Quantcast
Channel: Bókmenntaborgin » Fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 65

Fjölmála ritsmiðja í Reykjavík

$
0
0

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO stóð fyrir fjölmála ritsmiðju fyrir konur sem fór fram á fimm mánaða tímabili frá janúar til maí 2015. Smiðjan er hluti af hátíðarhöldum Bókmenntaborgarinnar í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

Konurnar komu saman á Borgarbókasafni Reykjavíkur, sem var samstarfsaðili að verkefninu, og einnig unnu þær saman í gegnum netið. Angela Rawlings stýrði smiðjunni, en hún er kanadískur rithöfundur sem hefur búið á Íslandi um árabil. Konur af íslenskum og erlendum uppruna tóku þátt í þessu verkefni og spannar bakgrunnur þeirra vítt svið, bæði hvað varðar textagerð og tungumál. Markmið Bókmenntaborgarinnar með þessari smiðju var meðal annars að veita röddum kvenna af erlendum uppruna hljómgrunn og stuðla að þátttöku þeirra í bókmenntalífi borgarinnar. Tuttugu og þrjú tungumál komu við sögu í smiðjunni en margar kvennanna eru fjöltyngdar.

Bókmenntaborgin mun halda áfram samvinnu við hópinn og verður afrakstur smiðjunnar gerður sýnilegur á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg haustið 2015. Konurnar hafa skrifað ljóð og prósa á mismunandi tungumálum og verður hluti þessara texta þýddur á íslensku og birtur á hátíðinni.

Frá Breiðholti til Búlgaríu

Þrettán konur tóku þátt í smiðjunni og eru þær afar ólíkar, bæði hvað varðar reynslu og annan bakgrunn. Samanlagt tala þær 23 tungumál en þær eiga rætur að rekja til Póllands, Ítalíu, Breiðholts, Hafnarfjarðar, Costa Ricu, Brasilíu, Búlgaríu, Ástralíu, Grafarvogs, Garðarbæjar, Bandaríkjanna, Rússlands, Skotlands og Möltu.

RVK-writinglabEYES-small IMG_8161 PrinciplePhoto_Writing Workshop copyright Angela Rawlings Sharing texts at the Women's Writing Workshop. Copyr Angela Rawlings Multilingual Writing Workshop. Copyright Angela Rawlings IMG_8171 IMG_8173 IMG_8165 Texts were also presented by Skype. Copyr Angela Rawlings

Ljósmyndir: ©Angela Rawlings.

Þetta hefur Angela að segja um smiðjuna:

„Það var dásamleg ögrun að skipuleggja smiðju fyrir konur sem hafa reynslu af skrifum sem spannar allt frá áköfum áhuga til ritlistargráðu og sem hafa áhuga á að skrifa ólíkt efni – endurminningar, smásögur, vísindaskáldskap, skáldsögur, ævintýri, ljóðlist, tilraunaljóðlist, myndljóð eða myndasögur.

Smiðjan hófst á því að konurnar skrifuðu nýtt efni með hjálp ritlistaræfinga sem hafa það að markmiði að losa um ritstíflur og leiða fram mótunarleiðir tungumálsins. Að því loknu tókum við til við einstaklingsbundin skrif sem hver og einn þátttakandi mótaði sjálfur út frá eigin ástríðu, áhuga og tíma. Mikill tími fór í að þróa ritstjórnarleg vinnubrögð – bæði hvernig við tökum við gagnrýni og nýtum okkur hana og einnig hvernig við veitum gagnrýni.

Við lukum vinnunni á kraftmiklum tíma þar sem við þýddum verk hver eftir aðra, hlýddum á fyrirlestur um útgáfumál og fluttum svo eigin verk fyrir hópinn. Við fórum meira að segja í það hvernig maður á við hljóðnema þar sem við þurftum að eiga við vandfýsinn hljóðnema sem vildi alls ekki halda haus og var greinilega mjög viðkvæmur fyrir lokhljóðum!

Í samræðum okkar um útgáfumál talaði ég hreinskilningslega um hindranir sem mæta höfundum af erlendum uppruna á Íslandi. Við vorum allar fullar baráttuanda við lok smiðjunnar og látum okkur nú dreyma um hvernig megi koma þessum frábæru fjöltyngdu skrifum sem blómstra á Íslandi í dag á framfæri við almenning.“

Á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg í október í ár verður sjónum einmitt beint að ólíkum röddum kvenna, m.a. þeim sem hér komu saman.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 65