bergþór Pálsson og Guðný Einarsdóttir flytja tónlistarævintýrið Lítil saga úr orgelhúsi sem leiðir hlustandann inn í undraheim pípuorgelsins. Sif, minnsta orgelpípan, er orðin þreytt á eilífu rifrildi í orgelhúsinu. Hún fer burt að leita sér að betri stað að búa á. Þá verður uppnám í orgelhúsinu! Höfundur texta er Guðný Einarsdóttir, Michael Jón Clarke samdi tónlistina og bókin er myndskreytt af Fanney Sizemore. Allir krakkar og fylgdarfólk þeirra eru velkomin í Dómkirkjuna þar sem Bergþór mun segja söguna og Guðný leika á orgelið.

17:00-19:00
AUSTANVINDUR Í TJARNARBÍÓI
Höfundar af austurlandi heimsækja höfuðborgina og bjóða upp á bókmenntastund á Tjarnarbarnum. Á boðstólum verður eitthvað fyrir alla.

Ljóð
Lubbi klettaskáld les úr fimmtu ljóðabók sinni, Skapalón
Urður Snædal les úr fyrstu ljóðabók sinni, Píslirnar hennar mömmu

Börn og ungmenni
Davíð Þór Jónsson les úr barnabók sinni, Mórún
Sigurlaug Gunnarsdóttir les úr þýðingu sinni, Skref fyrir skref eftir Louis Sachar

Skáldævisaga
Ásgeir Hvítaskáld les upp úr öðru bindi skáldævisögu sinnar, Á flótta undan vindinum

Ferðasaga
Unnur Sveinsdóttir les úr ferðabók sinni og Högna Harðarsonar, Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu

Kynjafræði
Ingunn Snædal les upp úr þýðingu sinni á bókinni Eins og stelpa eftir Emer O‘Toole

Skáldsögur
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir les úr þýðingu sinni á nýjustu bókinni um Önnu í Grænuhlíð, Anna í Asparblæ eftir L.M. Montgomery
Sigurlaug Gunnarsdóttir les úr þýðingu sinni á Er einhver þarna? Eftir Marian Keyes.

Dagur íslenskrar tungu

$
0
0

Í dag fögnum við Degi íslenskrar tungu í tíunda sinn. Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, var valinn til að halda upp á daginn og var það eftir tillögu frá menntamálaráðherra, haustið 1995. Um leið og Dagur íslenskar tungu er hátíðisdagur þá er hann einnig nýttur til að beina sjónum að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Viðburðir eru víðsvegar um landið á degi íslenskrar tungu 2015 hér í Bókmenntaborginni Reykjavík er eftirfarandi dagskrá:

Dagskrá í Árnagarði á vegum Mímis, félagi stúdenta í íslenskum fræðum

Dagskráin hefst kl. 17:00 í stofu 301 í Árnagarði þann 16. nóvember. Boðið verður upp á kaffiveitingar í hléi. Dagskráin er svohljóðandi:
-Þórunn Sigurðardóttir: „Það er mín hollust harmabót“. Sálfræðimeðferð í bundnu máli á 17. öld.
- Hallgrímur J. Ámundason: Örnefni í Vesturbænum
- Sveinn Yngvi Egilsson: Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist
- Samtökin ’78: Mikilvægi hinsegin orðaforða
- Einar Lövdal: Tónlistaratriði
Kári Tulinius og Valgerður Þóroddsdóttir lesa úr nýútkomnum ljóðabókum sínum Brot hætt frum eind og Það sem áður var skógur.

Jónas-crop

Hver var Jónas? Kvikmynd á Borgarbókasafni Grófinni

Á degi íslenskrar tungu verður sýnd leikin heimildarmynd um afmælisbarn dagsins, Jónas Hallgrímsson, sem kvikmyndafyrirtækið Lífsmynd gerði í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli þjóðskáldsins árið 2007. Meðal leikenda eru Steinn Ármann Magnússon, Valdimar Flygering og Þröstur Leó Gunnarsson. Myndin er sýnd í Kamesinu upp á 5. hæð í Grófarhúsi kl. 15.

