Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 65

Sumarlestur Bókmenntaborga UNESCO

$
0
0

Viltu kynnast bókum frá öðrum Bókmenntaborgum?

Bókmenntaborgir UNESCO eru nú ellefu talsins. Auk Reykjavíkur eru í netinu borgirnar Dublin á Írlandi, Edinborg í Skotlandi, Dunedin á Nýja Sjálandi, Granada á Spáni, Heidelberg í Þýskalandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Kraká í Póllandi, Melbourne í Ástralíu, Norwich á Englandi og Prag í Tékklandi. Starfsfólk Bókmenntaborganna tók sig saman og útbjó lista yfir áhugaverðar bækur sem lesendur ættu að líta á þegar hugað er að sumarlestrinum.

Sumarbækurnar eru af ólíkum toga og þarna ætti því að vera eitthvað fyrir alla. Því miður hefur aðeins ein þeirra bóka sem koma frá öðrum Bókmenntaborgum  verið þýdd á íslensku en hinar eru allar fáanlegar á ensku, svo og á ýmsum öðrum tungumálum.

Gleðilegan sumarlestur!

Dublin

Let the Great World Spin (2009) eftir Colum McCann.

Colum McCann er rithöfundur frá Dublin, en býr nú í Bandaríkjunum. Nýjasta bók hans er TransAtlantic, sem er einnig áhugaverð lesning að sögn bókmenntaborgara í Dublin.

Let the Great World Spin gerist í New York á áttunda áratug síðustu aldar. Hún lýsir lífi ólíks fólks sem lifir og hrærist í borginni og þykir McCann vefa sögur þeirra saman á snilldarlegan hátt og gefa sannfærandi mynd af lífinu í New York. Bókin hefst á sögulegum atburði þegar Philippe Petit gekk á línu milli tvíburaturnanna í efstu hæðum árið 1974 og verða turnarnir að eins konar táknmynd í sögunni.

Let the Great World Spin vann til hinna virtu bandarísku verðlauna, National Book Award á útgáfuárinu.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Dublin

Edinborg

One Good Turn (2006) eftir Kate Atkinson.

Undirtitill þessara glæpasögu er A Jolly Murder Mystery og ætti það að segja eitthvað um tón sögunnar. Hún gerist á hinni árlegu Edinborgarhátíð, sem fer alltaf fram í ágúst og hún er því á næsta leyti núna í sumar. Vinsæl sjónvarpsþáttaröð hefur verið gerð eftir bókum Atkinson og hefur hún verið sýnd á RÚV undir heitinu Einkaspæjarinn. Téður spæjari er Jackson Brodie, sem margir íslenskir lesendur og sjónvarpsáhorfendur kannast eflaust vel við. Sagan hefst þegar Jackson og fleiri hátíðargestir verða vitni að fólskulegri árás þar sem þau bíða í röð eftir að komast inn á viðburð á hátíðinni. Það sem í fyrstu virðist vera reiði sem beinist að tilviljunarkenndu fórnarlambi reynist flóknara mál en svo.

Ein bóka Atkinson, Málavextir (Case Histories), hefur komið út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Edinborg

Dunedin

Whale Rider (1987) eftir Witi Ihimaera.

Witi Ihimaera var fyrsti rithöfundurinn af Maórí ættum til að gefa út bæði smásagnasafn og skáldsögu á Nýja Sjálandi. Hann er af blönduðum uppruna en lítur fyrst og fremst á sig sem Maórí höfund og frá því sjónarhorni skrifar hann. Bækur hans eru margar að einhverju leyti sjálfsævisögulegar, til að mynda er skáldsagan Nights in the Garden of Spain byggð á reynslu hans af því að koma út sem samkynhneigður kvæntur faðir tveggja dætra.

The Whale Rider er hans þekktasta verk á alþjóðlegum vettvangi, en samnefnd kvikmynd Niki Caro byggð á bókinni var frumsýnd árið 2002. Bókin fjallar um stelpuna Kahu, barnabarn höfðingja Maórí ættkvíslar í Whananga á austurströnd Nýja Sjálands.

