Tvær íslenskar skáldsögur tilnefndar til Prix Médicis verðlaunanna
Prix Médicis verðlaunin eru frönsk bókmenntaverðlaun sem hafa verið veitt frá árinu 1958. Þau eru meðal þekktustu bókmenntaverðlauna í Frakklandi. Tilnefnt er í tveimur flokkum, flokki skáldsagna frumsömdum á frönsku og flokki þýddra skáldsagna. Í ár eru tvær skáldsögur íslenskra höfunda meðal þeirra þrettán bóka sem eru tilnefndar í flokki þýðinga, báðar þýddar af Eric Boury. Þetta eru bækurnar Illska (Le mal) eftir Eirík Örn Norðdahl og Fiskarnir hafa enga fætur (D’ailleurs, les poissons n’ont pas de pieds) eftir Jón Kalman Stefánsson. Forlagið Métailié gefur Illsku út og Gallimard skáldsögu Jóns Kalmans.
Aðrir höfundar sem eru tilnefndir til verðlauna í flokki þýddra skáldsagna eru Oya Baydar (Tyrkland), Javier Cercas (Spánn), Jane Gardam (Bretland), Hakan Günday (Grikkland), Deepti Kapoor (Indland), Alessandro Mari (Ítalía), Anna North (Bandaríkin), Joyce Carol Oates (Bandaríkin), Nathalie Rich (Bandaríkin), Robert Seethaler (Austurríki), Agata Tuszymska (Pólland). Meðal höfunda sem hafa hlotið verðlaunin í flokki þýðinga eru Doris Lessing, Michael Ondaatje, Umberto Eco, Paul Auster og Dave Eggers.
Tilnefningarnar voru kynntar í gær, þann 14. september 2015, af formanni dómnefndar, Alan Veinstein. Fimmtán bækur frumsamdar á frönsku eru tilnefndar.
Illska eftir Eirík Norðdahl, sem Forlagið gaf út, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012. Hún var einnig kosin besta skáldsaga ársins af bóksölum á útgáfuárinu. Sagan fjallar um parið Ómar Árnason og Agnesi Lukauskaite en inn í sögu þeirra fléttast m.a. minningar og frásagnir af helförinni, nýnasismi og atburðir í fortíð fjölskyldu Agnesar í Litháen.
Sjá umfjöllun um Illsku á vefnum bokmenntir.is
Fiskarnir hafa enga fætur kom út hja Bjarti árið 2013. Sagan gerist að miklu leyti á Suðurnesjum en teygir sig víðar. Hún segir frá Ara sem snýr heim til bítlabæjarins Keflavíkur frá Danmörku en hann á einnig ættir að rekja til sjómanna á Austfjörðum og er sú fjölskyldusaga hluti af efnivið bókarinnar. Jón Kalman hefur sjálfur sagt að bókin fjalli um leit þjóðar sem er á flótta frá því að horfast í augu við sjálfa sig.
Sjá umfjöllun um Fiskarnir hafa enga fætur á vefnum bokmenntir.is
Erik Boury þýðir báðar bækurnar eins og áður segir en hann hefur þýtt fjölmörg verk íslenskra höfunda á frönsku.