Vísubotn 2015

Menntamálastofnun efnir til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2015, í fimmta sinn. Kveðskaparlist er merkilegur þjóðararfur sem vert er að halda á loft og hvetja nemendur til að stunda. Í keppninni spreyta nemendur sig á því að botna fyrriparta sem að þessu sinni eru eftir Helga Zimsen. Um er að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi verða veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl. Vonast er til að sem flestir skólar taki þátt í þessu verkefni. Hér má lesa um úrslit keppninnar í fyrra.  Nánari upplýsingar um keppnina verða á vefsíðu Menntamálastofnunar innan tíðar.  Á safnvef Menntamálastofnunar, dagur íslenskrar tungu, er einnig fjöldi áhugaverðra verkefna sem nota má í tilefni dagsins. Þar má einnig nálgast efni vísnasamkeppninnar síðustu ár undir hnappnum Vísur og limrur .

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin fagnar 20 ára afmæli sínu á þessu ári. Eins og fyrr hefst hún formlega á degi íslenskrar tungu.  Í flestum skólum landsins er dagsins minnst með viðhöfn og víða koma eldri nemendur inn í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð. Verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp, haldnar eru ljóða- og smásagnasamkeppnir, ljóð Jónasar Hallgrímssonar eru kynnt, íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir og fleira mætti nefna.

Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk er sprotaverkefni út frá Stóru upplestrarkeppninni og byggist á sömu hugmyndafræði en er sniðið að yngri nemendum. Verkefnið hefst í sjötta sinn í Hafnarfirði og mjög víða á landinu síðast liðinn vetur eða í 60 skólum. Skýrslur um þetta skemmtilega verkefni eru á heimasíðu Stóru upplestrarkeppninnar og þar er einnig flest það sem tengist Litlu og Stóru upplestrarkeppninni.

Málþing í Hallgrímskirkju um Viðeyjarbiblíu (1841) kl. 12.10.

Dagskrá:

Dr. Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur, er málstofustjóri og flytur með inngangsorðum stutta kynningu á Viðeyjarbiblíu.

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, opnar rafrænan aðgang að Viðeyjarbiblíu.

Dr. Guðrún Kvaran prófessor emerítus: Handritið ÍB 507 4to og Viðeyjarbiblía.

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor: „Allir dauðlegir menn skulu sjá.“ Nokkur einkenni á Jesajaþýðingu Sveinbjarnar Egilssonar.

Íslensk veðurorð

Hvert er þitt eftirlætis veðurorð? Í íslensku eru fjölmörg og fjölbreytileg orð notuð um veður og veðurfar. Dagana 9.–16. nóvember verður vakin athygli á nokkrum þeirra áFacebook - og Twitter -síðum dags íslenskrar tungu. Þrjú veðurorð með skýringum verða birt daglega. Sum orðin eru lítið notuð en önnur algengari. Merkingarskýringar eru fengnar úr Íslenskri orðabók. Fólk er hvatt til að segja frá sínum eftirlætisveðurorðum á Facebook og Twitter og merkja færslurnar með myllumerkinu ‪#‎islenskvedurord‬.

Hundur í óskilum í Gljúfrasteini

Hljómsveitin Hundur í óskilum mun koma fram í Gljúfrasteini mánudaginn 16. nóvember kl. 17 og aðgangur verður ókeypis. Þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson munu fara á hundavaði í gegnum nokkrar af þekktustu skáldsögum Halldórs í tali og tónum. Með alvöruleysið að vopni rekja þeir söguþráð Sjálfstæðs fólks undir þekktu bítlalagi. Frægustu setningar Íslandsklukkunnar eru uppistaða annars hljóðgjörnings. Á milli eru sungin ljóð eftir Halldór, sagt frá bókum hans og öllum brögðum beitt til að opna sagnaheim hans fyrir unglingum.

Landsbyggðin:

Dagskrá  í hátíðarsal Háskólans á Akureyri  16. nóvember kl. 16.00.

- Kristjana Arngrímsdóttir syngur við undirleik Kristjáns Eldjárn Hjartarsonar
- Kristín og Anna Halldóra Sigtryggsdætur flytja rímnalög við kvæði Jónasar Hallgrímssonar
- Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur og dósent flytur erindið: Að alast upp á íslensku.
Boðið verður upp á léttar kaffiveitingar. Allir velkomnir

Í Bókasafni Garðabæjar er dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur.