Witi Ihimaera var University Burns Fellow við Otago háskóla í Dunedin árið 1975 og tók þátt í Dunedin Writers and Readers Festival nú í ár.

Sjá nánar um Witi Ihimaera 

Bókmenntaborgin Dunedin

Granada

El viajero del siglo / Traveller of the Century eftir Andrés Neuman (2009 á spænsku, ensk þýðing eftir Nick Caistor og Lorenza Garcia 2012).

Andrés Neuman býr í Granada en þangað flutti hann með fjölskyldu sinni frá Buenos Aires. Traveller of the Century (El viajero del siglo) er skáldsaga um glæp, ástir og hugmyndir. Í þessari sögulegu skáldsögu er tekist á við ýmis efni, svo bókmenntaþýðingar, kynlíf og stjórnmál. Hún segir frá ferðalangnum Hans sem kemur til Wanderburg (tilbúin borg) og ætlar að eyða nótt þar áður en hann nær lokaáfanga ferðalagsins. Áætlanir hans ganga þó ekki svo auðveldlega eftir þar sem Wanderburg reynist ólíkindastaður.

Bókin var valin ein af fimm bestu bókum á spænsku þegar hún kom út af blöðunum El País og El Mundo og hefur einnig unnið til annarra verðlauna. Hún var á stuttlista IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunanna 2014 og Independent Foreign Fiction Prize 2013.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Granada

Heidelberg

Der Vorleser / Lesarinn eftir Bernhard Schlink (1995 á þýsku, íslensk þýðing eftir Arthúr Björgvin Gíslason, 1998).

Lesarinn segir frá hinum fimmtán ára Michael Berg sem veikist hastarlega á leið heim úr skóla og kastar upp í húsasundi. Konan Hanna kemur honum til hjálpar og í framhaldinu hefst ástríðufullt samband þeirra sem lýkur þegar Hanna hverfur fyrirvaralaust. Mörgum árum síðar sér Michael hana aftur, en nú situr hún á sakamannabekk.

Bernhard Schlink ólst upp í Heidelberg frá tveggja ára aldri og stundaði grunnnám sitt í lögfræði þar áður en hann hélt til Berlínar. Hann er lögfræðingur og rithöfundur og voru fyrstu bækur hans sakamálasögur. Lesarinn er hans þekktasta verk en eftir henni var gerð fræg kvikmynd árið 2008, The Reader,  með Kate Winslet og Ralph Fiennes.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Heidelberg

Iowa City

Gilead (2004) eftir Marilynne Robinson.

Þetta er önnur skáldsaga Robinson, en fyrir hana hlaut hún bæði Pulitzer verðlaunin og National Book Critics Circle Award í heimalandinu. Bókin er sú fyrsta í seríu, þegar hafa þrjár bækur komið út (Home og Lila eru önnur og þriðja bókin) og sú fjórða er væntanleg. Gilead er skálduð sjálfsævisaga prestsins John Ames í smábænum Gilead í Iowa fylki. Söguna skrifar hann til ungs sonar síns eftir að hann kemst að því að hann er dauðvona.

Marilynne Robinson kennir við Iowa Writer’s Workshop.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Iowa City

Kraká

Solaris (1961) eftir Stanislaw Lem.

Stanislaw Lem er þekktastur fyrir vísindaskáldsögur og er einn af brautryðjendum á því sviði. Hann fæddist í Lwów en fluttist til Kraká eftir seinna stríð og lést þar árið 2006. Hann skrifaði heimspekileg verk, vísindaskáldskap og satírur. Solaris er vísindaskáldsaga og eitt af hans þekktustu verkum. Hún verið kvikmynduð þrisvar sinnum, m.a. af Tarkovskij, en nýjasta útgáfan er bandarísk frá 2002 með George Clooney í aðalhlutverki. Í bókinni er fjallað um minningar og minni, samband mannsins við sjálfan sig og leit að sambandi við líf eða þekkingu utan þess mannlega.

Þess má geta að á Lestrarhátíð í fyrra voru sýndar teikningar eftir Daniel Mróz við sögur eftir Lem á Borgarbókasafninu.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Kraká

Melbourne

The Slap (2008) eftir Christos Tsiolkas.

