Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 65

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015

$
0
0

Þrjár bækur verðlaunaðar

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 10 febrúar 2016.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess fá verðlaunahafar skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripi sem hannaðir eru af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens. Er það opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, flokki barna- og ungmennabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015

 

Eftirtalin verk hlutu verðlaunin að þessu sinni:

Barna- og ungmennabækur

Gunnar Helgason: Mamma klikk! Útgefandi: Mál og menning

Fagurbókmenntir

Einar Már Guðmundsson: Hundadagar . Útgefandi: Mál og menning

Fræðirit og bækur almenns efnis

Gunnar Þór Bjarnason: Þegar siðmenningin fór fjandans til. Útgefandi: Mál og menning

Forseti Íslands setti samkomuna en því næst flutti Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu og kynnti tilnefnda höfunda. Þar vakti hann m.a. athygli á gildi bókmennta í íslensku samfélagi í hagrænu tilliti og talaði einnig um vaxandi gengi barnabókmennta. Forseti Íslands kynnti síðan niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu loks gesti í sterkum ræðum og var gleði fyrsta ræðumanns, Gunnars Helgasonar, heldur betur smitandi. Tónlistarmaðurinn KK kom einnig fram við athöfnina.

Víðsjá útvarpaði beint frá verðlaunaafhendingunni og má hlusta á ræður verðlaunahafa, Egils Arnar og forseta Íslands hér í Sarpinum (aðgengilegt til 10. maí 2016).

Tilnefnd verk

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Erna Guðrún Árnadóttir, Hildigunnur Sverrisdóttir, Pétur Þorsteinn Óskarsson og Árni Sigurjónsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og unglingabóka:

Arnar Már Arngrímsson: Sölvasaga unglings. Sögur útgáfa
Gunnar Theodór Eggertsson: Drauga-Dísa. Vaka Helgafell
Gunnar Helgason: Mamma klikk! Mál og menning
Hildur Knútsdóttir: Vetrarfrí. JPV útgáfa
Þórdís Gísladóttir: Randalín, Mundi og afturgöngurnar. Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:

Auður Jónsdóttir: Stóri skjálfti. Mál og menning
Einar Már Guðmundsson: Hundadagar. Mál og menning
Hallgrímur Helgason: Sjóveikur í München. JPV útgáfa
Hermann Stefánsson: Leiðin út í heim. Bókaútgáfan Sæmundur
Jón Kalman Stefánsson: Eitthvað á stærð við alheiminn. Bjartur

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

Dagný Kristjánsdóttir: Bókabörn. Háskólaútgáfan
Gunnar Þór Bjarnason: Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918. Mál og menning
Héðinn Unnsteinsson: Vertu úlfur – wargus esto. JPV útgáfa
Páll Baldvin Baldvinsson: Stríðsárin 1938 – 1945. JPV útgáfa
Smári Geirsson: Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915. Sögufélag

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka.

Tilnefningar eru kynntar þann 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna sama ár og þær koma út, hvort sem þeir eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda eða ekki, og greiða fyrir það hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks.

Á vefnum bokmenntir.is má sjá hvaða bækur hafa hlotið verðlaunin frá upphafi og einnig hverjar hafa verið tilnefndar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 65