Þar verða dregnar fram bækur um íslenskt mál og íslenskar bókmenntir hafðar í öndvegi. Skólakór Hofsstaðaskóla syngur fyrir gesti safnsins undir stjórn Unnar Þorgeirsdóttur.

Leik- og grunnskólar víðsvegar um landið halda daginn hátíðlegan:

Leikskólinn Drafnarsteinn heldur daginn hátíðlega og munu börni  fara á Borgarbókasafnið Grófinni og flytja lög og texta í tilefni dagsins. Dagskráin hefst kl. 15.30 og eru allir velkomnir.

Leikskólinn Sólvellir á Seyðisfirði býður foreldrum og velunnurum leikskólans í kaffiboð þar sem börnin syngja ljóð og sýna frumsamið skuggaleikhús 16. nóvember.
Á degi íslenskrar tungu ætla nemendur og kennarar í Heilsuleikskólanum Urðarhóli að koma saman í borðstofu skólans. Þar verður hver deild með sitt atriði, syngja, leika eða fara með kvæði.
Nemendur úr Selásskóla lesa fyrir leikskólabörn í leikskólanum Heiðarborg á degi íslenskrar tungu.  Einnig mun starfsfólk sýna leikritið Búkollu fyrir börnin í leikskólanum.
Í leikskólanum Brákarborg er hefð fyrir því að farið sé með ljóð og þulur eftir Jónas Hallgrímsson. Í fyrra var amma leikskólabarns fengin til að koma í heimsókn og lesa fyrir börnin og verður það endurtekið í ár.
Langholtsskóli býður elstu börnunum í hverfinu til sín og þar eru hópar frá hverjum leikskóla með atriði og fyrstubekkingar líka. Þar fá áhorfendur að heyra um ævi Jónasar Hallgrímssonar.
Í Bókasafninu á Húsavík verður 16. nóvember opnuð sýning á ljóðum og listaverkum barna í 4. og 5. bekk Borgarhólsskóla. Sýningin mun standa í 2 vikur.
Á degi íslenskrar tungu mæta börnin í fjórða bekk Rimaskóla í leikskólann Lyngheima. Þar verða þau með óvænta uppákomu í formi söngs, upplesturs eða leikþáttar úr ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Að henni lokinni fara Rimaskólabörnin inn á deildir og bjóða upp á lestur bóka fyrir leikskólabörnin.

Í Landakotsskóla verður haldið upp á afmælisdaginn með því að skreyta skólann með veðurorðum tæplega 200 nemenda sem eru á aldrinum fimm ára og upp í  10. bekk. Íslenskukennari skólans fann til 500 orða lista með orðum sem lýsa veðri sem kennarar hafa geta gluggað í ásamt öðru ítarefni. Í vikunni munu nemendur velja sér orð til umfjöllunar og annað hvort teikna stemningu orðsins, halda litla fyrirlestra hvert fyrir annað eða kynna þau með einhverjum hætti fyrir samnemendum sínum. Hugsanlega verða einhver ný orð til! Á afmælisdaginn sjálfan munu nemendur svo skreyta glugga skólans svo lesa megi veðurorðin um leið og horft er til veðurs. Í samsöng verða sungin lög við ljóð Jónasar.

Í Grunnskólanum á Reyðarfirði hefst dagurinn á því að fáni verður dreginn að hún og í framhaldi af því fara allir nemendur og kennarar inn í sal. Í salnum lesa sjöundubekkingar upp ljóð og haldin verður spurningakeppni þar sem nemendur keppa við kennara.
Á Barnaheimilinu Ósi verður degi íslenskrar tungu fagnað með því að halda “Litlu lestrarhátíðina”. Nokkrir rithöfundar munu lesa upp úr nýlegum barnabókum. Fjölskyldum barnanna er boðið hlýða á upplesturinn og njóta með börnunum sínum.

Tuttugu bækur tilnefndar

$
0
0

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku þýðingaverðlaunin

Þriðjudaginn 1. desember var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum hvaða fimmtán bækur eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2015. Jafnframt voru kynntar þær fimm þýðingar sem tilnefndar eru til Íslensku þýðingaverðlaunanna í ár.