The Slap eftir ástralska höfundinn Christos Tsiolkas gerist í Melbourne. Hún segir frá manni sem löðrungar þriggja ára dreng og afleiðingar þess. Sagan er sögð frá sjónarhorni átta persóna sem líta atburðinn og það sem hann leiðir af sér ólíkum augum. Sjónvarpsþáttaröð sem var gerð eftir bókinni hefur verið sýnd á Rúv, en bæði hafa verið gerðar seríur eftir The Slap í Ástralíu og í Bandaríkjunum.

Tsiolkas býr og starfar í Melbourne. Hann er sonur grískra innflytjenda. Fyrsta skáldsaga hans er Loaded, en hún hefur einnig verið kvikmynduð sem bíómyndin Head On.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Melbourne

Norwich

Ritual Murder (1982) eftir S. T. Haymon.

Glæpasagnahöfundurinn Sylvia Theresa Haymon er frá Norwich. Hún er best þekkt fyrir sögur sínar um lögreglumanninn Ben Jurnet. Hún hlaut Silfurrýtinginn fyrir Ritual Murder en hún er ein bókanna um þessa löggu. Bókin þykir mjög spennandi, hún gerist í smábæ og segir frá morði á kórdreng. Kynþáttahatur, dularfull ritúöl og pólitískt drama blandast inn í söguna svo og fornleifauppgröftur í dómkirkju staðarins.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Norwich

Prag

Europeana: A Brief History of the Twentieth Century eftir Patrik Ouředník (2001 á tékknesku, ensk þýðing eftir Gerald Turner, 2005).

Patrik Ouředník er einn af þekktustu höfundum Tékklands og bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Europeana hefur komið út á 25 tungumálum, en þó ekki á íslensku.

Ouředník segir bókina vera skáldsögu en hún er síður en svo hefðbundin. Persónur eru engar og sumir sem hafa skrifað um hana líkja henni við ljóð eða óheft flæði. Bókin byggir á sögulegum atburðum og eins og titillinn gefur til kynna er Evrópa á tuttugustu öld í aðalhlutverki.

Europeana er sögð húmorísk, leikandi, truflandi og koma lesandanum stöðugt á óvart. Fyrir enska þýðingu bókarinnar hlaut Gerald Turner þýðingaverðlaun PEN.

Sjá nánar um bókina

Bókmenntaborgin Prag

Reykjavík

Skugga-Baldur (2003) eftir Sjón.

Sumarlestrarbókin frá Reykjavík er Skugga-Baldur eftir Sjón. Hún hefur verið þýdd á tungumál allra Bókmenntaborganna, á ensku sem The Blue Fox (Farrar, Straus & Giraux, 2013), á pólsku sem Opowieść islandzka (słowo/obraz terytoria, 2009), spænsku sem El zorro ártico (Nórdica Libros, 2008), tékknesku sem Syn stínu (Argo, 2008) og þýsku sem Schattenfuchs (S. Fischer, 2007).

Sjón hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina árið 2005 og hún hefur einnig verið tilnefnd til fleiri alþjóðlegra verðlauna. Skugga-Baldur segir frá grasafræðingnum Friðrik B. Friðjónssyni. Laugardaginn 17. apríl 1868 strandar seglskip út af Reykjanesi. Inni á milli lýsistunna á öðru þilfari finnst stúlka á unglingsaldri. Hún heitir Abba og reynist vera með Downs heilkenni. Friðrik tekur stúlkuna að sér og búa þau saman á föðurleifð hans þar til hún deyr. Hefjast þá átök Friðriks og séra Baldurs Skuggasonar, sem er prestur Dalbúa og ekki allur þar sem hann er séður.

Sjá nánar um bókina

Smelltu á bókakápurnar hér fyrir neðan til að sjá þær í fullri stærð:

Let the Great World Spin The Whale Rider One Good Turn Traveller of the Century Gilead Lesarinn Solaris The Slap Ritual Murder Europeana Skugga-Baldur

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 65