Textablöndun með Willonu Sloan
Viltu spreyta þig á að setja saman þinn eigin texta úr öðrum sem þegar eru til – „remixa“ texta líkt og gert er með tónlist?
Sunnudaginn 6. september stendur Reykjavík Bókmenntaborg fyrir ritsmiðju í Norræna húsinu með bandaríska rithöfundinum Willonu Sloan. Þar kynnir hún bandarísk skáld af frumbyggjaættum og höfunda sem tilheyra svokallaðri Harlem Renaissance hreyfingu. Þátttakendur nota síðan þennan efnivið til að búa til eigin texta og takast þannig á við þá upphaflegu, hver með sínu lagi.
Þessi skemmtilega smiðja snýst fyrst og fremst um að endurraða, endurskrifa, endurvinna og endurblanda. Hún er haldin í samstarfi við Bókmenntahátíð í Reykjavík sem eins konar upptakur að hátíðinni.
Allir geta tekið þátt, hvort sem fólk er vant skrifum eða ekki. Smiðjan stendur frá kl. 13:00 – 16:30.
Þátttaka er ókeypis en áhugasamir þurfa að skrá sig þar sem sætafjöldi er takmarkaður.
Upplýsingar og skráning: bokmenntaborgin@reykjavik.is
Willona Sloan
Willona Sloan býr og starfar í Washington DC. Hún er rithöfundur og blaðamaður. Hún hefur gefið út skáldskap og greinar í blöðum og tímaritum ásamt rafbókinni Come to Our Show: Punk Show Flyers from D.C. to Down Under. Willona hefur staðið fyrir fjölda ritsmiðja og bókmenntaviðburða í heimaborg sinni.
Willona var Artist Fellow hjá D.C. Commission on the Arts and Humanities og gestarithöfundur í Banff Centre for the Arts í Alberta í Kanada. Hún var einn þátttakenda í Iceland Writers Retreat 2014 og lýsir þessari fyrstu ferð sinni til Íslands í greininni Babtism by Fire and Ice.