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaunin eru veitt í þremur flokkum: flokki barna- og ungmennabóka, fagurbókmennta og fræðibóka og bóka almenns efnis og eru fimm bækur tilnefndar í hverjum flokki. Formenn dómnefndanna þriggja munu síðan velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki ásamt forsetaskipuðum formanni lokadómnefndar. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, á Bessastöðum. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvern verðlaunahafa.

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:

Arnar Már Arngrímsson
Sölvasaga unglings
Útgefandi: Sögur útgáfa

Gunnar Theodór Eggertsson
Drauga-Dísa
Útgefandi: Vaka Helgafell

Gunnar Helgason
Mamma klikk!
Útgefandi: Mál og menning

Hildur Knútsdóttir
Vetrarfrí
Útgefandi: JPV útgáfa

Þórdís Gísladóttir
Randalín, Mundi og afturgöngurnar
Útgefandi: Bjartur

 

Dómnefnd skipuðu:
Hildigunnur Sverrisdóttir formaður nefndar, Árni Árnason og Sigurjón Kjartansson.

 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:

Auður Jónsdóttir
Stóri skjálfti
Útgefandi: Mál og menning

Einar Már Guðmundsson
Hundadagar
Útgefandi: Mál og menning

Hallgrímur Helgason
Sjóveikur í München
Útgefandi: JPV útgáfa

Hermann Stefánsson
Leiðin út í heim
Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Jón Kalman Stefánsson
Eitthvað á stærð við alheiminn
Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu:
Erna Guðrún Árnadóttir formaður nefndar, Helga Ferdinandsdóttir og Knútur Hafsteinsson

Tilnefningar 2015

 

 

 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Dagný Kristjánsdóttir
Bókabörn
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Gunnar Þór Bjarnason
Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918
Útgefandi: Mál og menning

Héðinn Unnsteinsson
Vertu úlfur – wargus esto
Útgefandi: JPV útgáfa

Páll Baldvin Baldvinsson
Stríðsárin 1938 – 1945
Útgefandi: JPV útgáfa

Smári Geirsson
Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915
Útgefandi: Sögufélag

 

Dómnefnd skipuðu:
Pétur Þorsteinn Óskarsson formaður nefndar, Aðalsteinn Ingólfsson og Hulda Proppé

Verðlaun2015

 

Íslensku þýðingaverðlaunin

Bandalag þýðenda og túlka hefur frá árinu 2005 veitt verðlaun á alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl, fyrir íslenska þýðingu á erlendu skáldverki. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Gljúfrasteini, en svo vill til að dagur bókarinnar er einnig fæðingardagur Halldórs Laxness.
Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á fót til að vekja athygli á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska menningu og þeim afbragðsverkum sem auðga íslenskar fagurbókmenntir á ári hverju fyrir tilstilli þýðenda. Upphaflega kusu félagsmenn Bandalags þýðenda og túlka um tilnefnd verk, en fljótlega var ákveðið að fela óháðri þriggja manna dómnefnd að tilnefna fimm verk og velja verðlaunahafann. Tilnefningar eru kynntar samhliða tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Eftirfarandi þýðingar eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

 Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Nýsnævi – safn ljóðaþýðinga eftir 15 höfunda
Útgefandi: Dimma

Ásdís R. Magnúsdóttir
Rangan og réttan – þrjú ritgerðarsöfn eftir Albert Camus
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Brynja Cortes Andrésdóttir
Ef að nóttu ferðalangur eftir Italo Calvino
Útgefandi: Ugla

Jón Hallur Stefánsson
Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine
Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Silja Aðalsteinsdóttir
Grimmsævintýri, Philip Pullman tók saman og endursagði
Útgefandi: Mál og menning

Dómnefnd skipuðu:

Árni Matthíasson formaður nefndar, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir

Tilnefningar til Fjöruverðlauna

$
0
0

Í dag, miðvikudaginn 2. desember 2015, var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni Reykjavíkur í Grófarhúsi hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna. Tilnefnt er í þremur flokkum, flokki barna- og unglingabókmennta, fræðibóka og rita almenns eðlis og loks flokki fagurbókmennta. Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki. Borgarstjóri mun síðan veita verðlaunin í Höfða í lok janúar á nýju ári.

