Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 65

Ljóðasýning í Edinborg

$
0
0

Ljóðum frá Bókmenntaborgum UNESCO varpað á vegg í Leith

Þann 3. mars síðastliðinn hófst ljóðasýning sem Bókmenntaborgin Edinborg stendur fyrir í hverfinu Leith í útjaðri borgarinnar. Þann dag er haldinn hátíðlegur í Bretlandi og víðar World Book Day og var fyrsta ljóðinu varpað upp af því tilefni. Ljóðin eru sýnd á byggingu Royal Bank of Scotland á Constitution Street. Frá Reykjavík varð ljóðið Nótt eftir Gerði Kristnýju fyrir valinu og er línum úr því varpað upp í enskri þýðingu Victoriu Cribb.

PROJECT-LeithPoetryProjections-Bus

Ljóðin eru ellefu talsins og koma frá Bókmenntaborgunum Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Reykjavík á Íslandi, Kraká í Póllandi, Dunedin á Nýja Sjálandi, Heidelberg í Þýskalandi, Granada á Spáni, Prag í Tékklandi, Dublin á Írlandi, Norwich á Englandi og Melbourne í Ástralíu. Þetta eru ellefu fyrstu borgirnar í samtökum Bókmenntaborga UNESCO en á þessu ári bættust svo níu aðrar borgir í hópinn þannig að núna eru borgirnar orðnar tuttugu.

Ljóðasýningin á Constitution Street er hluti af verkefninu Words on the Street (#wordsonthestreet) sem Bókmenntaborgin Edinborg stendur að með það fyrir augum að vekja athygli á ljóðlist á götum borgarinnar, bæði skoskri og alþjóðlegri. Verkefnið hófst í fyrra þegar Waverly lestarstöðin var skreytt með textum eftir Walter Scott og einnig mátti nýlega sjá bókmenntatilvitnanir á Jeffrey Street. Sýningin í Leith stendur til 13. mars og er einu ljóði varpað upp á dag.

Segja má að hún sé eins konar farandsýning, því upphaflega var þessum ljóðum og ljóðabrotum varpað upp í Kraká á ljóðavegg í markaðstorginu þar í bæ. Bókmenntaborgin Kraká hefur veg og vanda að því verkefni sem nefnist Multipoetry og stendur enn yfir. Þar hafa m.a. verið sýnd ljóð eftir Einar Má Guðmundsson, Elías Knörr, Dag Sigurðarson, Gerði Kristnýju, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Kára Tulinius, Kristínu Ómarsdóttur og Valgerði Þóroddsdóttur. Edinborg valdi ljóð frá þeirri ljóðasýningu og frá Reykjavík varð ljóð Gerðar Kristnýjar, Nótt, fyrir valinu. Línum úr því verður varpað upp þann 8. mars í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.

Fyrsta vers  ljóðsins „Through the Traffic of Tongues“ eftir Christine De Luca opnaði sýninguna, en það skrifaði hún til að fagna tíu ára afmæli Edinborgar sem Bókmenntaborgar UNESCO árið 2014. Þær eru svona:

Ten years we’re had of trafficking,
keeping borders open through words,
through discerning conversation,
the hospitality of books; citadels
of literature, fostered from a dream

Lesa má ljóðin frá sýningunni á vef Bókmenntaborgarinnar Edinborgar. Einnig má fylgjast með sýningunni á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #wordsonthestreet.

Reykjavik (2)

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 65