Auglýst eftir umsóknum
Bókmenntaborgin Prag í Tékklandi auglýsir eftir umsóknum um gestadvöl frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO, þar á meðal Reykjavík. Skilafrestur umsókna er 29. febrúar næstkomandi.
Rithöfundar og þýðendur geta sótt um gestadvöl. Auglýst er eftir umsóknum um þrjú tímabil nú í ár: júlí og ágúst, september og október eða nóvember – 15. desember. Tilkynnt verður hverjir hreppa hnossið þann 31. mars.
Umsóknir og fyrirspurnir sendast til Rödku Návarova: radka.navarova@mlp.cz
Prag, sem hefur verið ein af Bókmenntaborgum UNESCO frá árinu 2014, býður erlendum rithöfundum og þýðendum að dvelja við ritstörf í borginni um tveggja mánaða skeið. Tekið er á móti sex höfundum ár hvert. Fyrst um sinn verður eingöngu tekið á móti höfundum frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO, en borgirnar eru nú tuttugu talsins að Prag meðtaldri. Við fyrstu úthlutun í fyrra sóttu höfundar frá Dublin, Dunedin, Melbourne, Norwich og Reykjavík um gestadvöl og var einn íslenskur höfundur meðal þeirra fjögurra sem urðu fyrir valinu. Þessir fjórir höfundar eru Liam Pieper (Melbourne), Sarah Perry (Norwich), David Howard (Dunedin) og Friðrik Rafnsson (Reykjavík).
Hér má lesa eða hlusta á viðtal sem David Vaughan tók við Liam Pieper og Katerinu Bajo um gestadvölina fyrir útvarpið í Prag.
Umsóknarferlið og gögn
Gögn sem fylgja þurfa umsókn (öll skjöl þurfa að vera á ensku):
• Ferilskrá
• Ástæða umsóknar (markmið, væntingar, verk sem vinna á að, hugmynd (concept) verks
• Listi yfir útgefin verk
• Brot úr birtu verki (þýðing ekki skilyrði hér); dómar um birt verk
• Kynning á væntanlegu verki (verki sem vinna á að á dvalartíma)
Við val á gestahöfundum er litið til:
• Áhuga á menningu í Prag / Tékklandi.
• Valds á enskri tungu.
• Birtra verka. Viðkomandi þarf að hafa birt a.m.k. eitt ritverk (ekki sjálfsútgáfa) eða fimm texta í viðurkenndu tímariti eða safnriti, tvö útvarpsleikrit eða eitt sviðsverk í tilfelli leikskálda, eða eitt þýtt verk eftir tékkneskan höfund í tilfelli þýðenda.
• Vilja til að taka þátt í menningarlífinu á staðnum (lesa upp, hitta nemendur, halda erindi eða taka þátt í öðrum viðburðum sem eru skipulagðir af gestgjöfunum eða tengjast menningalífinu í Prag).
• Vinnu. Viðkomandi þarf að nýta dvölina til vinnu við viðkomandi verk.
Höfundur sem hlotið hefur gestadvöl getur ekki sótt um aftur.
Innifalið:
Húsnæði, flugfar og dvalareyrir að upphæð €600 á mánuði.
Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári. Næst verður úthlutað mánuðunum janúar – febrúar, mars – apríl og maí – júní 2017. Kallað verður eftir umsóknum eigi síðar en 31. júlí 2016 og umsóknarfrestur um dvöl þessa mánuði verður í lok ágúst.