Eftirtaldar bækur eru tilnefndar:

Barna – og unglingabókmenntir

Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
Útgefandi: Bókabeitan

Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson
Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir teiknari og hreyfimyndagerðarmaður (formaður), Júlía Margrét Axelsdóttir blaðamaður og Þorbjörg Karlsdóttir bókasafnsfræðingur.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Dómnefnd skipuðu Erna Magnúsdóttir líffræðingur (formaður), Erla Elíasdóttir Völudóttir þýðandi og Sigurrós Erlingsdóttir íslenskukennari.

Fagurbókmenntir

Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Útgefandi: Textasmiðjan

Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur
Útgefandi: Forlagið

Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
Útgefandi: HKT/1005 Tímaritaröð

Dómnefnd skipuðu Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur (formaður), Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir íslenskukennari og málfarsráðgjafi og Salka Guðmundsdóttir leikskáld og þýðandi.

Rökstuðningur dómnefnda

Vetrarfrí
Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum.

Textinn rennur vel og er áreynslulaus og persónusköpun er einkar skýr, sérstaklega á aðalsöguhetjum. Í sögunni er flottur og áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá því að vera eðlileg tilvera unglinga og barna með þeim hversdagslegu vandamálum sem þar fylgja yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og sama hvar fólk er statt og líka í stríði; heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sínar smærri og stærri þrár, drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.

Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.

Koparborgin
Í Koparborginni birtist einstakur söguheimur, margslunginn og vel hugsaður í framandi og leyndardómsfullri fantasíu. Sagan er spennandi frá fyrstu blaðsíðu, falleg og hrikaleg í senn, og heldur bæði þaulvönum fantasíuaðdáendum sem og þeim sem eru nýgræðingar á þeim lestri og er það kostur hve aðgengileg hún er þrátt fyrir að bregða upp tilveru sem er víðsfjarri lesandanum.

Viðfangsefni Koparborgarinnar eru erfiðleikar sem börn þurfa að glíma við í heimi þar sem plága hefur geisað og snýst tilveran um að þrauka dag frá degi og er tilvera barnanna grimm, ekki síður en í heimi fullorðinna þar sem þau þurfa að gera allt til að halda lífi, jafnvel þótt það kosti líf annarra og vekur sagan upp ýmsar siðferðilegar spurningar og þá kemur hún inn á vináttu, að treysta á sjálfan sig og að tilveran er ekki alltaf öll sem hún sýnist.

Aðalsöguhetjan er sérlega vel skrifuð persóna, torræð og breysk og í heild er verkið fagurlega skapað þar sem galdrar, framandleiki og dulúð gefa sögunni heillandi blæ.

Randalín, Mundi og afturgöngurnar
Randalín, Mundi og afturgöngurnar segir skemmtilega sögu sem börn tengja við og skilja þar sem sagan hefur raunverulega tengingu við líf þeirra og þeirra dagsdaglegu vandamál og verkefni.

Sögusviðið er fullkomlega barnanna og þótt fullorðnir séu síður en svo víðsfjarri í sögunni eru þeir í algjöru aukahlutverki og sá fullorðinsheimur er fullkomlega séð út frá augum barnanna og þeirra málstað; oft á skondinn hátt þar sem til dæmis flökkusögur um kattakjöt á pítsum eru settar í nýtt og skemmtilegt samhengi.

Teikningarnar eru frábærar, setja léttan blæ á söguna og auka á gæði hennar. Uppsetning og letur framkallar eilítið gamaldags stemmingu og kaflafyrirsagnirnar eru afar góð viðbót og vekja eftirvæntingu.
Yfir sögunni er skondinn og léttur tónn og höfundur hefur næmt auga fyrir því eilítið skrýtna og skemmtilega í dagsdaglegu lífi og dregur fram stemningu þar sem lesendur skynja borgarumhverfið með öllum sínum krókum, kimum, ilmi og braki í jólasnjó.

Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld
Bókin hefur að geyma frumrannsókn Þórunnar Sigurðardóttur á lítt rannsökuðu efni, en í henni rýnir höfundur í íslensk tækifæriskvæði frá árnýöld, sem ort voru í minningu látinna, og sýnir fram á að þau heyri undir mismunandi kvæðagreinar.

Auk fræðilegrar dýptar hefur bókin mikla breidd í efnistökum. Þórunn skoðar félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðanna út frá samfélagsviðmiðum við ritunartíma og ber saman við hugmyndir nútímans. Jafnframt skoðar hún tengsl kvæðanna við heiður hins látna og einnig hvernig skáld gátu nýtt sér ritun erfiljóða til að auka eigin metorð.

Þau 17 kvæði sem birt eru í bókinni hafa hingað til verið varðveitt í handritum og sjást nú í fyrsta sinn á prenti, en þar á meðal eru tvö kvæði eftir íslenskar konur. Upprunalegur ritháttur textans er birtur samhliða nútímarithætti, sem gerir hann aðgengilegri fyrir lesendur.

Ástin, drekinn og dauðinn
Vilborg Davíðsdóttir fjallar hér á hispurslausan hátt um þá tilveru sem blasti við henni og eiginmanni hennar eftir að hann greindist með krabbamein.

Höfundur tekst á við áleitnar spurningar um lífið og dauðann og horfist í augu við hvort tveggja af hugrekki og æðruleysi. Bókin er skrifuð af mýkt og einlægni, Vilborg nálgast dauðann sem hluta af lífinu og vekur máls á kimum mannlífsins sem fólk veigrar sér við að ræða.

Um leið og dauðinn er til umræðu er lífinu tekið opnum örmum. Þegar meinið greindist höfðu hjónin þegar tileinkað sér lífsstíl þar sem árvekni var í fyrirrúmi, og einkenna slíkar hugleiðingar bókina.

Vilborg notar myndmál ævintýranna um baráttu sína og síns heittelskaða við krabbameinið. Meinið er kallað „drekinn“, baráttu prinsins við það lýkur á ári drekans samkvæmt kínversku tímatali og við tekur ár snáksins, eða ár endurnýjunar. Þannig fær lesandinn einnig að fylgjast með Vilborgu fóta sig þegar allt er yfirstaðið og takast á við sorgina.

Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum
Rof er tímabær bók um þýðingarmikinn hluta af reynsluheimi kvenna sem legið hefur að mestu í þagnargildi til þessa.

Í bókinni eru frásagnir 76 kvenna af fóstureyðingum sem höfundar hafa greint af kostgæfni og skipt í flokka. Greining höfunda setur frásagnirnar í samfélagslegt og fræðilegt samhengi og dýpkar þannig upplifun lesandans.

Lesandinn kemst ekki hjá því að horfast í augu við að á Íslandi er ákvörðun um fóstureyðingu ekki að fullu í höndum kvenna, heldur eru þær framkvæmdar í krafti kerfis sem vill svo til að er hliðhollt konum og þeirra ákvörðunarrétti. Þannig gæti kerfið á sama hátt dregið til baka þessi réttindi, sem konum eru í raun ekki tryggð með núgildandi lögum.

Útgangspunktur bókarinnar er að konur eigi rétt á að taka ákvörðun um fóstureyðingu á eigin forsendum og er því mikilvægt framlag til áframhaldandi réttindabaráttu kvenna og til þess að afnema þá bannhelgi sem legið hefur á umræðu um fóstureyðingar.

Humátt
Humátt er eftirminnileg, innihaldsrík og vönduð ljóðabók sem einkennist af skörpu innsæi, aðdáunarverðum stílbrögðum og óbilandi tilfinningu fyrir möguleikum ljóðsins. Bókin er uppfull af þeim nákvæmu en jafnframt kraftmiklu, óvæntu myndum sem eru eitt höfundareinkenna Guðrúnar Hannesdóttur.

Í þeim 42 ljóðum sem er að finna í fimmtu ljóðabók Guðrúnar mætir lesandanum firnasterkt myndmál og óumdeilanleg hugmyndaauðgi. Skáldið beitir ísmeygilegum húmor og meitluðu tungumáli til að draga upp myndir sem stundum vara aðeins augnablik en teygja sig þó til allra átta í tíma og rúmi. Tilfinningin fyrir fortíðinni, íslenskum alþýðuvísindum, náttúru og þjóðlegum stefjum blandast samtíma okkar í tímalausri rödd ljóðmælandans. Náttúran er síkvik og nálæg en klisjur eru víðsfjarri; Guðrún teymir lesandann stöðugt eftir óvæntum stígum.

Á stundum er rödd ljóðmælandans jafnvel óvægin, tungumálinu beitt á nístandi hátt, en undirtónninn er ávallt sannur og heill. Örugg tökin á ljóðforminu verða til þess að djúpum tilfinningum og brýnum spurningum er miðlað á hátt sem hreyfir við lesandanum og birtir honum áður óþekkta sýn. Úr listlegu samspili viðfangsefna og forms verður afar sterkt verk.

Mörk
Í Mörk skrifar Þóra Karítas Árnadóttir sögu móður sinnar, Guðbjargar Þórisdóttur. Sagan er skráð í fyrstu persónu Guðbjargar sem ólst upp í stórri og ástríkri fjölskyldu í húsinu Mörk í Reykjavík. En yfir hlýjunni og ástúðinni hvílir skuggi afans sem beitir Guðbjörgu kynferðislegu ofbeldi frá unga aldri.

Mörk er skrifuð af mikilli hlýju og einlægni. Hún er látlaus og dvelur ekki við ofbeldislýsingar, án þess að vera með tepruskap. Bókin nær að vera klisjulaus og þetta er nýr vinkill á sögu þolanda. Þetta er ekki saga um ónýtt líf heldur um manneskju sem nær að vinna úr hryllingnum og stendur uppi sem sigurvegari, þótt ekkert sé dregið úr alvarleikanum.

Til marks um úrvinnslu tilfinninga og þroska, sem Guðbjörg hefur náð, er klausa á blaðsíðu 112. Hún kallast á við nafnið á húsinu Mörk, sem var í senn heimili hennar og vettvangur ofbeldisins, og gefur titli bókarinnar þar með tvöfalda merkingu: „Nú veit ég hversu heimskulegt það var af sjálfri mér að ætlast til að ég sem barn gæti varið sjálfa mig og sett fullorðnum manni mörk.“

Tvöfalt gler
Tvöfalt gler er stutt skáldsaga, svokölluð nóvella, og í henni er skrifað um manneskju sem ekki oft fær rödd í íslenskum skáldskap; konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Konu sem að einhverju leyti er „úr leik“ og „tíminn hefur nagað“ eins og segir í sögunni. Þegar hún lendir í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, auk þess sem hún tekst á við álit fólksins í kringum sig. „Ástir gamalmenna eru ekki heilbrigðar hjónabandsástir sem miða að uppfyllingu jarðarinnar“ segir í Tvöföldu gleri, sem jafnframt sýnir fram á kosti slíkra ásta á einstakan máta.

Sagan lætur lítið yfir sér, eins og sagt er, en er þétt, fallega skrifuð og „stór“ þótt hún sé stutt. Lesendur verða nokkurs vísari um líf þeirra sem með skrauthvörfum eru kallaðir eldri borgarar en hétu hér áður fyrr gamalt fólk. Halldóra skrifar um hversdagslegar athafnir konunnar, hugsanir hennar um fortíð og framtíð og dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana.
Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Sagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

 

Níu nýjar Bókmenntaborgir UNESCO

$
0
0

Sex ný lönd í Bókmenntaborgarneti

Í dag, föstudaginn 11. desember 2015, útnefndi aðalritari UNESCO, Irina Bokova, 47 borgir frá 33 löndum sem Skapandi borgir UNESCO. Þar á meðal eru níu Bókmenntaborgir sem bætast við þær ellefu sem fyrir voru og eru Bókmenntaborgir UNESCO því orðnar tuttugu talsins.

Nýju Bókmenntaborgirnar eru:

Baghdad (Írak)
Barcelona (Spánn)
Lúblíana (Slóvenía)
Lvív (Úkraína)
Montevídeó (Úrúgvæ)
Notthingam (England)
Óbidos (Portúgal)
Tartu (Eistland)
Ulyanovsk (Rússland)

Fyrir voru, auk Reykjavíkur, borgirnar Dublin (Írland), Dunedin (Nýja-Sjáland), Edinborg (Skotland), Granada (Spánn), Heidelberg (Þýskaland), Iowa City (Bandaríkin), Kraká (Pólland), Melbourne (Ástralía), Norwich (England) og Prag (Tékkland). Það er sérstakt ánægjuefni að sjá svo mörg ný tungumál og landsvæði bætast í hópinn og ljóst að möguleikarnir á fjölbreyttu samstarfi aukast til muna. Reykjavík var fimmta borgin til að hljóta þennan titil og sú fyrsta utan ensks málsvæðis.

Í samstarfsneti Skapandi borga UNESCO (UNESCO Creative Cities Network) eru nú 116 borgir á sjö sviðum. Þau eru bókmenntir, handverk og alþýðulistir, hönnun, kvikmyndalist, margmiðlunarlist, matagerðarlist og tónlist.
Samstarfsnet Skapandi borga var sett á laggirnar árið 2004. Markmið þess er að stuðla að alþjóðlegri samvinnu borga sem leggja áherslu á skapandi starf sem drifkraft í þróun borgarinnar.

„Samstarfsnet Skapandi borga UNESCO felur í sér gríðarleg tækifæri til að efla hlutverk menningar við sjálfbæra þróun borga. Ég vil vekja athygli á þeim mörgu nýju borgum og löndum sem auðga nú samstarfsnetið og fjölbreytni þess“ sagði Irina Bokova nú þegar UNESCO fagnar tíu ára afmæli sáttmála um vernd og kynningu á fjölbreytni menningarlegrar tjáningar (Convention on the Protection and Promotion of the Diversity of Cultural Expressions). Með því að ganga í samstarfsnetið skuldbinda borgir sig til að deila árangursríkum starfsháttum og þróa samstarf sem ýtir undir sköpun og skapandi greinar, styrkir þátttöku í menningarlífi og til að gera menningu að hluta af borgarskipulagi og þróun borgarinnar.

Næsti ársfundur Skapandi borga UNESCO verður í Östersund í Svíþjóð í september 2016. Östersund er Matargerðarlistarborg UNESCO, en aðrar borgir frá Norðurlöndum í samstarfsnetinu auk Reykjavíkur eru Bergen í Noregi (matargerðarlist) og Helsinki í Finnlandi (hönnun).

Eftirtaldar borgir voru útnefndar á öðrum sviðum:

Adelaide (Ástralía) – Tónlist
Al-Ahsa (Saudí Arabía) – Handverk og alþýðulistir
Austin (Bandaríkin) – Margmiðlunarlist
Bamiyan (Afganistan) – Handverk og alþýðulistir
Bandung (Indónesía) – Hönnun
Belém (Brasilía) – Matargerðarlist
Bergen (Noregur) – Matargerðarlist
Bitola (Makedónía) – Kvikmyndalist
Búdapest (Ungverjaland) – Hönnun
Burgos (Spánn) – Matargerðarlist
Dénia (Spánn) – Matargerðarlist
Detroit (Bandaríkin) – Hönnun
Durán (Ekvador) – Handverk og alþýðulistir
Ensenada (Mexíkó) – Matargerðarlist
Gaziantep (Tyrkland) – Matargerðarlist
Idanha-a-Nova (Portúgal) – Tónlist
Isfahan (Íran) – Handverk og alþýðulistir
Jaipur (Indland) – Handverk og alþýðulistir
Katowice (Pólland) – Tónlist
Kaunas (Litháen) – Hönnun
Kingston (Jamaica) – Tónlist
Kinshasa (Lýðveldið Kongó) – Tónlist
Liverpool (Bretland) – Tónlist
Lubumbashi (Lýðveldið Kongó) – Handverk og alþýðulistir
Medellín (Kólumbía) – Tónlist
Parma (Ítalía) – Matargerðarlist
Phuket (Tæland) – Matargerðarlist
Puebla (Mexíkó) – Hönnun
Rasht (Íran) – Matargerðarlist
Róm (Ítalía) – Kvikmyndalist
Salvador (Brasilía) – Tónlist
San Cristóbal de las Casas (Mexíkó) – Handverk og alþýðulistir
Santos (Brasilía) – Kvikmyndalist
Sasayama (Japan) – Handverk og alþýðulistir
Singapore (Singapore) – Hönnun
Tongyeong (Suður-Kórea) – Tónlist
Tucson (Bandaríkin) – Matargerðarlist
Varanasi (Indland) – Tónlist

Sjá heildarlista Skapandi borga UNESCO

Vefsvæði Skapandi borga UNESCO

Viewing all 65 articles
Browse latest View live